Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þessari spurningu er auðsvarað með einföldu nei-i. Við fjöllum hér stuttlega um hagnýt atriði við stjórnun líkamsþyngdar til fróðleiks og síðan um hvernig misskilningurinn um te og mjó læri kann að vera til kominn.
Þessar fínu frúr vita að stöðug tedrykkja minnkar ekki ummál læranna. Rétt mataræði og líkamsrækt skipta höfuðmáli ef fólk vill halda sér í kjörþyngd.
Nokkur hagnýt atriði við stjórnun líkamsþyngdar
Það getur verið miserfitt fyrir fólk að halda sér í kjörþyngd en hafa þarf í huga að hún spannar 14 kg fyrir hverja líkamshæð. Vilji fólk hins vegar grennast verður það að hafa í huga að góðir hlutir gerast hægt og skyndilausnir bera aldrei árangur til langs tíma.
Meðal þess sem skiptir máli er rétt mataræði og það að drekka vel af vatni. Oft er gott að byrja á að auka hlut grænmetis og ávaxta í mataræði sínu. Það er til dæmis góð regla að hafa alltaf eitthvert grænmeti með í aðalmáltíðum dagsins. Svo er hægt að nota ávexti í eftirrétti og milli mála. Hjartavernd, Krabbameinsfélagið og Manneldisráð hvetja fólk á öllum aldri til að borða að minnsta kosti 5 skammta af grænmeti, ávöxtum og kartöflum á dag, hvort heldur sem fólk er í megrun eða ekki.
Þá er mælt með mögrum mjólkurvörum, grófum brauðtegundum, hrökkbrauði, kringlum og þess háttar. Best er að velja magurt álegg á brauð og magurt kjöt til matreiðslu. Svo er auðvitað í góðu lagi að borða allar tegundir af fiski.
Fara á sparlega með fitu, svo sem smjör, smjörlíki, matarolíu, majónes og rjóma og neysla á sætum og feitum vörum eins og sælgæti, kökum og sykruðum gosdrykkjum ætti að vera í algjöru lágmarki.
Að lokum má ekki gleyma hreyfingunni en hún er stór þáttur í því að halda sér í formi, auk þess sem hún eykur vellíðan, andlega sem líkamlega.
Misskilningurinn um te og mjó læri
Te inniheldur næstum ekkert af orkugefandi efnum. Með orkugefandi efni er átt við efni sem brenna og mynda orku í líkamanum. Þetta eru fita eða lípíð sem veita sem svarar 9 kcal (kílókaloríur = hitaeiningar) hvert gramm, kolvetni sem veita 4 kcal hvert gramm, prótein sem einnig veita 4 kcal hvert gramm, og alkóhól sem veita 7 kcal hvert gramm. Ef líkaminn þarfnast ekki orkunnar sem fæst með matnum safnast hún fyrir sem orkuforði eða þríglýseríð í fituvef. Ef te er drukkið til dæmis í stað sykraðra gosdrykkja, kókómjólkur eða annarra feitra eða sætra drykkja veldur það auðvitað minni heildarinntöku á orkugefandi efnum, sem leitt getur til þess að maður léttist ef ekki er neytt annarra orkuríkra matvæla í staðinn og teið er ekki sykrað óhóflega. Þetta þýðir sem sagt að te í sjálfu sér er ekki "orkusparandi" heldur það að teið komi í stað annarra orkuríkra drykkja.
Auðvitað má einnig hugsa sér að í einhverjum te-tegundum séu efni sem auka vatnsútskilnað hjá fólki með bjúg eða vökvasöfnun í líkamanum. Til eru te sem innihalda efni með svipaða verkan og þvagræsilyf. En bjúgur safnast sjaldnast aðallega á læri svo að tæpast er hugmyndin um að te minnki ummál læra til komin vegna þessa. Þvagræsandi efni hafa engin áhrif á fitumagn líkamans, eingöngu á vatnsmagn.
Í stuttu máli
má segja að te sem megrunarlyf án annarra aðgerða er alveg óvirkt og gagnslaust. En ekkert er á móti því að nota te sem einn af drykkjum fullorðinna, til hressingar til dæmis vegna vægs koffeininnihalds, fyrir þá sem það vilja.
Mynd: Úr bókinni Af hverju er himinninn blár? Spurningar og svör af Vísindavefnum. Ritstj. Þorsteinn Vilhjálmsson og Jón Gunnar Þorsteinsson.
Inga Þórsdóttir og Jóhanna Eyrún Torfadóttir. „Er það satt að maður fái mjó læri ef maður drekkur mikið te?“ Vísindavefurinn, 28. mars 2000, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=298.
Inga Þórsdóttir og Jóhanna Eyrún Torfadóttir. (2000, 28. mars). Er það satt að maður fái mjó læri ef maður drekkur mikið te? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=298
Inga Þórsdóttir og Jóhanna Eyrún Torfadóttir. „Er það satt að maður fái mjó læri ef maður drekkur mikið te?“ Vísindavefurinn. 28. mar. 2000. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=298>.