Brandháfurinn (Hexanchus griseus) er líklega næstalgengasti háfiskurinn, næst á eftir hvíthákarlinum (Carcharodon carcharias). Eins og sjá má á mynd 2 þá finnst hann víða. Kortið sýnir að útbreiðsla hans sé allt í kringum Ísland en það er að öllum líkindum rangt því hann hefur einungis komið í veiðarfæri suður af landinu. Við Íslandsstrendur er brandháfurinn kominn á yfirráðasvæði grænlandshákarlsins (Somniosus microcephalus).
Útbreiðslusvæði brandháfsins
Rannsóknir hafa sýnt að brandháfurinn verður að meðaltali 3,4 m á lengd við kynþroska (karldýr) en kvendýrin um 4,3 m. Sennilega eru karldýrin orðin um 11-14 ára gömul þegar þessum áfanga er náð en kvendýrin vel yfir 18 ára og jafnvel komin hátt á þrítugsaldur. Eins og algengt er með stóra háfiska þá getur brandháfurinn náð háum aldri eða allt að 80 árum. Brandháfurinn er kraftalega vaxinn fiskur. Hann hefur smágerð augu græn að lit og er ákaflega vel tenntur eins og tíðkast með hákarla; hefur sex raðir af tönnum í neðra skolti. Á ensku er brandháfurinn nefndur 'bluntnose sixgills' eða bara 'sixgills' þar sem sex sýnileg tálknop eru á hvorri hlið dýrsins. Brandháfurinn sýnir greinilegt dægur- og árstíðabundið far. Á næturnar fer hann í uppsjóinn í fæðuleit en þegar birta tekur á morgnanna þá fer hann niður í dýpið og heldur sig við botninn. Þær botngerðir sem brandháfurinn heldur sig við eru yfirleitt klettabotn eða mjúkur botn, allt niður á 2.500 metra dýpi. Á tímabilinu maí til nóvember leitar brandháfurinn í grynnri sjó við strendur Miðjarðarhafsins og austurströnd Bandaríkjanna. Á þessu tímabili rekast sportkafarar oft á skepnuna, langoftast á 20-40 metra dýpi á daginn en á næturnar leitar háfurinn jafnvel ennþá grynnra. Sjónarvottar hafa séð háfinn á þriggja metra dýpi. Brandháfurinn er mikill tækifærissinni í fæðuvali og étur allt það sem á vegi hans verður og hann ræður við. Í maga háfsins hafa fundist ótal tegundir sjávarhryggleysingja (sniglar, smokkfiskar, rækjur og krabbar), fiskar (þorskur, makríll, ansjósur, lax) og jafnvel smáir sverðfiskar. Hann er einnig mikil hrææta og er oft fyrsta hryggdýrið á vettvang þar sem stór hræ liggja á sjávarbotninum. Ekki er fyllilega ljóst hverjir helstu afræningjar brandháfsins eru en leifar af honum hafa fundist í maga stellars-sæljónsins (Eumetopias jubatus), háhyrninga (Orchinus orcas) og hvíthákarlsins (Carcharodon carcharias) en sterkar líkur eru á því að þessi dýr hafi lagst í hræ af honum, sérstaklega sæljónin, en háhyrningar hafa þó burði til að drepa alla hákarla. Reyndar er brandháfurinn samkeppnistegund hvíthákarlsins í hafinu suður af Suður-Afríku þar sem þessar tegundir lifa á sömu bráð, svo sem selum og fiski. Brandháfurinn virkar silalegur en býr yfir ofsalegu afli og snerpu ef því er að skipa. Hann getur verið plága fyrir línuveiðimenn þar sem hann er algengur. Hann leggst þá á línufisk og rífur hann í sig. Sérstaklega á þetta við um sverðfiskaveiðar.
Sú síðari sýnir útbreiðslu brandháfsins og er fengin hérna.