- sem hluti af nokkrum ensímum sem sjá um flutning á löngum fitusýrum frá umfrymi til hvatbera (orkustöð frumna). Þannig getur efnið hugsanlega stuðlað að aukinni fitubrennslu
- sem hjálparefni við að viðhalda réttu hlutfalli milli acetyl-CoA og CoA-efnanna. Þannig getur karnitín hugsanlega stuðlað að minni uppsöfnun mjólkursýru í líkamanum undir miklu líkamlegu erfiði.
Niðurstöður langflestra rannsókna á áhrifum karnitíns á getu í íþróttum hafa ekki sýnt fram á að ráðlagður dagskammtur, sem margir framleiðendur gefa upp sem 5-6 g, bæti árangur í íþróttum. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að kanna hvort aukin neysla á karnitíni bæti getu í þolgreinum þar sem brennsla á fitusýrum til orkumyndunar er mikilvæg. Tímalengd flestra þessara rannsókna var 2-3 vikur með ofangreindum dagskammti. Eins og áður sagði hafa fáar rannsóknir sýnt fram á bætta getu í íþróttum þegar neysla á karnitíni hefur verið aukin. Sjaldnast var meira að segja dregin sú ályktun af niðurstöðum þessara rannsókna að aukin neysla á efninu hækki styrk þess í vöðvum og er ein möguleg ástæða fyrir því að efnið frásogist illa úr þörmum. Rannsóknir hafa einnig verið framkvæmdar til að kanna hvort karnitín hjálpi í baráttunni við aukakílóin og hvort aukin neysla valdi aukinni brennslu á fitusýrum frá fituvef líkamans. Líkt og með rannsóknir sem gerðar hafa verið á áhrifum karnitíns á árangur í íþróttum þá hefur ekki verið hægt að draga þá ályktun af niðurstöðum þessara rannsókna að aukin neysla á efninu stuðli að meiri fitubrennslu. Oftar en ekki hefur skýringin á því að aukin neysla á karnitíni sé ekki til hagsbóta, hvorki í íþróttum né í baráttunni við offituna, verið sú að líkaminn hafi í raun nægilega mikið magn af efninu til að anna eftirspurn. Þetta á við hvort sem einstaklingurinn er kyrrsetumanneskja og tekur efnið í þeim tilgangi að losna við fitu eða að hann eða hún er keppnismaður í fremstu röð; líkaminn hefur nægilegar birgðir fyrir hvoru tveggja. Eins virðist litlu máli skipta hvort við fáum nægilegt karnitín úr fæðunni, þar sem líkaminn virðist meira að segja framleiða nóg undir þeim kringumstæðum þegar lítið eða ekkert af efninu kemur úr matnum sem við borðum. Lítið sem ekkert hefur verið gert af því að rannsaka eituráhrif karnitíns á líkamann og ekkert er vitað um eituráhrif vegna langvarandi neyslu. Fram til þessa hefur verið talið að dagskammtur allt að 100 g hafi lítil sem engin eituráhrif. Ef farið er langt umfram 100 g á dag má búast við einhverjum óþægindum eða truflunum í meltingarvegi. Það virðist því sem líkami heilbrigðra einstaklingar sé fær um að anna eftirspurn eftir karnitíni undir flestum kringumstæðum. Þrátt fyrir það hafa framleiðendur karnitíns reynt að telja neytendum trú um að neysla efnisins leiði af sér bætta getu í íþróttum og að aukin neysla stuðli að aukinni brennslu á fitusýrum líkamans. Þegar fyrst var byrjað að rannsaka áhrif karnitíns á árangur í íþróttum og áhrif á fitubrennslu líkamans virtist sem efnið gæti haft jákvæð áhrif. Niðurstöður nýrri rannsókna sýna að svo er ekki og því er nú talið víst að aukin neysla á karnitíni hafi engin áhrif, hvorki á getu í íþróttum né á fitubrennslu líkamans. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Eru fæðubótarefni eins og prótínduft, kreatín og glútamín gagnslaus og peningasóun? eftir Sigurð V. Smárason
- Getur inntaka á ríbósa stuðlað að bættum árangri í íþróttum? eftir Ingibjörgu Gunnarsdóttur
- Hvað er kreatín? eftir Steinar B. Aðalbjörnsson
- The Sun: New York. Sótt 26.1.2010.
Þetta svar er örlítið breytt útgáfa af umfjöllun um karnitín á vef Matvælastofnunar og birt með góðfúslegu leyfi.