Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Dýr hafa þróað með sér ýmsar „lausnir“ við öndun. Það fer mikið eftir stærð dýra hvort þau hafa sérstök líffæri til þess að fanga súrefni úr umhverfinu eða beita ósérhæfðum aðferðum eins og öndun gegnum húð.
Öndunarfærum má skipta í fjóra meginflokka: húð, tálkn, loftgöng og lungu.
Eftir því sem dýrið er stærra verður hlutverk hinna sérhæfðu öndunarlíffæra að auka yfirborð dýrsins og síðan er það eitt af hlutverkum blóðrásarinnar að flytja súrefni til frumanna og úrgangslofttegundir til öndunarfæranna þar sem þær eru losaðar úr líkamanum.
Loftskipti um líkamsyfirborð
Ótal tegundir hafa ekki sérstök öndunarfæri. Til dæmis nota svampar, liðormar og flatormar einungis líkamsyfirborð sitt til loftskipta. Ánamaðkar hafa ótal æðar við húðina og þar fer fram losun á koltvíildi (CO2) og upptaka á súrefni (02). Froskdýr nota einnig líkamsyfirborð sitt fyrir loftskipti við umhverfið á mjög virkan hátt, en þau hafa einnig lungu. Hjá froskdýrum er losun á koltvíildi 2,5 sinnum hraðari um skinnið en um lungu. Þess má geta að við mennirnir losum um 1% af koltvíildi um húðina og 99% gegnum lungu! Allt súrefni sem við tökum inn í líkamann fer í gegnum lungun.
Loftskipti um tálkn
Sá ávinningur sem tálkn og lungu veita stærri dýrum er að auka líkamsyfirborðið og þegar bygging tálknanna er skoðuð kemur þessi staðreynd greinilega í ljós. Tálkn eru ákaflega greinótt og gríðarlega mikið og flókið æðanet liggur um þau sem gerir flutning og loftskipti um þau skilvirkari.
Tálkn má finna hjá ýmsum hópum dýra svo sem fiskum og liðdýrum, meðal annars þurrlendiskröbbum og liðormum. Hjá mörgum froskdýrum, svo sem salamöndrum, er að finna tálkn sem vaxa út úr líkama dýranna en eru ekki inni í dýrunum eins og hjá fyrrgreindu flokkunum.
Loftæðakerfi
Mörg þurrlendisdýr (svo sem skordýr) hafa einhvers konar innvöxt á yfirborðslagi sínu sem þjónar sama tilgangi og tálknin, það er að segja að auka yfirborðið og stytta fjarlægð virks loftflæðis frá yfirborðinu til frumanna sem gerir loftskiptin árangursríkari. Kerfið getur gengið ef viðkomandi dýr eru smá, innan við 5 cm á lengd. Þetta er ein meginástæðan fyrir því að skordýr eru ekki stærri en þau eru í reynd. Þess má geta að blóðrásarkerfi skordýra er opið en ekki lokað eins og hjá hryggdýrum og gerir flutning lofttegundanna ekki eins skilvirkan. Þessi staðreynd hefur einnig mikið að segja um mögulega stærð skordýra.
Lungu
Lungun tengjast yfirborðinu gegnum ýmsar pípur svo sem barka og berkjur. Berkjurnar greinast niður og endar hver grein í klasa af svokölluðum lungnablöðrum (alveoli) og þar fara fram loftskiptin. Súrefni berst inn í æðarnar í gegnum veggi lungnablaðranna og æðaveggina og koltvíildi út. Í heilbrigðum manni eru nokkur hundruð milljónir lungnablaðra í lungunum tveimur.
Lungu finnast meðal landhryggdýra (einnig sjávarspendýra) og lungnafiska. Einn hópur snigla, svokallaðir lungnasniglar (pulmonata) hafa líffæri sem verka á svipaðan hátt og lungun en eru að byggingu nokkuð ólík byggingarlagi lungnanna.
Myndir af tálknum fengnar á Estrella Mountain Community College
Mynd af loftæðakerfi frá Líffræðideild Winnipeg-háskóla
Mynd af mannslunga frá The Young Oxford Encyclopedia of Science
Jón Már Halldórsson. „Hvað getur þú sagt mér um öndunarfæri dýra?“ Vísindavefurinn, 17. janúar 2003, sótt 30. mars 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=3019.
Jón Már Halldórsson. (2003, 17. janúar). Hvað getur þú sagt mér um öndunarfæri dýra? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3019
Jón Már Halldórsson. „Hvað getur þú sagt mér um öndunarfæri dýra?“ Vísindavefurinn. 17. jan. 2003. Vefsíða. 30. mar. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3019>.