Hversu algengt er að regnbogi myndist að nóttu til við tunglsljós?Regnbogar sjást alloft í tunglskini og rigningu, þeirra er helst að vænta í hvössu veðri þar sem vindur ber regn inn undir glugga sem myndast í skýjaþykkni hlémegin fjalla, svipað og rissið á myndinni sýnir. Rigningin er mynduð yfir fjallshryggnum en vindur er það hvass að droparnir ná ekki að falla til jarðar fyrr en 1-3 km frá myndunarstað. Þetta gefur tunglsljósi tækifæri til að skína niður í dropasafnið sem brýtur ljósið og endurkastar því eins og í venjulegum regnboga sem hefur sama viðhorf og ef um sólarljós væri að ræða, í gagnstæða átt við ljósgjafann.

Mestar líkur eru á að sjá tunglboga í hvössum vindi (bláar og rauðar örvar) sem ber regn langt frá myndunarstað, út undir glugga sem myndast í skýjaþekjuna í niðurstreymi hlémegin fjallsins. Eins og regnboginn, sést tunglboginn í stefnu framundan sé baki snúið beint í tunglið. Á myndinni er hæð tunglsins ýkt, boginn sést ekki ef tunglið er í meir en 40° hæð á lofti. Úrkomuþykknið yfir fjallshryggnum er oftast það þykkt að það skyggir á tungl lægra á lofti. Möguleiki á tunglboga er því mestur ef tunglsljósið kemur á hlið í aflangt skýjarof.
- Yfirlitsmynd: Dumgoyach. (1998, 15. apríl). Moonbow. Geograph. Birt undir CC BY-SA 2.0 leyfi. https://www.geograph.org.uk/reuse.php?id=279454
- Trausti Jónsson.
Þessi umfjöllun hefur áður birst á vef Veðurstofu Íslands undir heitinu Tunglbogi - Sjást regnbogar í tunglsljósi? og birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.