Helstu einkenni sjálfsofnæmislifrarbólgu er þreyta, verkir í kviðarholi og eymsli í liðamótum. Þessi einkenni geta átt við marga aðra sjúkdóma, meðal annars inflúensu svo að vissara er að leita læknis ef þeirra verður vart. Ef sjúkdómurinn þróast út í skorpulifur fara galllitarefni út í blóðrásina, setjast í húð og slímhúð og valda gulum lit sem kallað er gula. Einnig getur orðið vart við bólgnun kviðarhols vegna vökvasöfnunar, garnablæðingu eða geðtruflanir. Sjálfsofnæmislifrarbólga kemur fyrir í um 1-2 tilfellum af hverjum 100.000 íbúum á ári. Eins og með flesta sjálfsofnæmissjúkdóma er þessi lifrarbólga algengari hjá konum en körlum. Af hverjum 100 sem fá sjúkdóminn eru alls 70 konur. Ungar konur eru líklegri að fá sjúkdóminn heldur en þær sem eldri eru. Læknar geta oft spáð fyrir um sjúkdóminn ef sjúklingur er haldinn öðrum sjálfsofnæmissjúkdómum. Til þess að ganga úr skugga um að sjúkdómurinn sé til staðar þarf alltaf að taka vefjasýni en greining á heilsugæslustöð nægir ekki. Meðferð miðast við að hægja á ónæmisviðbrögðum en til þess eru notaðir sterar og ónæmisbælandi lyf. Meðferð er árangursrík í um 60–80% tilfella en stundum er þörf á lyfjum ævilangt. Aukaverkanir geta verið heiftarlegar og því forðast læknar langa lyfjagjöf sem mest. Í sumum tilfellum ber meðferð engan árangur og er lifrarígræðsla þá alvarlega íhuguð. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvað eru til margar tegundir af lifrarbólgu og hvað veldur þeim? eftir Magnús Jóhannsson
- Autoimmune Hepatitis á Gicare.com
- Lýðheilsustöð
- Autoimmune hepatitis
Spurningin hljóðaði upphaflega svona:
Autoimmune hepatitis cirrhoses. Mig langar til að vita sem mest um þennan sjúkdóm því að ég hef ekki fundið neitt á íslensku um hann.
Þetta svar er að mestu leyti eftir nemenda í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2008.