Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Það liggur ekki alveg á borðinu hvernig ætti að skilgreina ár á tunglinu. Braut tunglsins um jörð hallar aðeins um 5 gráður miðað við braut jarðar um sól. Tunglið hefur svokallaðan bundinn snúning miðað við jörð sem þýðir að það snýr alltaf nokkurn veginn sama yfirborðssvæði að jörð. Það snýst þess vegna einn hring um möndul sinn miðað við sól á mánuði; "sólarhringurinn" er einn tunglmánuður.
Möndull tunglsins í þessum hæga snúningi er sem næst hornréttur á brautarsléttu jarðar, tungls og sólar (það er að segja sléttuna eða planið sem hreyfing þessara hnatta fer fram í). Af því leiðir að það eru engin árstíðaskipti á tunglinu; sólargangurinn á tilteknum stað er hinn sami allt árið.
Þá sýnist ekki annað eftir til að skilgreina ár en það að karlinum í tunglinu sýnist sólin vissulega fara í hringi eftir festingunni, miðað við fastastjörnurnar, svipað og okkur sýnist. Hann getur mælt tímann sem líður frá því að sólin er á tilteknum stað í stjörnumerkjum Dýrahringsins þangað til hún kemur þangað aftur. Gallinn er bara sá að þessi tími er talsvert mislangur frá ári til árs, eftir því hvar tunglið er statt í braut sinni um jörð þegar að mælingunni kemur.
Tunglið er að þessu leyti líkast manni sem gengur í hringi á vörubílspalli sem ekur eftir hringlaga braut með marki á tilteknum stað. Umferðartími bílsins á brautinni er ekki heiltölumargfeldi af umferðartíma mannsins í göngunni á pallinum, þannig að maðurinn er ekki á sama stað í umferð sinni í hvert skipti sem bíllinn kemur í mark. Tíminn sem líður milli þess sem maðurinn kemur í markið ræðst þá auðvitað af því hvar hann er staddur í göngunni á pallinum, hvort hann er til dæmis fremst eða aftast á pallinum. Á sama hátt skiptir máli hvort tunglið er á undan jörð eða eftir þegar það leggur af stað í hringferðina og kemur í mark eftir hana. Tímasveiflan af þessu getur orðið allt að því vika til eða frá í hvorum enda.
Það er rétt að tunglið fer lengri leið um geiminn en jörðin af því að það er á sífelldri hringferð um jörð um leið og kerfi jarðar og tungls geysist áfram á ferð sinni um sól. En árið er ekki lengra á tunglinu en á jörðinni af þessari ástæðu, heldur er það ýmist lengra eða styttra vegna hreyfingar tunglsins miðað við jörðina sem fer sinn hring alltaf á sama tíma. Meðalárið á tunglinu er hins vegar jafnlangt og hér því að tunglið fer jafnmargar umferðir um sól og við þegar til lengdar lætur.
Að lokum má geta þess til gamans að hinn frægi stjörnufræðingur Jóhannes Kepler (1571-1630) skrifaði bók sem hann nefndi Draumurinn - eða stjörnufræði á tunglinu og er þar fjallað um ýmis atriði sem hér hefur verið getið. Tunglferðin sem þar er lýst hófst hér á Íslandi.
Heimildir og lesefni:
Kaufmann, William J., og Roger A. Freedman, 1999. Universe, 5. útgáfa. New York: Freeman.
Kepler, Johannes, Kepler´s Somnium: The Dream, or Posthumous Work on Lunar Astronomy. Edward Rosen þýddi og gaf út. Madison: The University of Wisconsin Press, 1967.
Þorsteinn Vilhjálmsson, Heimsmynd á hverfanda hveli, II. Reykjavík: Mál og menning, 1987.
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Er árið lengra á tunglinu en á jörðinni þar sem það snýst lengri hring en við?“ Vísindavefurinn, 26. janúar 2003, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3061.
Þorsteinn Vilhjálmsson. (2003, 26. janúar). Er árið lengra á tunglinu en á jörðinni þar sem það snýst lengri hring en við? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3061
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Er árið lengra á tunglinu en á jörðinni þar sem það snýst lengri hring en við?“ Vísindavefurinn. 26. jan. 2003. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3061>.