Hvernig nær maður tveimur bjórglösum í sundur? Hita þau undir heitu vatni? Eða er e.t.v. eina leiðin að brjóta annað þeirra?Við skiljum spurninguna svo að hún eigi við tvö bjórglös sem mjókka niður og annað þeirra sé fast innan í hinu. Þá er reynandi að kæla innra glasið varlega, til dæmis með köldu vatni, og hita ytra glasið, til dæmis með heitu vatni. Innra glasið dregst þá lítillega saman en ytra glasið þenst út. Best mundi vera að taka varlega á glösunum um leið og reyna til dæmis að koma í veg fyrir að innra glasið sígi lengra niður í ytra glasið meðan á þessu stendur og setjist þar jafnfast og áður. Svipaðar aðferðir má nota til að mynda við málmlok á krukkum. Ef kanturinn á lokinu nær út fyrir glerið má reyna að hita lokið. Það þenst þá út og losnar frekar en ella. Málmar þenjast hlutfallslega miklu meira út við hitun en gler og því er þessi aðferð oft bæði auðveld og árangursrík við málmhluti. Nánar er fjallað um hitaþenslu efna í svari Viðars Guðmundssonar við spurningunni 'Hvað er hitaþensla efna?'
Hvernig nær maður tveimur bjórglösum í sundur?
Útgáfudagur
22.11.2002
Spyrjandi
Magnea Gunnarsdóttir
Tilvísun
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvernig nær maður tveimur bjórglösum í sundur?“ Vísindavefurinn, 22. nóvember 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2895.
Þorsteinn Vilhjálmsson. (2002, 22. nóvember). Hvernig nær maður tveimur bjórglösum í sundur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2895
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvernig nær maður tveimur bjórglösum í sundur?“ Vísindavefurinn. 22. nóv. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2895>.