Skíði gegndu lengst af því einfalda hlutverki að auðvelda mönnum ferðir í snjó, við flutninga, veiðar og annað því um líkt. Fræg dæmi eru um að skíði hafi reynst skipta sköpum í hernaði á Norðurlöndum, eins og Birkebeinerennet í Noregi og Vasaloppet í Svíþjóð eru til minningar um. Skíðaíþróttin verður svo eiginlega til á 18. öld á Þelamörk í Noregi, og þangað má rekja upphaf bæði norrænna greina og alpagreina. Þelmerkingurinn Sondre Norheim er talinn hafa bylt skíðaiðkun árið 1868 með því að setja band yfir hælinn sem festist við táfestinguna. Þetta gerði mönnum kleift að beygja og stökkva á skíðunum án þess að þau losnuðu úr festingunni sem þangað til hafði aðeins náð um tærnar. Þessi gerð festingar hentaði einstaklega vel göngugreinum og stökki, norrænu greinunum, og á fyrstu Vetrarólympíuleikunum 1924 var aðeins keppt í norrænum greinum. Þelamerkurfestingarnar reyndust ekki eins góðar í bröttu fjalllendi Mið-Evrópu, Ölpunum, og til að ná betri stjórn á skíðunum voru þau líka fest við hælinn. Þannig urðu alpagreinar til og keppt var í þeim fyrst á Vetrarólympíuleikunum 1936. Norðmaðurinn Nikulás Buch er fyrsti skíðakennarinn sem vitað er um á Íslandi, en hann kenndi fólki að skíða og búa til skíði á Húsavík á 18. öld. Síðan breiddist skíðaíþróttin hægt og rólega um landið og segja má að í dag séu starfrækt skíðafélög hér á landi þar sem því verður mögulega við komið. Heimildir og myndir:
- Íslenska alfræðiorðabókin, Örn og Örlygur, Reykjavík 1990.
- Íslensk síða um skíði
- From Rodoy to Picabo
- History of Alpine Skiing
- A Short History of Alpine Skiing
- History of Skiing á Inventors-vefnum
- Myndir frá skíðaiðkun
Þetta svar er eftir grunnskólanemanda á námskeiði Vísindavefsins sem haldið er í samvinnu við samtökin Heimili og skóla og Fræðslumiðstöð Reykjavíkurborgar vegna bráðgerra barna.