Zaraþústra boðaði að mennirnir hefðu frjálsan vilja og gætu valið að fylgja hinu góða eða hinu illa. Sálir hinna réttlátu ættu svo vísa himnavist en sálir hinna ranglátu færu til helvítis. Þegar baráttu góðs og ills lyki, og hið góða sigraði hið illa, yrði heimurinn fyrir eins konar endurnýjun, Frashokereti, þar sem dauðir rísa upp. Að auki herma goðsagnir Zaraþústratrúarmanna að heiminum muni fæðast þrír frelsarar af hreinum meyjum. Skyldleikinn við þau eingyðistrúarbrögð sem við þekkjum betur nú á dögum í okkar heimshluta ætti að vera augljós. Goðsagnir herma að Zaraþústra hafi framið mörg kraftaverk og meðal annars hafi hann snúið konungi nokkrum til trúar sinnar með því að lækna uppáhalds hestinn hans. Sagt er að Zaraþústra hafi verið myrtur við bænaiðkun, 77 ára gamall. Sú trú sem Zaraþústra boðaði varð ríkistrú þriggja stórvelda í Persíu frá 6. öld f.o.t. til 7. aldar o.t. og var hún trúlega valdamestu trúarbrögð heims á þeim tíma. Með útbreiðslu íslam varð Zaraþústratrú undir og urðu áhangendur hennar fyrir miklum ofsóknum. Þrátt fyrir ofsóknirnar öldum saman er enn að finna um 20 þúsund manna ættflokk í Írak sem aðhyllist trúna og kallast sá ættflokkur gabr eða Zardushti. Stærri ættflokk, Parsa, er að finna í Indlandi en þeir eru nú um 110 þúsund. Parsar eru komnir af hópi Zaraþústratrúarfólks sem flúði ofsóknir í Persíu á 10. öld og settist að í Indlandi. Samkvæmt hefðinni geta utanaðkomandi ekki snúist til Zaraþústratrúar heldur þarf fólk að fæðast inn í hana. Augljós afleiðing þessarar hefðar er að áhangendum trúarinnar fer smám saman fækkandi og hefur hefðin orðið umdeild á síðari tímum. Sumt Zaraþústratrúarfólk vill taka upp frjálslyndari stefnu í þessum efnum. Helsta trúarrit Zaraþústratrúar er hin heilaga bók Avesta. Í henni eru meðal annars Gatha, 17 sálmar í fimm bálkum sem Saraþústra mun sjálfur hafa ort. Að auki má nefna Pahlavi-textana sem eru mun yngri en Avesta. Eldur er mikið notaður við trúarathafnir í Zaraþústratrú en hann er tákn fyrir ljós Guðs og Asha, hið réttláta alltumlykjandi náttúrulögmál. Sumir, sérstaklega þeir sem hafa viljað gera lítið úr Zaraþústratrú, hafa túlkað þetta sem svo að trúin feli í sér dýrkun á eldi en þeir sem aðhyllast trúna segja þetta mikinn misskilning. Lykilatriði í trúariðkuninni er að feta hinn þrefalda veg: góðar hugsanir, góð orð og góðar gjörðir. Heimildir:
- A. Cotterell & R. Storm (1999), The Ultimate Encyclopedia of Mythology, New York: Hermes House.
- J. Hinnells (1984), The Penguin Dictionary of Religions, London: Penguin Books.
- Avesta -- Zoroastrian Archives
- Zoroastrianism á Religioustolerance.org
- Zoroastrianism á The Religious Movements Homepage @ the University of Virginia