Spurningin í heild sinni hljóðaði svona: Hvað er þingmannaleið? Það eina sem ég veit um hana er að hún er mælieining!Þingmannaleið er mælieining sem jafngildir 37,5 km. Svo borið sé saman við aðra gamla mælieiningu jafngildir þingmannaleið rúmlega 4 vikum sjávar en fjallað er um þá mælieiningu í svari við spurningunni: Hver er uppruni orðanna í mælieiningunni "vika sjávar"?
Í ritinu Stutt Undirvisun í Reikningslistinni og Algebra eftir Ólaf Stephensen, sem gefin var út í Kaupmannahöfn 1785, segir að ein þingmannaleið samsvari fimm þýskum mílum. Í ritinu Reikníngslist einkum handa leikmønnum, eptir Jón Gudmundsson, sem var gefin út í Viðeyjarklaustri 1841, stendur einnig að ein þingmannaleið samsvari fimm dönskum mílum eða 20.000 þúsund föðmum. Þess má geta að hringvegurinn er 1381 kílómetra langur en það samsvarar rétt tæpum 37 þingmannaleiðum. Heimildir:
- Íslensk Orðabók, 3. útg., ritstj. Mörður Árnason, Edda, Reykjavík 2002.
- Orðabók Háskólans
Þetta svar er eftir grunnskólanemanda á námskeiði Vísindavefsins sem haldið er í samvinnu við samtökin Heimili og skóla og Fræðslumiðstöð Reykjavíkurborgar vegna bráðgerra barna.