Ég hef heyrt að trúflokkur manna á Indlands/Pakistan-svæðinu sem kallast Sikhar hafi allir sama eftirnafn. Hvers vegna?
Sikha-trú er eingyðistrú og skyld bæði hindúatrú og íslam. Sikhar eru um 23 milljónir og langflestir búsettir í Indlandi. Samkvæmt trúarhefð Sikha bera allar konur millinafnið Kaur, sem merkir prinsessa, og allir karlar bera millinafnið Singh, sem merkir ljón. Að auki ber fólk fornafn, sem er óháð kyni (Davinder og Harpreet geta því verið tvær stúlkur, tveir drengir eða stúlka og drengur), og ættarnafn. Sikhar leggja mikla áherslu á að allir séu jafnir og hafna því með öllu stéttaskiptingu hindúa. Þar sem ættarnöfn gefa stétt þeirra til kynna eru Sikhar almennt tregir til að nota ættarnafn sitt og nota því yfirleitt Singh eða Kaur sem eftirnafn. Heimildir:
- Sikhism á The Language Shop
- Sikhwomen.com
- Sikhism á Religioustolerance.org