Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Moskur eru fyrst og fremst bænahús. Þar fara venjulega ekki fram þær trúarlegu athafnir sem tíðkast í kristnum kirkjum, til dæmis brúðkaup og skírnir, en moskur gegna þó mikilvægu samfélagslegu hlutverki. Þær eru oft miðpunktur staðbundinna samfélaga og kringum þær eru reistir skólar, spítalar og verslanir, svo eitthvað sé nefnt. Moskur eru aðeins skreyttar táknum og áletrunum úr Kóraninum, eða nöfnum Múhameðs og samherja hans frá upphafi íslams. Greint er á milli tvennskonar moska, „jami“ sem ætluð er allri sókninni til föstudagsbæna, og „masjid“ sem notuð er til daglegrar bænagjörðar.
Moskur geta verið mjög ólíkar að byggingarlagi. Allar eiga þær þó nokkur atriði sameiginleg. Engin sæti er að finna í moskum, bænaiðkendur krjúpa berfættir á teppum á gólfi moskunnar fyrir framan veggskot (bænaskot), sem heitir „mihrab“ og snýr alltaf í átt til Mekka. Til hægri við veggskotið er stigapallur (predikunarstóll) sem kallast „minbar“. Þar fara trúarleiðtogar með predikanir og bænir. Við flestar moskur hefur verið reistur turn, „minaret“, og frá honum hrópa kallarar fimm sinnum á dag til að boða menn til bæna. Nú á dögum eru notaðir hátalarar til hjálpar við þetta og setja hljóðin þá sterkan svip á borgir múslima. Hægt er að komast í rennandi vatn í eða við moskur, til trúarlegrar hreinsunar.
Að öðru leyti geta moskur verið mjög ólíkar eins og sjá má myndum sem svarinu fylgja. Elstu moskurnar voru reistar með hús Múhameðs spámanns í Medína að fyrirmynd, en í mörgum tilfellum hefur eldri húsum verið breytt í moskur. Upprunalegt byggingarlag húsanna hefur þá ráðið miklu um útlit moskanna. Algengt var að kirkjum kristinna manna í Arabaríkjum væri breytt í moskur, frægasta dæmið um það er líklega kirkjan/moskan Ægisif í Istanbúl.
Heimildir og myndir:
Íslensk alfræðiorðabók, Örn og Örlygur, Reykjavík 1990
Þetta svar er eftir grunnskólanemanda á námskeiði Vísindavefsins sem haldið er í samvinnu við samtökin Heimili og skóla og Fræðslumiðstöð Reykjavíkurborgar vegna bráðgerra barna.
Rebekka Lynch. „Til hvers eru moskur og hvernig líta þær út?“ Vísindavefurinn, 21. janúar 2003, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3033.
Rebekka Lynch. (2003, 21. janúar). Til hvers eru moskur og hvernig líta þær út? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3033
Rebekka Lynch. „Til hvers eru moskur og hvernig líta þær út?“ Vísindavefurinn. 21. jan. 2003. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3033>.