Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvenær var farið að nota reiðhjól á Íslandi?

Óskar Dýrmundur Ólafsson

Fyrstu fregnir af reiðhjólum sem vitað er til að hafi birst hérlendis á prenti eru þegar orðið hjólhestur er notað í grein um „Atgervi kvenna“ árið 1887 í Fjallkonunni. Í greininni eru rök færð fyrir því að þrátt fyrir allt geti konan nú ýmislegt og jafnvel í sumum tilvikum skarað fram úr karlmönnum.

Ein kona hefir nú á dögum náð að skara svo fram úr í stærðfræði, að enginn karlmaður er henni fremri. Önnur hefir á einum degi ferðazt 160 enskar mílur á hjólhesti (Bicycle).

Hér er verið að vitna til kvenna erlendis en víða voru hjólreiðar orðnar að tískuæði þar. En þrátt fyrir afrek kvenna var bent á að „ekki geta konur í síðum kjólum klifrað, hlaupið kapphlaup, riðið hjólhesti“ en í þá daga var það ekki talið sæma konum að vera öðru vísi klæddar en í síðum kjólum, líka þegar þær hjóluðu.

Ingibjörg Guðbrandsdóttir, leikfimi- og sundkennari og einn stofnenda Kvenréttindafélagsins var þekkt fyrir að fara um reiðhjóli. Hér sést hún sitja fyrir á reiðhjóli hjá ljósmyndara.

Fyrstu reiðhjólin sem vitað er um að hafi verið flutt til Íslands sáust í Reykjavík árið 1890. Þau áttu Guðbrandur Finnbogason verslunarstjóri hjá Fischer-versluninni og Guðmundur Sveinbjörnsson. Guðbrandur, sem bjó í Reykjavík, hýsti ungan mann sem hóf nám við Latínuskólann veturinn 1889. Sá hét Knud Zimsen og varð síðar verkfræðingur bæjarins og svo borgarstjóri Reykjavíkur. Í frístundum sínum gerði Knud sér margt til dægrastyttingar en þó var það eitt sem hann undi sér „löngum við, enda fágæt í Reykjavík í þann tíma, en það var að fara á reiðhjóli.“ Lýsing hans á fyrsta reiðhjólinu hérlendis sem enn er varðveitt á Þjóðminjasafninu er svohljóðandi:

Hjólgrindin var úr járni, en hjólin úr tré með járngjörðum. Ekkert drif var á því, og var aðeins hægt að stíga framhjólið. Það var því ekki auðvelt að fara hratt á því, og ókleift mátti heita að hjóla á því upp nokkurn verulegan bratta. Ég gerði heldur ekki víðreist á því, hjólaði aftur og fram um Aðalstræti og renndi mér á því niður Fischersund.

Reiðhjólið sem Knud lýsir hér var af Velocipede-gerð, eða „benskakare“ eins og það var kallað í Svíþjóð. Hjól af þeirri tegund voru vinsæl á sjöunda og áttunda áratug 19. aldar hjá nágrönnum okkar og víðar í Evrópu.

Hjól af Velocipede-gerð.

Annað reiðhjól sem átti eftir að vekja mikla athygli var í eigu Elíasar Olsen, bókhaldara hjá Fischer-versluninni. Það kom hingað til lands árið 1892 ásamt reiðhjóli Teits Ingimundarsonar úrsmiðs. Á því var risastórt framhjól og lítið afturhjól. Knud Zimsen segir í endurminningum sínum að hjól Olsens hafi tekið „hinum mjög fram, enda safnaðist fólk saman til að horfa á hann aka á því kringum Austurvöll, sem hann gerði ekki ósjaldan.“ Má ætla að hér hafi verið á ferðinni reiðhjól sem hét „Ordinary“ og varð mjög vinsælt á áttunda og níunda áratug 19. aldar í Evrópu. Þessi nýjung, sem reiðhjólið var þá hérlendis, var fyrst í eigu mjög fárra manna og hlýtur að hafa þótt nýstárleg mitt í allri hestaumferðinni. Enda fór það svo að reiðhjólið, sem í fyrstu var kallað Velocipede af sumum notendum, fékk það nafn sem því hafði verið gefið í Fjallkonunni 1887, nefnilega hjólhesturinn.

