Eins og fram kemur í svari sama höfundar við spurningunni Hvaða lönd tilheyra Bretlandi? er Pitcairn-eyja í Suður-Kyrrahafi meðal þeirra örfáu eyja og svæða utan Bretlandseyja sem enn lúta yfirráðum Breta. Formlega fer samveldissendiherra Breta (British High Commissioner) á Nýja Sjálandi með málefni Pitcairn-eyjar en þing eða ráð tíu heimamanna fer með öll helstu innanlandsmál. Fulltrúar í ráðinu eru ýmist kosnir í almennri kosningu eða skipaðir og situr ráðið í eitt ár í senn.
Pitcairn-eyja er ein fjögurra eyja í Pitcairn-eyjaklasanum og sú eina sem er í byggð. Eyjan er um fimm ferkílómetrar að stærð og með afskekktustu eyjum í byggð. Íbúar Pitcairn eyjar eru rétt tæplega 50 talsins og búa flestir þeirra í Adamstown við Bountyflóa á norðurhluta eyjarinnar. Eyjarskeggjar stunda fiskveiðar og ræktun en aðal tekjulind þeirra er þó útgáfa og sala á frímerkjum til safnara og sala á handverki til skipsfarþega sem eiga leið hjá. Saga Pitcairn eyjar er um margt merkileg. Það er breskur sjóliðsforingi að nafni Philip Carteret sem telst hafa fundið eyjuna árið 1767 en hún var nefnd eftir skipverja Carterets, Robert nokkrum Pitcairn, sem fyrstur kom auga á hana. Eyjan var óbyggð til ársins 1790 þegar níu uppreisnarmenn af skipi hans hátignar Bounty settust þar að ásamt sex körlum og tólf konum frá Tahiti. Þegar þessir landnámsmenn höfðu komið sér fyrir og tekið það sem þeir töldu nýtilegt úr skipinu var það brennt til þess að komast hjá því að vekja athygli annarra sjófarenda sem kynnu að eiga leið hjá. Aðlögun að lífi í þessu nýja samfélagi hefur vafalaust reynst erfið og vitað er að átök voru manna á milli. Um aldamótin 1800, tíu árum eftir að hópurinn tók land á eyjunni, var aðeins einn karlmaður eftir á lífi og tíu konur en börnin voru orðin 23. Fyrstu 18 árin var ekkert samband við umheiminn, en árið 1808 uppgötvaði amerískur skipstjóri á selveiðiskipi þetta litla einangraða samfélag. Sá fundur vakti enga sérstaka athygli og sex ár liðu þar til eyjaskeggjar litu utanaðkomandi menn næst. Árið 1814 komu tvö bresk skip til eyjarinnar og markar það í raun lokin á einangrun Pitcairn-eyju frá umheiminum. Heimsóknum skipa á leiðinni milli Indlands eða Ástralíu og Suður Ameríku eða Evrópu (fyrir Hornhöfða) fjölgaði og áttu skipverjar bæði viðskipti við heimamenn og skildu eftir ýmiskonar gjafir. Einnig var töluvert um að hvalveiðiskip sem stunduðu veiðar í Kyrrahafi kæmu við á Pitcairn-eyju.
Í kjölfar þess að samskipti við umheiminn jukust settust örfáir menn til viðbótar að á Pitcairn-eyju og kvæntust heimasætum þar. Samfélagið hélt áfram að vaxa og dafna og rétt fyrir 1830 voru íbúar orðnir 66 talsins. Þessi fjölgun vakti nokkurn ugg hjá leiðtoga eyjarskeggja sem óttaðist að verið væri að ganga of nærri landinu, það gæfi ekki nóg af sér til þess að sjá öllum íbúum farborða, trjágróður færi minnkandi og skortur gæti orðið á ferskvatni. Því leitaði hann eftir því að íbúarnir fengju að flytjast til Ástralíu. Úr því varð ekki en hins vegar var ákveðið að Pitcairn-búar gætu sest að á Tahiti og í mars árið 1831 stigu allir eyjarskeggjar á skipsfjöl og héldu til nýrra heimkynna. Þrátt fyrir góðar móttökur gekk illa að lagast að samfélaginu á Tahiti. Auk þess komu ýmsir smitsjúkdómar illa niður á Pitcairn-búunum þannig að á fyrstu þremur mánuðunum dóu 10 manns úr þessum fámenna hópi. Það var því afráðið að snúa til baka til Pitcairn eftir aðeins fimm mánaða dvöl. Árið 1838 varð Pitcairn-eyja hluti af heimsveldi Breta þegar fyrsta stjórnarskrá eyjarinnar tók gildi. Segja má að í því hafi eyjarskeggjar verið nokkuð á undan sinni samtíð þar sem þarna var í fyrsta sinn í breskri stjórnarskrá kveðið á um jafnan kosningarétt kynjanna. Einnig er þar að finna ákvæði um skólaskyldu barna en slíkt hafði ekki sést í breskri stjórnarskrá áður. Þrátt fyrir misheppnaða búferlaflutninga árið 1831 voru flutningar ekki úr sögunni. Árið 1856, 25 árum eftir að íbúar Pitcairn sigldu til Tahiti og aftur til baka, yfirgáfu allir 194 íbúar eyjarinnar heimkynni sín á ný. Ástæður flutninga voru þær sömu og áður, óttast var að eyjan gæti ekki séð öllum farborða. Í ljósi reynslunnar var ákveðið að flytja ekki í annað mótað samfélag heldur settust íbúarnir að á Norfolk-eyju austur af Ástralíu en eyjan sú var þá í eyði. Norfolk-eyja hafði áður verði fanganýlenda. Vegna fyrri búsetu voru þar hús og vegir, búið að brjóta land til ræktunar og skilyrði því nokkuð góð. Þrátt fyrir það gekk sumum erfiðlega að fóta sig í þessum nýju heimkynnum og svo fór að árið 1858 fluttustu 16 manns til baka. Sex árum seinna bættust nokkrir við og voru íbúar Pitcairn-eyjar þá orðnir 43 talsins í fimm fjölskyldum. Í þetta skipti var lífsbaráttan nokkru harðari en áður. Skipakomur höfðu verið grunnurinn að viðskiptum við umheiminn en þeim hafði nú fækkað verulega í kjölfar samdráttar í hvalveiðum á þessum slóðum. Engar verulegar breytinga urðu á lífsháttum eyjarskeggja næstu áratugina. En með opnun Panama-skurðarins árið 1914 var Pitcairn-eyja allt í einu orðin vinsæll áfangastaður farþegaskipa sem fóru um skurðinn á leiðinni til eða frá Nýja Sjálandi. Sala handverks til ferðamanna varð smám saman mikilvæg tekjulind og það sama er að segja um útgáfu og sölu frímerkja sem hófst árið 1940. Enn þann dag í dag eru þetta helstu tekjulindir íbúanna. Heimildir: