Nútíma sagnfræði segir okkur að kabbala birtist fyrst í heilsteyptri mynd á 12. öld, en rekja megi rætur hennar allt til 1. aldar og til svokallaðrar Merkava-dulhyggju. Grundvallarrit stefnunnar var sett saman á 13. öld og kallast Sefer ha-zohar eða Bók dýrðarinnar. Zohar, eins og bókin er oftast nefnd, hefur að geyma predikanir auk sagna af rabbínanum og læriföðurnum Simoen ben Yohai og lærisveinum hans. Kabbalistar fullyrða að Zohar sé samin af Simoen, sem var uppi á 2. öld, en hebreskufræðingar vilja meina að bókin sé að mestu verk hins spænska Moses de León (1250-1305), eða Moses Ben Shem Tov svo notað sé hið hebreska nafn hans. Zohar er reyndar að mestu á arameísku en fræðimenn telja sig sjá að maður með hebresku sem móðurmál haldi á pennanum. Spánn var aðalvígi kabbalista á þessum tíma og miðstöð þeirra var í Guadalajara en þar bjó Moses de León mestalla sína ævi. Þegar Gyðingar voru gerðir útlægir frá Spáni 1492, breiddist kabbala út með þeim og óx að vinsældum þar sem hremmingar Gyðinga þóttu benda til þess að heimsendir væri í nánd. Útlegðardómurinn var þó hvorki upphafið né lokin á raunasögu Gyðinga og Zohar hélt áfram að hafa sterk áhrif á gyðingdóm þótt þau væru ekki alltaf áberandi. Einnig færðist stefnan milli trúarbragða og til varð kristin útgáfa af kabbala. Kabbala frá því um miðja 16. öld er kallað lúríanskt, kennd við Isaac ben Solomon Luria, og miðstöð hennar var í Safed í Galíleu. Lúríanskt kabbala hafði mikil áhrif á Hasidisma, trúarlega og félagslega hreyfingu Gyðinga frá 18. öld, sem gegnir miklu hlutverki enn þann dag í dag. Snemma á 20. öld varð mikill uppgangur kabbala í Palestínu og Kabbalamiðstöðin var stofnsett í Jerúsalem af Rav Yehuda Ashlag árið 1922. Þar hefur síðan verið miðpunktur kabbalaiðkunar í heiminum og vegur þess farið vaxandi síðustu ár með atbeina Internetsins. Fyrir nokkrum árum var mikil umræða um hinn svokallaða Biblíukóða. Ýmsir töldu, þar á meðal nokkrir fræðimenn, að í Fimmbókaritinu, Mósebókunum, væri að finna svör við öllum spurningum sem mönnum dytti í hug að spyrja. Höfðu menn þar fyrir sér staðhæfingar kabbalista að í Fimmbókaritinu væri öll saga heimsins falin, í fortíð, nútíð og framtíð. Ekki verður farið nánar út þá umdeildu sálma hér en fróðleiksfúsum bent á Internetið sér til aðstoðar (leitarorðin á ensku eru “The Bible Code”). Líkt og erfitt er að rekja sögu kabbala, er ekki auðvelt að gera grein fyrir boðskap og markmiðum stefnunnar í stuttu máli. Kabbala var lengi vel illa séð af veraldlegum öflum Gyðinga en jafnframt var kabbalistum sjálfum umhugað að kenningar þeirra bærust ekki óútvöldum til eyrna. Einnig töldu þeir persónulegar leiðbeiningar nauðsynlegar þeim er ástundaði kabbala því mikið vald væri í því falið. Kabbalistar þögguðu því sjálfviljugir niður í sér og skildu lengi vel lítið eftir sig. Kabbalistar telja kabbala vera jafngamla manninum. Adam hafi ekki bókstaflega verið fyrsti maðurinn, heldur frumvera sem hefur að geyma sálir allra manna. Honum hafi verið trúað fyrir kabbala sem síðan hafi verið til í munnlegri geymd allt þar til Zorah var rituð. Abraham og Móses eru lykilmenn í sögu kabbala og gjarnan eru nefndir til sögunnar menn eins og Isaac Newton og William Shakespeare þegar rætt er um áhrif kabbala á mannkynssöguna og vísindin. Einnig er oft talað um kabbala í samhengi við leynifélög ýmiskonar og er þar helst að nefna Frímúrararegluna. Heimildir og myndir:
- Heimasíða The Kaballah Centre
- Um kaballa og Zohar á vef Encyclopædia Britannica
- Um bókina The Secret Doctrine of the Kabbalah: Recovering the Key to Hebraic Sacred Science