Er eitthvert mark takandi á spádómum, draumaráðningum og þess háttar?en síðari hlutanum verða gerð sérstök skil í öðru svari um drauma. Fleiri spurningar um svipuð efni hafa borist og er þeim jafnframt svarað hér. Meðal þessara spurninga má nefna:
- Er hægt að spá fyrir um framtíðina með tarot-spilum? (Sunna Víðisdóttir)
- Hvers vegna er hægt að segja til um framtíð í gegnum spil, bolla og ýmislega hluti? Er það hægt? (Hrönn Egilsdóttir)
Þegar spádóma ber á góma í almennu samhengi er vert að hafa nokkur atriði ríkt í huga. Í fyrsta lagi gera þeir sem leggja þetta fyrir sig, spámennirnir eða spákonurnar, yfirleitt fjöldann allan af spádómum. Í því ljósi er auðvitað engin furða að sumir þeirra rætist. Í rauninni þyrfti að gera tölfræðiathugun á því, hversu oft spádómar tiltekins spámanns rætast, áður en kveðið er upp úr um það, hvort hann er „góður“ spámaður eða ekki. Líklega ætti þá að bera saman við samsvarandi hlutfall hjá Pétri og Páli, það er að segja hjá fólki sem ekki leggur þetta fyrir sig og veit ekki meira um viðfangsefnið en gengur og gerist. En svona athuganir á spádómum liggja yfirleitt ekki fyrir, jafnvel þótt um atvinnumenn sé að ræða. Í öðru lagi er vert að taka eftir því að spádómar „atvinnumanna“ af því tagi sem hér um ræðir eru oft býsna óljósir eða „loðnir“. Það er auðvitað með vilja gert þannig að erfitt verði að „hanka“ spámanninn á því eftir á að spádómurinn hafi ekki ræst. Jafnframt geta velviljaðir menn, hvort sem þeir eru beinlínis áhangendur spámannsins eða ekki, á hinn bóginn túlkað málin svo að spáin hafi einmitt gengið eftir. Um þetta eru mörg dæmi í spádómum sem fólk styttir sér stundir við að kynna sér nú á dögum, til dæmis bæði í stjörnuspám og í spám frá svokölluðum völvum. Í þriðja lagi kemur velvild viðtakandans einnig við sögu í tengslum við fjöldann og líkurnar þar sem segja má kjarna máls með gömlum málshætti: „Oft ratast kjöftugum satt á munn“. Eftir að spádómaflóðinu lýkur og samanburðurinn við veruleikann tekur við eru það nefnilega einmitt spárnar sem rætast sem margir taka eftir og halda á lofti, en hinar gleymast furðu fljótt sem rættust ekki, þó að þær hafi verið miklu fleiri. Í fjórða lagi hafa spádómar þann skemmtilega eiginleika að þeir stuðla oft að því sjálfir að þeir rætist, jafnvel þótt þeim hafi líkast til ekki verið ætlað það hlutverk í byrjun. Eitt frægasta dæmið um þetta í hugmyndasögunni er í forngrísku sögninni um Ödípus, en því var spáð fyrir honum við fæðingu að hann mundi verða föður sínum að bana og ganga að eiga móður sína. Foreldrar hans brugðust þannig við þessum spádómi að þeir létu bera barnið út og hugðu það dáið en svo varð ekki. Þegar Ödípus komst á legg þekkti hann ekki foreldrana og spádómurinn rættist. Þessi þúsaldagamla saga lifir enn góðu lífi, líklega meðal annars vegna þess að hún er alltaf að gerast í sífellt nýjum myndum, bæði einföldum og flóknum. Spádómar geta til að mynda opnað augu okkar fyrir ýmsu sem okkur hafði ekki dottið í hug að gera eða talið ómögulegt. Þeir geta líka fælt okkur frá því sem við viljum ekki láta gerast, hvort sem það síðan tekst eða mistekst eins og hjá foreldrum Ödípusar. Spámenn í merkingunni menn sem hafa það hlutverk að segja fyrir um óorðna hluti hafa verið til allt frá því áður en sögur hófust. Í samfélögum bronsaldar eins og til dæmis í Babýloníu höfðu prestar oft það hlutverk að segja fyrir um atburði í náttúrunni, svo sem veðrabrigði, uppskerubrest eða fyrirbæri himinsins eins og myrkva á tungli og sól eða hreyfingu reikistjarnanna. Slíkir spámenn komust fljótlega að því að betra var að segja fyrir um of marga válega atburði en of fáa, enda eru til sögur af því að spámenn sem létu undir höfuð leggjast að segja fyrir um tiltekinn atburð þurftu ekki að kemba hærurnar. Íslenskir vísindamenn hafa stundum lent í svipaðri aðstöðu og hinir fornu spámenn, að þurfa að segja fyrir um náttúruhamfarir sem voru ekki alveg vissar. Til dæmis hafa forsagnir um eldgos og jarðskjálfta engan veginn verið öruggar til skamms tíma. Sem dæmi um þetta má nefna Kröfluelda á árunum 1975-1978 þar sem eitt gosið tók við af öðru án þess að forsagnir um það gætu orðið skýrar. Menn brugðu þá á það ráð sem spámenn allra tíma hafa þekkt, að segja heldur fyrir um fleiri gos en færri (sjá myndir hér til upprifjunar). Með því sem sagt var hér á undan um órökstudda spádóma er alls ekki verið að segja til dæmis að allir spádómar um mannleg samskipti séu hjóm eitt eða tilbúningur. Þvert á móti er oft hægt að segja fyrir um slíkt með nokkurri vissu, ef menn eru glöggir og þekkja sæmilega til. Í því viðfangi er gaman að hugleiða frásögn Njáls sögu af því þegar Gunnar á Hlíðarenda er að leggja af stað í liðsbónarleiðangur um landið. Njáll vinur hans segir honum þá nákvæmlega til um, hverja hann skuli heimsækja, hvernig hann skuli haga orðum sínum á hverjum stað, hverju hinn muni svara og hvernig samtalið muni þróast upp frá því. Þessi frásögn er auðvitað stílfærð og ýkt en geymir engu að síður þann boðskap að menn eru misjafnlega spámannlega vaxnir. Nú var Njáll vissulega frægur fyrir þennan hæfileika sinn og kallaður forvitri, en það orð felur í sér vísun til þess að hann vissi marga hluti fyrir. En hann var þó jafnframt misvitur; honum gat skjöplast. En spádómar klókra manna geta engu að síður orðið svo glöggir að einhverjum kann að sýnast það jaðra við hið yfirnáttúrlega, samanber svar okkar við spurningunni Hvað geta vísindin sagt um yfirnáttúrlega hluti? Niðurstaðan af þessu spjalli er sú að víst getur verið mark að spádómum en þá veldur hver á heldur. Líklega er affarasælast að halda ró sinni og sjálfstæðri hugsun og vanda valið á þeim spádómum sem maður vill trúa. Höfundur þakkar Eyju Margréti Brynjarsdóttur skemmtilegar og gagnlegar umræður um þetta svar.