Óskar Clausen sem var staddur á Þjóðhátíð í Reykjavík laust fyrir aldamótin minnist þess að hafa séð til hjólreiðamanna sem voru að sýna listir sínar.

Á einni þjóðhátíðinni fyrir aldamótin voru sýndar hjólreiðar á Melunum, og voru þeir tveir, sem sýndu sig á hjólunum. Þótti þetta merkilegt. Annar var Jes Zimsen konsúll, þá ungur maður. Hann fór vel á hjóli, svo að dáðst var að, þó að hann reyndar skylli flatur áður en hann næði marki. Óheppni þessi var því að kenna, að annað hjólið sprakk en öllum þótti það bezt, að Jes meiddi sig ekkert og stóð upp skellihlæjandi.

Óskar greinir ekki nánar frá því í þessari lýsingu sinni hvaða þjóðhátíð þetta hafi verið en líklegt er að þetta hafi verið á árunum 1895-1898.

Sá sem fyrstur fór svo að nýta sér reiðhjólið í atvinnuskyni var Guðmundur Björnsson héraðslæknir, síðar landlæknir og þingmaður en hann hjólaði í sjúkravitjanir um allan bæ og meðal annars alla leiðina til Hafnarfjarðar til að sinna sjúklingum. Hjólreiðar Guðmundar bárust meira að segja inn í umræður Alþingis um rýmkun atkvæðisréttar sem Guðmundur studdi. Var hann sakaður um að nýta sér kosti hjólhestsins til atkvæðasmölunar fyrir kosningar í umræðum á Alþingi 1907. Eða eins og Dalvíkurþingmaðurinn Björn Bjarnason komst að orði: „Mér þætti gaman að sjá landlækninn okkar fara hjólandi um meðal allra vinnukvenna bæjarins til þess að „agitera“ fyrir einhverju borgarstjóraefni er hann vildi koma að.“

Í Reykjavík fór að bera á að konur hjóluðu líka upp úr aldamótum 1900. Í frétt Ísafoldar frá 1904 kemur fram að alls konar fólk hjólar í bænum. „Ungir og gamlir, karlar og konur, fara hér á hjólum nú orðið, alveg eins og í stórborgum erlendis. Færra kvenfólk þó að tiltölu en þar gerist að svo komnu.“ Í greininni kemur einnig fram að um sex konur eigi hjólhesta í Reykjavík og fleiri konur muni kunna á þá. Blaðið talar um að þetta séu „allt ungar stúlkur, heldri stúlkur sem kallað er. Meira er ekki um að vera þar. Þetta er mjög svo nýlega tilkomið. Það er nú fyrst að verða tíska hér að kvenfólk fari á hjólum.“

Fyrstu sögurnar sem berast af því að unglingar fari að eignast reiðhjól eru úr Reykjavík upp úr aldamótum.

Helstu heimildir og myndir:
  • Fjallkonan, 1887. 4. árgangur, 1. tölublað. Ísafold, 1904. 31. árgangur, 47. blað. Lúðvík Kristjánsson, 1948. Við fjörð og vík, brot úr endurminningum Knud Zimsens fyrrverandi borgarstjóra, Reykjavík.
  • Óskar Clausen, 1959. Með góðu fólki, Reykjavík.
  • Bicycle - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 16. 12. 2013).
  • Myndin af Ingibjörgu Guðbrandsdóttur er fengin úr bókinni Veröld sem ég vil. Saga Kvenréttindafélags Íslands 1907-1992, Kvenréttindafélag Íslands, Reykjavík 1993. Ritstjórn Vísindavefsins þakkar Erlu Huldu Halldórsdóttur fyrir að benda á myndina og útvega hana.


Þetta svar er brot af BA-ritgerð höfundar sem ber titilinn Saga reiðhjólsins á Íslandi á bilinu 1890-1993 með stuttu erlendu baksviði og birt með góðfúslegu leyfi. Hér hefur verið getið þeirra heimilda sem vísað er beint í en allan heimildalista ritgerðarinnar má sjá með því að smella hér.

Höfundur

sagnfræðingur, hverfisstjóri í Breiðholti

Útgáfudagur

17.7.2014

Síðast uppfært

13.3.2018

Spyrjandi

Þóra Geirsdóttir

Tilvísun

Óskar Dýrmundur Ólafsson. „Hvenær var farið að nota reiðhjól á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 17. júlí 2014, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=30835.

