Minjar í Garðahverfi og víðar í Garðabæ
Minjar í Garðahverfi á Álftanesi eru einstakar, ekki síst fyrir þá heild sem þær mynda saman. Slíkt menningarlandslag er fáséð. Þar og í Gálgahrauni er að finna meira en 250 kunnar fornleifar. Skipulag byggðarinnar í Garðahverfi á rætur að rekja aftur á miðaldir hið minnsta. Þar er að finna merkilegar minjar, mismunandi vel varðveittar, um sjósókn, búskap, samgöngur, trúarlíf, skólahald, jafnvel réttarsögu. Þar var byggðin girt með hlöðnum görðum, varnargarður lá meðfram sjónum og norðaustanmegin teygði sig hinn mikli Garðatúngarður frá Balatjörn í suðaustri, um Dysjamýri og Garðaholt, til Skógtjarnar í norðvestri. Þarna eru, svo dæmi séu tekin, bæjarhólar, varir, brunnar, útihús, garðar, stekkir, fjárrétt, fjárborg, gerði, kirkjugarður, aftökustaður, steinar með áletrunum og fornar leiðir. Á Hausastöðum í Garðahverfi var Hausastaðaskóli reistur 1759, fyrsti heimavistarskólinn sérstaklega ætlaður almúgabörnum. Rústirnar eru augljósar. Fornar leifar er víða annars staðar að finna í landi Garðabæjar. Hér má nefna gamlar leiðir, til dæmis Fógetastíginn í Gálgahrauni, selstíga og leiðir á milli bæja, alfaraleið um Heiðmörk og einnig yfir í Kópavog, en á þeirri leið voru dysjar sakamanna sem líflátnir voru á Kópavogsþingstað. Í Arnarnesi er Gvendarbrunnur. Í Heiðmörk er að finna rústir af seljum, fjárskjólum, kolagröfum, brunnum, vörðum og fjárborg svo fátt eitt sé nefnt.
Refagildra við Húsfell. Hellan ofan á hleðslunni féll fyrir opið þegar refur hreyfði við agni inni í gildrunni. Ljósmynd: Ómar Smári Ármannsson
Fornleifar á Hofsstöðum og í Urriðakoti
Einhver stærsti víkingaaldarskáli sem fundist hefur á Íslandi er á Hofsstöðum við Kirkjulund, rétt austan og ofan við miðbæjarkjarnann í Garðabæ. Þar hefur verið gerður minjagarður með margmiðlunarsýningu. Skálinn var hefðbundinn að gerð með langeldi. Við hann fundust einnig soðholur (seyðar), hringlaga gerði, smiðja og gripir á borð við forn verkfæri. Bronsnælan fannst í rústum gerðisins. Urmull dýrabeina fannst í soðholunum sem gefur til kynna ræktun svína, nautpenings og sauðfjár.
Snældusnúður frá 13. öld, sennilega gerður úr sandsteini úr Esjunni. Á honum er máð rúnaletur, stafrófsheitið fuþark. Ljósmynd: Ragnheiður Traustadóttir
- Erla Jónsdóttir (1992). Garðabær, byggð milli hrauns og hlíða. Safn til sögu Garðabæjar. Garðabær.
- Guðlaugur Rúnar Guðmundsson (2001). Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar. Safn til sögu Garðabæjar III. Reykjavík.
- Ragnheiður Traustadóttir (1994). Vettvangskönnun vegna deiliskipulags Arnarnesslands. Rannsóknarskýrslur fornleifadeildar III. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands.
- Ragnheiður Traustadóttir og Anna Rut Guðmundsdóttir (2004). Fornleifaskráning vegna deiliskipulags í Arnarneslandi. Byggðasafn Skagfirðinga 2004/32.
- Ragnheiður Traustadóttir og Rúna Knútsdóttir Tetzschner (2004). Garðahverfi, fornleifaskráning 2003. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands.
- Ragnheiður Traustadóttir og Rúna Knútsdóttir Tetzschner (2005). Fornleifaskráning vegna deiliskipulags á Urriðaholti í Garðabæ. Byggðasafn Skagfirðinga 2005/40.
- Ragnheiður Traustadóttir og fl. 2010. Urriðakot. Fornleifarannsókn 2010. Framvinduskýrsla. Garðabæ 2010.
- Vefsíða gönguhópsins Ferlis
- Vefsíða um skipulag á Garðaholti, sótt 29.03.2012