Lappjaðrakan er dæmigerður farfugl á norðurhveli jarðar, varpsvæði hans ná frá Skandinavíu og austur eftir heimskautasvæðum Rússlands, einnig er varpstofn í Vestur-Alaska. Tvær deilitegundir lappjaðrakans eru kunnar, það eru Limosa l. lapponica sem verpir í Skandinavíu og NV-Rússlandi að Taimyr-skaganum og Limosa l. baueri sem verpir í austurhluta Rússlands og Alaska. Vetrarstöðvar tegundarinnar eru meðal annars í sunnanverðri Evrópu (á Portúgal og Spáni) og á Bretlandseyjum. Heildarstofnstærð tegundarinnar er talin vera á bilinu 1,2 - 1,3 milljónir fugla en talningar hafa verið stundaðar á vetrardvalarstöðvum fuglsins þar sem þeir hópast saman á nokkrum þekktum stöðum í fjöru. Lappjaðrakan verpir ekki hér á landi en hægt er að sjá hann á hverjum vetri þar sem hann er algengur flækingsfugl. Jaðrakan (Limosa limosa)
Jaðrakan er íslenskur varpfugl. Hann er algengur varpfugl á sunnanverðu landinu en byrjaði að verpa á norðanverðu landinu á síðustu öld. Fyrst var getið um varp á Norðurlandi rétt eftir 1940 og síðan hefur hann einnig verið að færa sig austur á land. Íslenski varpstofninn er sérstök deilitegund sem er kennd við landið, Limosa limosa islandica. Nokkrar aðrar deilitegundir eru þekktar svo sem Limosa l. limosa sem verpir í Evrópu (frá Danmörku og Skáni í norðri til Frakklands í suðri og aðeins inn í vestustu héruð Rússlands). Önnur deilitegund er Limosa l. melanuroides sem hefur heimkynni austur af Yenesei-fljótinu í Síberíu, Mongólíu og NV-Kína en vetrarsvæðin eru í Suður-Asíu og allt suður til Ástralíu. Íslenski jaðrakaninn fer á haustin aðallega til suðurhluta Írlands og SV-Englands. Rannsóknir á heildarstofnstærð jaðrakans hafa bent til þess að stofnstærð allra deilitegundanna sé á bilinu 500 þúsund til 1,5 milljónir fugla. Stofnstærðin helgast að þáttum eins og fæðuframboði. Upplýsingar um stofnstærð tegundanna eru að finna í skjölum AEWA (African-Eurasian Migratory Water Bird Agreement). Þetta eru fjölþjóðasamtök sem fylgjast með verndun búsvæða hjá fjölda fuglategunda. Myndin er fengin af vefsetrinu Surfbirds.