Í Mývatnssveit er talað um að eftir virkjun Laxár myndist ekki grunnstingull í henni. Hvað er og hvernig myndast svonefndur grunnstingull í ám?
Sigurjón Rist vatnamælingamaður lýsti þessu svo:
Frá náttúrunnar hendi fer rennsli úr Mývatni um grunnan flóa, sem heitir Breiða, og fellur úr flóanum til Laxár um þrjár kvíslar með hraungörðum og smáflúðum. Þegar Mývatn er autt, verður vatnið fyrir mikilli kælingu í norðan skafbyljum og frosti. Það kólnar niður í 0 stig. Kælingin heldur enn áfram, ísnálar myndast í vatninu. Þær berast í kaf, og á efstu brotunum færir straumiðan þær allt til botns. Þar festast þær á hraunsteina og svo hver við aðra og vex þá upp svonefndur grunnstingull, frauðkenndur ís, sem leggst í botninn líkt og ullarþel. Grunnstingullinn vex til yfirborðsins, og getur honum skotið upp úr vatninu. Þá myndast skjótt íshattur, svonefnd grunnstingulseyja, sem er glær ís -- lagnaðarís. Krap og smájakar berast þarna að og staðna í rásunum á milli grunnstingulseyjanna, og allt frýs saman. Þá hindrast rennslið, og getur farvegurinn stíflast algjörlega á skömmum tíma.Síðan útskýrir Sigurjón af hverju þetta gerist ekki líka neðar í Laxárdalnum. Vegna stærðar vatnsins hækkar vatnsborðið fyrir ofan klakastífluna mjög hægt og hún getur því staðið lengi. Ef vatnsflöturinn fyrir ofan stífluna er hins vegar lítill, þá hækkar vatnsborðið ört og hún brestur því fljótlega undan þrýstingnum. Að sjálfsögðu geta grunnstingull og krapastíflur myndast víðar en í Laxá, og nefnir Sigurjón sem dæmi Þjórsá hjá Urriðafossi. Við höfum engu við þetta að bæta, utan hvað fróðlegt er að bera þetta saman við stutt svar sama höfundar við spurningunni Hvers vegna frýs uppsprettuvatn ekki? Heimild:
Sigurjón Rist, "Vötn". Náttúra Íslands, 2. útgáfa breytt og aukin. Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1981.