Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Leðurblökur (Chiroptera) hafa þróað með sér afar mismunandi leiðir við fæðuöflun. Fjölmargar tegundir éta ávexti og fræ og gegna mikilvægu hlutverki við að frjóvga ákveðnar tegundir blómplantna á miðbaugssvæðunum. Aðrar eru skordýraætur og nokkrar eru sérhæfðar til að sjúga blóð úr stórum spendýrum. Til eru leðurblökutegundir sem heita eftir vampírum á latínu, til dæmis Vampyressa nymphaea og Vampyrum spectrum. Hvorug þeirra er þó blóðsuga, en hinar eiginlegu blóðsugur, vampírur, eru leðurblökur af undirættinni Desmodontinae. Þær eru einu spendýrin sem lifa einungis á blóði. Í þessari undirætt eru aðeins þrjár tegundir, Desmodus rotundus (e. common vampire bat) sem finnst á svæðinu frá Mexíkó suður til Síle, Argentínu og Úrúgvæ, Diaemus youngi (e. white-winged vampire bat) sem lifir á svipuðum slóðum, og Diphylla ecaudata (e. hairy-legged vampire bat) sem hefur mesta útbreiðslu. Hún er algengust á svæðinu frá Texas til Perú en er þó einnig algeng í suðurhluta Brasilíu.
Desmodus rotundus.
Af þessum þremur tegundum er Desmodus rotundus langalgengust og benda stofnstærðarrannsóknir til þess að hún telji um 99% af öllum leðurblökum af undirættinni Desmodontinae.
Tegundir þessarar undirættar eru ekki litsterkar, oftast eru þær dökklitaðar, gráar, brúnar eða rauðbrúnar, enda eru þessi dýr einungis á ferli á næturna og stunda blóðdrykkjuna í skjóli myrkurs. Rannsóknir sýna að helst eru þær á ferli stuttu eftir að dimma tekur. Þessar leðurblökur eru ekki stórar, D. rotundus er til að mynda aðeins 15-50 g að þyngd, lengd skrokksins 6,35-8,9 cm og vænghafið rúmir 20 cm.
Tegundirnar þrjár lifa á svæðum þar sem loftraki er talsverður, þær eru algengar í skóglendi en finnast einnig á opnum svæðum, til dæmis þar sem kvikfjárrækt er algeng. Yfir daginn sofa þær og finna sér þá einhverja örugga og dimma staði eins og hella, yfirgefnar námur eða jafnvel yfirgefnar byggingar. Flestar vampírur halda sig yfirleitt einar þegar þær sofa, en stundum koma þær saman í smáum hópum, allt upp í 12 dýr. Stór sambýli þúsunda dýra eru afar sjaldgæf meðal vampíra en slík samfélög má þó finna meðal D. rotundus, líkt og þekkist hjá skordýra- og ávaxtaleðurblökum. Félagskerfi leðurblaka er afar þróað og eru tegundirnar þrjár, sem um ræðir, engin undantekning frá því.
Diphylla ecaudata
Nokkrir þættir í líkamsgerð vampíruleðurblaka eru ólíkir öðrum leðurblökum. Helst ber að nefna að vampírurnar hafa færri tennur því að þær hafa tapað jöxlum í efri kjálka. Framtennur og vígtennur eru hinsvegar stærri og verka sem klippur sem auðvelda vampírunum að klippa á skinn fórnarlambsins og komast að blóðrás þess. Vampírur leita sér uppi fórnarlömb með hjálp hitaskynfæris á trýni þeirra. Fyrst lenda þær skammt frá bráðinni og skríða hljóðlega að henni en sá eiginleiki þeirra finnst ekki hjá öðrum leðurblökum. Þegar vampírurnar hafa fundið út vænlegasta staðinn á bráðinni, þar sem auðvelt er að komast að blóðríkum æðum, byrja þær að sleikja hann og mýkja þannig skinnið og losa hár sem flækjast fyrir. Skurðsárið er V-laga, 1,27 sm á lengd, 0,63 sm á breidd og álíka djúpt. Algengastu bitstaðirnir eru augnlok, eyru, milli táa og endaþarmsop.
Þegar vampíruleðurblökur bíta, dæla þær í sárið efni sem kemur í veg fyrir blóðstorknun. Sennilegt er að með fylgi efnasambönd sem valda deyfingu, þannig að bitið raski ekki ró bráðarinnar sem yfirleitt er í fasta svefni. Vampíran drekkur nokkuð mikið magn í hvert skipti, sem samsvarar um 5 teskeiðum, en það er rétt tæplega helmingur líkamsþyngdar hennar. Þá kemur til kasta nýrnanna en nýrnastarfsemin er annað atriði sem skilur vampírur frá öðrum leðurblökum. Strax eftir að vampíran hefur innbyrt allt þetta blóðmagn fara nýrun að vinna á fullu við að losa vatn úr blóðmáltíðinni. Vampíran getur ekki flogið strax en nær að létta á sér með því að losa mikið þvag og þar með mest af vatninu sem kom með blóðinu. Eftir að hafa losað sig við nægjanlegt vatn, getur vampíran hafið sig til flugs á ný og farið á dvalarstaðinn þar sem hún sefur og meltir máltíðina.
Vampíruleðurblökur verða kynþroska við 9 mánaða aldur og meðgöngutími þeirra er 8-9 mánuðir. Vampíra gýtur einu afkvæmi á 1-2 ára fresti og nærir afkvæmið sitt með mjólk líkt og önnur spendýr gera. Í munnvatni vampíra er að finna blóðþynningarefnið draculin. Það hefur verið mikið notað til að meðhöndla sjúklinga sem hafa fengið hjartaslag.
Algengustu fórnarlömb vampíra eru nautgripir, hross, svín, asnar og einstaka sinnum menn. Diaemus youngi lifir hinsvegar einungis á blóði fugla.
Heimildir:
Hill, J. E., and J. D. Smith. 1984. Bats, A Natural History. University of Texas Press, Austin. 243 pp.
Wilson, D. E., and D. M. Reeder. 1993. Mammal Species of the World, A Taxonomic and Geographic Reference. 2nd edition. Smithsonian Institution Press, Washington. xviii+1206 pp.
Jón Már Halldórsson. „Getið þið sagt mér frá vampírum, til dæmis leðurblökuvampírum og iglum?“ Vísindavefurinn, 20. janúar 2003, sótt 22. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3024.
Jón Már Halldórsson. (2003, 20. janúar). Getið þið sagt mér frá vampírum, til dæmis leðurblökuvampírum og iglum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3024
Jón Már Halldórsson. „Getið þið sagt mér frá vampírum, til dæmis leðurblökuvampírum og iglum?“ Vísindavefurinn. 20. jan. 2003. Vefsíða. 22. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3024>.