Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Greinilegt er að margir hafa velt þessari spurningu fyrir sér. Aðrir spyrjendur eru Kjartan Guðmundsson, Gunnlaugur Johnson, Ingvi Gautsson, Hera Ólafsdóttir, Andri Þorvaldsson, Orri Steinarsson, Þorsteinn Pálmason, Georg Ólafsson, Árni Ólafsson, Ólafur Hlynsson og Sirrý Ólafsdóttir.
Hér er einnig að finna svar við spurningu Sveinbjargar Bjarnadóttur: Geta karlar gefið brjóst?
Öll vitum við hvers vegna konur hafa geirvörtur, enda gagnið af þeim augljóst hvað viðkemur afdrifum afkvæma þeirra. Að öllum líkindum hafa karlmenn geirvörtur einfaldlega vegna þess að þeir eru náskyldir konum. Þrátt fyrir að líkamsgerð karla og kvenna sé ekki alveg eins þá erum við af sömu tegund.
Af þeim 23 litningapörum sem við höfum eru 22 eins hjá konum og körlum. Gen sem samsvara eiginleikum sem skilja skýrt milli kynjanna sitja eingöngu á þessum 23. litningi sem er öðru vísi. Hann kemur til dæmis sérstaklega við sögu í erfðasjúkdómum sem eru háðir kyni.
Hér má einnig hafa í huga að fæstir arfbundnir eiginleikar okkar eru einlitna sem kallað er, en það merkir að þeir ákvarðist af einu og aðeins einu geni sem situr á tilteknum stað á ákveðnum litningi. Miklu algengara er að erfðaeiginleikar ákvarðist af mörgum genum sem sitja hér og þar á litningunum. Það er einmitt þess vegna sem menn líkjast yfirleitt báðum foreldrum sínum, jafnvel í einstökum atriðum eins og andlitsfalli, líkamsbyggingu, hreyfingum og svo framvegis.
Það hvort einstaklingur af tegundinni Homo sapiens hefur geirvörtur ákvarðast ekki alfarið af genum á kynbundna litningnum heldur einnig af genum á hinum sem kynin eiga sameiginleg. Breytilegt er meðal spendýra hvort karldýrin hafi geirvörtur eða ekki; stóðhestar og karlkyns nagdýr hafa til dæmis ekki geirvörtur. Karlkyns prímatar og hundar hafa hins vegar geirvörtur, mjólkurkirtla og annað sem þeim fylgir.
Ýmsa eiginleika okkar og annarra lífvera getum við skýrt út frá náttúruvali. Það er kallað náttúruval þegar lífverur sem hafa ákveðinn arfgengan eiginleika til að bera lifa af og fjölga sér meðan þær lífverur sem ekki hafa eiginleikann deyja út. Viðkomandi eiginleiki gerir þær lífverur sem hafa hann hæfari til að lifa af og/eða eignast afkvæmi og koma þannig erfðaefni sínu áfram til komandi kynslóða í þeim aðstæðum sem þær búa við. Þannig getum við til dæmis sagt að við höfum augu vegna þess að þau hafi gagnast forsögulegum forfeðrum okkar á einhvern hátt sem augnlausar samtíðarverur þeirra nutu ekki.
En þrátt fyrir að náttúruval geti skýrt ýmsa eiginleika okkar þarf það ekki að vera skýringin á þeim öllum. Sumir eiginleikar geta verið hlutlausir með tilliti til náttúruvals. Til dæmis má ætla að ýmsir eiginleikar sem breytilegir eru meðal mannfólksins, til dæmis það hvort nefið er bogið eða beint, eyrun útstæð eða liggjandi að höfðinu og það hvort stóra táin er lengri eða styttri en táin við hliðina, hafi lítil áhrif á hæfileika fólks til að lifa af og fjölga sér.
Að sama skapi getum við hugsað okkur að það hvort karldýr hafi geirvörtur eða ekki hafi ekki áhrif á getu þeirra til að fjölga sér. Geirvörtur á karlmönnum eða öðrum karlkyns spendýrum geta því verið með öllu gagnslausar en meðan þær draga ekki úr hæfninni til að eignast afkomendur og koma þeim á legg hefur náttúruval engin áhrif á þær.
Svo má auðvitað tína til hugsanlegt gagn sem karlar gætu haft af geirvörtum sínum sem gerði þá hæfari til að lifa af. Til dæmis mætti hugsa sér að formæðrum okkar hafi þótt geirvörtur fallegar og þeim hafi því þótt karldýr með geirvörtur álitlegri en önnur. Önnur möguleg skýring er að forsögulegir forfeður okkar hafi mjólkað afkvæmum sínum og þannig verið hæfari feður en geirvörtulausir. Þetta eru auðvitað bara hugsanlegar skýringar sem hafa verið sniðnar sérstaklega að því sem þeim er ætlað að skýra og engin sérstök ástæða til að ætla að þær séu réttar.
Satt er þó að geirvörtur karlmanna og það sem þeim fylgir kemur ekki í veg fyrir að þeir hafi börn á brjósti ef þeir vildu – ef horft er fram hjá skortinum á hormónum á borð við estrógen og prólaktín. Karlmenn hafa til jafns við konur mjólkurkirtla og mjólkurganga sem myndast á fósturstigi. Reyndar myndast fyrsti vísirinn að geirvörtum áður en fóstur ber þess merki hvort það er karl- eða kvenkyns. Stundum drýpur mjólk úr geirvörtum nýbura vegna estrógens sem borist hefur um fylgjuna frá móðurinni og gildir þá einu hvort barnið er meybarn eða sveinbarn. Þegar kona gengur með barn, og svo ekki síst eftir að barnið er fætt og er lagt á brjóst, valda ákveðin hormón því að hún framleiðir mjólk. Þar gegnir hormónið prólaktín stærsta hlutverkinu.
Þekkst hefur að karlmenn hafi framleitt mjólk og jafnvel haft börn á brjósti. Þetta er að vísu ákaflega fátítt en engu að síður til. Margir karlar gætu haft börn á brjósti ef þeir kærðu sig um með því að taka inn hormónaskammta og örva geirvörturnar þótt erfitt kynni að vera að halda mjólkurframleiðslunni nægri til að hún dygði barninu. Þetta hafa til dæmis margar konur sem ættleiða ungbörn gert með góðum árangri. Væntanlega er því stærsta hindrunin við brjóstagjöf karla staðlaðar hugmyndir þeirra sjálfra og þjóðfélagsins um karlímyndina.
Heimildir:
Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Af hverju hafa karlmenn geirvörtur?“ Vísindavefurinn, 11. desember 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2948.
Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2002, 11. desember). Af hverju hafa karlmenn geirvörtur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2948
Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Af hverju hafa karlmenn geirvörtur?“ Vísindavefurinn. 11. des. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2948>.