Garnaflækja myndast þegar lykkja á meltingarveginum snýr upp á sig. Einkennin geta stafað af tvennu. Annars vegar myndast teppa eða fyrirstaða í meltingarveginum sem getur leitt til glennu í kviðnum og uppkasta. Hins vegar getur garnaflækja leitt til truflunar á blóðflæði til þess hluta sem er handan flækjunnar. Garnaflækja er sársaukafull og veldur skemmdum sem versna eftir því sem loft og vökvi safnast fyrir í stíflaða hlutanum. Á endanum getur þetta leitt til dreps í þarmaveggnum, súrnunar líkamsvökva og dauða ef ekki er gripið inn í. Bráð garnaflækja krefst skjótra viðbragða, þar sem framkvæmd er skurðaðgerð til að leysa flækjuna og jafnvel fjarlægður hluti sem hefur skemmst varanlega. Af framansögðu er ljóst að svarið við spurningunni er nei. Garnaflækja stafar af innri þáttum í meltingarveginum, en ekki snúningshreyfingum líkamans alls. Heimildir og myndir:
- Volvulus á Wikipedia. Skoðað 18. 9. 2009.
- Intestinal Volvulus á Emedicine. Skoðað 18. 9. 2009
- Sigmoid Volvulus á Emedicine. Skoðað 18. 9. 2009.
- Teikning: Lucile Packard Children’s Hospital. Sótt 22. 9. 2009.
- Mynd af manni að rúlla: JohnHarveyPhoto.com. Sótt 23. 9. 2009.