Óskar Dýrmundur Ólafsson. (2014, 17. júlí). Hvenær var farið að nota reiðhjól á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=30835

Óskar Dýrmundur Ólafsson. „Hvenær var farið að nota reiðhjól á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 17. júl. 2014. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=30835>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvenær var farið að nota reiðhjól á Íslandi?
Fyrstu fregnir af reiðhjólum sem vitað er til að hafi birst hérlendis á prenti eru þegar orðið hjólhestur er notað í grein um „Atgervi kvenna“ árið 1887 í Fjallkonunni. Í greininni eru rök færð fyrir því að þrátt fyrir allt geti konan nú ýmislegt og jafnvel í sumum tilvikum skarað fram úr karlmönnum.

Ein kona hefir nú á dögum náð að skara svo fram úr í stærðfræði, að enginn karlmaður er henni fremri. Önnur hefir á einum degi ferðazt 160 enskar mílur á hjólhesti (Bicycle).

Hér er verið að vitna til kvenna erlendis en víða voru hjólreiðar orðnar að tískuæði þar. En þrátt fyrir afrek kvenna var bent á að „ekki geta konur í síðum kjólum klifrað, hlaupið kapphlaup, riðið hjólhesti“ en í þá daga var það ekki talið sæma konum að vera öðru vísi klæddar en í síðum kjólum, líka þegar þær hjóluðu.

Ingibjörg Guðbrandsdóttir, leikfimi- og sundkennari og einn stofnenda Kvenréttindafélagsins var þekkt fyrir að fara um reiðhjóli. Hér sést hún sitja fyrir á reiðhjóli hjá ljósmyndara.

Fyrstu reiðhjólin sem vitað er um að hafi verið flutt til Íslands sáust í Reykjavík árið 1890. Þau áttu Guðbrandur Finnbogason verslunarstjóri hjá Fischer-versluninni og Guðmundur Sveinbjörnsson. Guðbrandur, sem bjó í Reykjavík, hýsti ungan mann sem hóf nám við Latínuskólann veturinn 1889. Sá hét Knud Zimsen og varð síðar verkfræðingur bæjarins og svo borgarstjóri Reykjavíkur. Í frístundum sínum gerði Knud sér margt til dægrastyttingar en þó var það eitt sem hann undi sér „löngum við, enda fágæt í Reykjavík í þann tíma, en það var að fara á reiðhjóli.“ Lýsing hans á fyrsta reiðhjólinu hérlendis sem enn er varðveitt á Þjóðminjasafninu er svohljóðandi:

Hjólgrindin var úr járni, en hjólin úr tré með járngjörðum. Ekkert drif var á því, og var aðeins hægt að stíga framhjólið. Það var því ekki auðvelt að fara hratt á því, og ókleift mátti heita að hjóla á því upp nokkurn verulegan bratta. Ég gerði heldur ekki víðreist á því, hjólaði aftur og fram um Aðalstræti og renndi mér á því niður Fischersund.

Reiðhjólið sem Knud lýsir hér var af Velocipede-gerð, eða „benskakare“ eins og það var kallað í Svíþjóð. Hjól af þeirri tegund voru vinsæl á sjöunda og áttunda áratug 19. aldar hjá nágrönnum okkar og víðar í Evrópu.

Hjól af Velocipede-gerð.

Annað reiðhjól sem átti eftir að vekja mikla athygli var í eigu Elíasar Olsen, bókhaldara hjá Fischer-versluninni. Það kom hingað til lands árið 1892 ásamt reiðhjóli Teits Ingimundarsonar úrsmiðs. Á því var risastórt framhjól og lítið afturhjól. Knud Zimsen segir í endurminningum sínum að hjól Olsens hafi tekið „hinum mjög fram, enda safnaðist fólk saman til að horfa á hann aka á því kringum Austurvöll, sem hann gerði ekki ósjaldan.“ Má ætla að hér hafi verið á ferðinni reiðhjól sem hét „Ordinary“ og varð mjög vinsælt á áttunda og níunda áratug 19. aldar í Evrópu. Þessi nýjung, sem reiðhjólið var þá hérlendis, var fyrst í eigu mjög fárra manna og hlýtur að hafa þótt nýstárleg mitt í allri hestaumferðinni. Enda fór það svo að reiðhjólið, sem í fyrstu var kallað Velocipede af sumum notendum, fékk það nafn sem því hafði verið gefið í Fjallkonunni 1887, nefnilega hjólhesturinn.

