Í Nýja testamentinu eru elskan til Guðs og náungans sameinuð á skýrari hátt en í Gamla testamentinu. Hvað það þýðir blasir til dæmis við í dæmisögu Jesú af miskunnsama Samverjanum. Einstök boðorð bönnuðu prestum og levítum að snerta lík og saurga sig á blóði. Þess vegna gengu þeir framhjá manninum sem lá særður við veginn. Samverjinn hirti hins vegar ekki um einstök boðorð og sinnti heldur ekki um rótgróinn fjandskap milli Gyðinga og Samverja er bauð honum að skipta sér ekki af særðum Gyðingi. Þvert á móti horfði Samverjinn á neyð mannsins og leysti úr henni og þá breytni mat Jesús rétta. Boðorðið um skilyrðislausan kærleika stendur þar með ofar öllum einstökum boðorðum. Þetta kom líka fram í afstöðu Jesú til helgi hvíldardagsins. Hann læknaði oft á hvíldardegi vegna þess að neyð fólks krefðist meira af mönnum en ákvæði um helgi hvíldardagsins. „Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna en ekki maður vegna hvíldardagsins!“ sagði hann meðal annars(Markúsarguðspjall 2. kapítuli, 27. vers). Þá lýsti hann líka alla fæðu hreina og afnam þar með ákvæði Gamla testamentisins um fæðuforskriftir (sjá Markúsarguðspjall 7.19). Í ljósi þessa hafa kristnir menn álitið að þeir yrðu að túlka öll ákvæði í lögmáli Gamla testamentisins í ljósi Krists og boðorðsins um kærleika. Þess vegna hafa kristnir menn almennt haft þá afstöðu til veraldlegra mála að þar skuli til þess bær veraldleg yfirvöld setja lög og framkvæma og skuli kristnir menn ganga fram í hlýðni við rétt lög samfélagsins og því aðeins standa gegn lögunum að þau gangi í berhögg við kærleikskröfu lögmálsins því „framar ber að hlýða Guði en mönnum“ (Postulasagan 5.29).
Í Nýja testamentinu eru elskan til Guðs og náungans sameinuð á skýrari hátt en í Gamla testamentinu. Hvað það þýðir blasir til dæmis við í dæmisögu Jesú af miskunnsama Samverjanum. Einstök boðorð bönnuðu prestum og levítum að snerta lík og saurga sig á blóði. Þess vegna gengu þeir framhjá manninum sem lá særður við veginn. Samverjinn hirti hins vegar ekki um einstök boðorð og sinnti heldur ekki um rótgróinn fjandskap milli Gyðinga og Samverja er bauð honum að skipta sér ekki af særðum Gyðingi. Þvert á móti horfði Samverjinn á neyð mannsins og leysti úr henni og þá breytni mat Jesús rétta. Boðorðið um skilyrðislausan kærleika stendur þar með ofar öllum einstökum boðorðum. Þetta kom líka fram í afstöðu Jesú til helgi hvíldardagsins. Hann læknaði oft á hvíldardegi vegna þess að neyð fólks krefðist meira af mönnum en ákvæði um helgi hvíldardagsins. „Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna en ekki maður vegna hvíldardagsins!“ sagði hann meðal annars(Markúsarguðspjall 2. kapítuli, 27. vers). Þá lýsti hann líka alla fæðu hreina og afnam þar með ákvæði Gamla testamentisins um fæðuforskriftir (sjá Markúsarguðspjall 7.19). Í ljósi þessa hafa kristnir menn álitið að þeir yrðu að túlka öll ákvæði í lögmáli Gamla testamentisins í ljósi Krists og boðorðsins um kærleika. Þess vegna hafa kristnir menn almennt haft þá afstöðu til veraldlegra mála að þar skuli til þess bær veraldleg yfirvöld setja lög og framkvæma og skuli kristnir menn ganga fram í hlýðni við rétt lög samfélagsins og því aðeins standa gegn lögunum að þau gangi í berhögg við kærleikskröfu lögmálsins því „framar ber að hlýða Guði en mönnum“ (Postulasagan 5.29).