Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvað geta kolkrabbar orðið stórir? Geta þeir étið menn?
Í mörgum þekktum ævintýramyndum eru sýnd atriði þar sem risakolkrabbar ráðast á heilu skipin og kippa þeim niður í hafdjúpið. Þetta eru myndir á borð við Tuttugu þúsund mílur neðan sjávar (20,000 Leagues Under the Sea, 1954) sem byggð er á sögu Jules Verne og Toilers of the Sea (1936) sem byggð er á sögu Victors Hugos. En hér er aðeins um ævintýri að ræða, flestir kolkrabbar eru smáir og hafa enga burði til að gera mönnum nokkurt mein.
Tegundin Octopus arborescens er aðeins um 5 cm á lengd en sú tegund sem verður stærst er Octopus dofleini (e. Giant Pacific Octopus). Kolkrabbar af þeirri tegund geta orðið rúmir 5 metrar á lengd með örmum og eru vanalega um 15-20 kg. Sportkafarar rekast þó stundum á kolkrabba af þessari tegund sem vega um 50 kg.
Fyrir nokkrum mánuðum veiddist undan ströndum Nýja-Sjálands stærsti kolkrabbi sem menn hafa fundið. Hann var af tegundinni Haliphron atlanticus og vó um 75 kg.
Smokkfiskar geta orðið miklu stærri en kolkrabbar. Stærsti höfuðfætlingurinn (cephalopoda) er risasmokkfiskurinn (Architeuthis dux). Hann getur vegið nokkur hundruð kíló.
Myndin er fengin af vefsetrinu Prodigy.