Rakel Anna heiti ég og er nemi við Menntaskólann á Akureyri. Ég fór um daginn að velta fyrir mér hvaðan orðið busi kæmi og í stað þess að gúggla það spurðist ég fyrir hjá kennurum. Enginn þeirra gat veitt mér svar fyrir utan einn, en það var hann Sverrir Páll íslenskukennari. Hann sagði mér að orðið hefði komið í íslenskuna úr latínu. Í Bessastaðaskóla var lengi vel kennd latína og í sumum beyingarmyndum latneskra orða endar orðið á ...bus, það á að vera borði fram sem „bús“ en sumir nýnemar báru það alltaf fram „bus“, með engu „ú“-hljóði. Það var kennarinn ekki sáttur við og gerði þá grín af þeim og kallaði þá busa, með engu „ú“ hljóði. Það hefur síðan festst við nýnema að vera kallaðir busar. Eftir að ég fékk þessa útskýringu ákvað ég að gúggla það líka til að staðfesta þetta en fannst ykkar skýring ekki ná yfir þessa útskýringu okkar Sverris. Þá má kanski bæta við þetta að nú er búið að banna flestallar athafnir tengdar busun, nú má ekki lengur, samkvæmt skólareglum, kalla busa (nýnema)„busa“ og böðla(nema í elsta bekk) „böðla“ en það stoppar nemendur þó yfirleitt ekki, en þessar reglur gengu í garð haustið 2017.
Orðið busi hefur verið notað í íslensku frá því á 19. öld. Þá var það haft um stráka í neðsta bekk mennta- eða latínuskóla, samanber dæmi frá Jóni Thoroddsen frá öðrum þriðjungi 19. aldar í Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans:
Busa eður „novibusa“ kölluðu piltar nýsveina eður þá, sem seinasta haust komu í skóla.
Síðar var orðið notað jafnt um stráka og stelpur.
Allmörg 19. aldar dæmi er að finna í Ritmálsskránni og á Timarit.is um busi en dæmi Jóns er hið eina sem gefur upprunann í skyn. Orðið er því líklega myndað af lýsingarorðinu novus í merkingunni ‘nýr’. Þágufall fleirtölu er novis og busi væri þá myndað af síðari lið orðmyndarinnar novibus sem er ranglega myndað þágufall fleirtölu.
Fyrsti bekkur var kallaður busía. Þorvaldur Thoroddsen skrifaði í Minningabók sína (I:63) sem kom út að honum látnum 1922-1923:
í „busíu“, svo var neðsti bekkur kallaður.Heimildir:
- Jón Thoroddsen. 1942. Skáldsögur Jóns Thoroddsens I–II. Ritstjóri: Steingrímur J. Þorsteinsson. Reykjavík.
- Þorvaldur Thoroddsen 1922-1923. Minningabók I-II. Safn Fræðafjelagsins I-II. Kaupmannahöfn.
- File:NCSU-Freshmen 1889.JPG - Wikimedia Commons. (Sótt 17.04.2018).