Í vélinni er grunn panna sem vatn er sett í. Stungið er gat á eggin með stuttum prjóni og þau síðan sett í sérstaka grind þar sem þau standa upp á endann með góðu bili milli sín, án þess að snerta vatnið. Yfir öllu saman er glær hálfkúluhjálmur eða -lok með opi á stærð við fingurgóm efst til að hleypa gufunni út. Eggjasuðunni lýkur þegar vatnið er búið og tækið slekkur þá á sér sjálft. Tækinu fylgir mæliglas sem segir til um hversu mikið vatn eigi að nota, eftir því hversu harðsoðin eggin eiga að verða og eftir því hve mörg þau eru. Eins og við mátti búast á að nota því meira vatn sem eggin eiga að verða harðari. En hitt kemur kannski á óvart að það á að nota minna vatn eftir því sem eggin eru fleiri!Skýring okkar á þessu er sú að vatn losnar úr eggjunum og kemur í staðinn fyrir hluta vatnsins sem sett er á pönnuna.
