Það sem skiptir mestu máli, samkvæmt vitnisburði Nýja testamentisins, er að ekkert, hvorki í þessu lífi né að því loknu, geti tekið okkur úr hendi Guðs, og þannig skilið okkur frá kærleika Guðs. Þessi hugsun kemur skýrt fram í eftirfarandi orðum Páls postula í Rómverjabréfinu:
Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum. (Róm 8.38-39)Bæði í Postullegu trúarjátningunni og í Níkeujátningunni er talað um upprisuna og eilíft líf. Í þeirri fyrri er notað orðalagið:
Ég trúi á ... upprisu holdsins/mannsins og eilíft líf.Í Níkeujátningunni segir aftur á móti::
Ég játa að ein sé skírn til fyrirgefningar syndanna og vænti upprisu dauðra og lífs hinnar komandi aldar.Hér er ekki útskýrt hvað upprisan felur í sér, aðeins viðurkennt að hún sé hluti af kristinni trú. Þegar höfundar guðspjallanna segja frá upprisu Jesús Krists er hvergi sagt frá því hvernig hún átti sér stað. Það er aðeins sagt að hann hafi risið upp. Engin vitni voru að því. Gröfin var tóm þegar konurnar komu að henni. Upprisa Krists er forsmekkurinn að því sem koma skal. Að trúa á upprisu holdsins eða hinna dauðu er að sætta sig við leyndardóminn sem er þar að baki. Við vitum ekki nákvæmlega hvað mun gerast eða hvað bíður okkar. Fagnaðarerindið, eða góðu fréttirnar, felast í því að við setjum traust okkar á kærleika Guðs. Í því felst hin kristna von, sem sr. Hallgrímur Pétursson lýsir svo vel í sálminum „Um dauðans óvissa tíma“ sem hefur verið sunginn við flestar útfarir hér á landi um langan aldur, og er enn. Andspænis köldum raunveruleika dauðans, gefur vonin um sigur Guðs yfir valdi dauðans sálmaskáldinu ástæðu til að játa trú sína með þessum vel þekktu orðum:
Ég lifi’ í Jesú nafni, í Jesú nafni’ ég dey, þó heilsa og líf mér hafni, hræðist ég dauðann ei. Dauði, ég óttast eigi Afl þitt né valdið gilt, í Kristí krafti’ ég segi: Kom þú sæll, þá þú vilt. (Sálmur 273, 13. vers)Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvert fer sálin þegar maður deyr? eftir Hauk Má Helgason og Sigurjón Árna Eyjólfsson
- Hvers vegna er fólk jarðað eða brennt? eftir Harald Ólafsson
- Er líf eftir dauðann? eftir Pétur Pétursson
- Getið þið sagt mér sem mest um Hallgrím Pétursson? eftir Kristján Eiríksson
- Flickr.com. Sótt 17.3.2009.