Óskar Clausen sem var staddur á Þjóðhátíð í Reykjavík laust fyrir aldamótin minnist þess að hafa séð til hjólreiðamanna sem voru að sýna listir sínar.

Á einni þjóðhátíðinni fyrir aldamótin voru sýndar hjólreiðar á Melunum, og voru þeir tveir, sem sýndu sig á hjólunum. Þótti þetta merkilegt. Annar var Jes Zimsen konsúll, þá ungur maður. Hann fór vel á hjóli, svo að dáðst var að, þó að hann reyndar skylli flatur áður en hann næði marki. Óheppni þessi var því að kenna, að annað hjólið sprakk en öllum þótti það bezt, að Jes meiddi sig ekkert og stóð upp skellihlæjandi.

Óskar greinir ekki nánar frá því í þessari lýsingu sinni hvaða þjóðhátíð þetta hafi verið en líklegt er að þetta hafi verið á árunum 1895-1898.

Sá sem fyrstur fór svo að nýta sér reiðhjólið í atvinnuskyni var Guðmundur Björnsson héraðslæknir, síðar landlæknir og þingmaður en hann hjólaði í sjúkravitjanir um allan bæ og meðal annars alla leiðina til Hafnarfjarðar til að sinna sjúklingum. Hjólreiðar Guðmundar bárust meira að segja inn í umræður Alþingis um rýmkun atkvæðisréttar sem Guðmundur studdi. Var hann sakaður um að nýta sér kosti hjólhestsins til atkvæðasmölunar fyrir kosningar í umræðum á Alþingi 1907. Eða eins og Dalvíkurþingmaðurinn Björn Bjarnason komst að orði: „Mér þætti gaman að sjá landlækninn okkar fara hjólandi um meðal allra vinnukvenna bæjarins til þess að „agitera“ fyrir einhverju borgarstjóraefni er hann vildi koma að.“

Í Reykjavík fór að bera á að konur hjóluðu líka upp úr aldamótum 1900. Í frétt Ísafoldar frá 1904 kemur fram að alls konar fólk hjólar í bænum. „Ungir og gamlir, karlar og konur, fara hér á hjólum nú orðið, alveg eins og í stórborgum erlendis. Færra kvenfólk þó að tiltölu en þar gerist að svo komnu.“ Í greininni kemur einnig fram að um sex konur eigi hjólhesta í Reykjavík og fleiri konur muni kunna á þá. Blaðið talar um að þetta séu „allt ungar stúlkur, heldri stúlkur sem kallað er. Meira er ekki um að vera þar. Þetta er mjög svo nýlega tilkomið. Það er nú fyrst að verða tíska hér að kvenfólk fari á hjólum.“

Fyrstu sögurnar sem berast af því að unglingar fari að eignast reiðhjól eru úr Reykjavík upp úr aldamótum.

Helstu heimildir og myndir:
  • Fjallkonan, 1887. 4. árgangur, 1. tölublað. Ísafold, 1904. 31. árgangur, 47. blað. Lúðvík Kristjánsson, 1948. Við fjörð og vík, brot úr endurminningum Knud Zimsens fyrrverandi borgarstjóra, Reykjavík.
  • Óskar Clausen, 1959. Með góðu fólki, Reykjavík.
  • Bicycle - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 16. 12. 2013).
  • Myndin af Ingibjörgu Guðbrandsdóttur er fengin úr bókinni Veröld sem ég vil. Saga Kvenréttindafélags Íslands 1907-1992, Kvenréttindafélag Íslands, Reykjavík 1993. Ritstjórn Vísindavefsins þakkar Erlu Huldu Halldórsdóttur fyrir að benda á myndina og útvega hana.


Þetta svar er brot af BA-ritgerð höfundar sem ber titilinn Saga reiðhjólsins á Íslandi á bilinu 1890-1993 með stuttu erlendu baksviði og birt með góðfúslegu leyfi. Hér hefur verið getið þeirra heimilda sem vísað er beint í en allan heimildalista ritgerðarinnar má sjá með því að smella hér.

...