Hvað er mosi lengi að vaxa og af hverju vex hann svona hægt?Ársvöxtur mosa er mjög breytilegur og mælingar á lengdarvexti sýna allt frá örfáum mm upp í 7 cm á ári. Umhverfisaðstæður skýra að mestu breytileikann í vexti mosa þó að hámarksvöxtur fari eitthvað eftir tegundum. Mestur lengdarvöxtur hefur mælst í ferskvatns- og votlendismosum. Nokkrar mælingar hafa verið gerðar á vexti hraungambra (Racomitrium lanuginosum) hér á landi: meðalársvöxtur í Þingvallahrauni árin 1990–1992 var 0,75 cm og 1,1 cm á Auðkúluheiði 2006–2007. Í samanburði við æðplöntur verður þó vöxtur mosa að teljast mjög hægur og skýrist það af byggingu og lífeðlisfræði þeirra. Vöxtur mosa, eins og annarra plantna, er háður vatni, steinefnum og birtu. Flestir mosar eru án róta og leiðsluvefs til upptöku og flutnings vatns og steinefna um plöntuna. Margar tegundir hafa þó rætlinga, en þeir gegna fyrst og fremst því hlutverki að binda plöntuna við undirlagið. Mosa skortir einnig yfirhúð (hlífðarlag) og eru því misvotir (e. poikilohydric), það er þeir þorna út við þurrk. Á móti kemur að mosar hafa hlutfallslega stórt yfirborð miðað við rúmmál og taka því auðveldlega upp vatn og næringarefni beint úr umhverfinu. Barnamosar (Sphagnum) eru einstakir hvað þetta varðar vegna sérkennilegrar frumugerðar og geta tekið upp tuttugufalda þurrvikt sína af vatni. Þetta fyrirkomulag skapar hins vegar fremur takmarkað aðgengi að næringarefnum í samanburði við það sem rætur æðplantna hafa í jarðvegi. Auk þess hafa mosar enga forðavefi sem tempra umhverfisbreytileika eins algengt er meðal æðplantna. Vöxtur mosa er því oftast mestur að vori og hausti og getur jafnvel stöðvast alveg í lengri tíma um mitt sumar þegar hlýjast og þurrast er. Heimildir og mynd:
- Glime, J.M. 2007. Bryophyte Ecology. Volume 1. Physiological Ecology. Ebook sponsored by Michigan Technological University and the International Association of Bryologists. Skoðað 4. janúar 2015 á: http://www.bryoecol.mtu.edu/
- Ingibjörg Svala Jónsdóttir (2015). Vistfræði mosa í ljósi loftslagsbreytinga. Náttúrufræðingurinn, í prentun.
- Flóra Íslands. Höfundur myndar: Hörður Kristinsson. (Sótt 9. 1. 2015).