
Þessar verur „að handan“ komu fram á ljósmynd Englendingsins Frederick A. Hudson frá því um 1875. Hudson var kunnur andaljósmyndari og brá sér stundum sjálfur í gervi drauganna sem eru framkallaðir með því að taka að minnsta kosti tvisvar yfir sama filmubútinn og stýra lýsingartímanum nákvæmlega.
Þegar Lára dró tjaldið frá, var birtan af hinu rauða ljósi svo skær að allir fundargestir og þá ekki síst ég, sem sat við hlið miðilsins sáum hann mjög greinilega. Gráleitt efni virtist streyma frá andliti og brjósti miðilsins og niður á gólfið og hrúgast þar upp í allstóran haug. Þessi haugur virtist mér vera á sífelldri hreyfingu, hefjast og hníga á víxl. Skyndilega hóf svo þessi undurfagra vera sig upp úr þessum gráleita eða hvíta óskapnaði, klædd skrautlegum kjól, prýddum glitrandi smáperlum eða steinum og vakti undrun allra sem á horfðu.Aðrir gestir sáu meðal annars Abyssiníumenn, spænskar stúlkur, ítalskar nunnur og einn gesturinn sá tjörn myndast á gólfinu hjá sér þar sem fiskar byltu sér með sporðaköstum og busli, svo eitthvað sé nefnt. Meðal gesta á þessum tíma voru margir af fremstu menntamönnum þjóðarinnar og voru fundirnir iðulega vel sóttir. Árið 1941 var kveðinn upp í sakadómi dómur yfir Láru og þremur samverkamönnum vegna svika sem talið var að Lára hefði beitt í tengslum við sum þeirra fyrirbæra sem gestir urðu vitni að á fundum hennar. Dómurinn horfði til þess að Lára hafði innheimt aðgangseyri að fundunum. Athæfið var heimfært undir 248. gr. hegningarlaga, þar sem segir að „ef maður kemur öðrum manni til að hafast eitthvað að eða láta eitthvað ógert með því á ólögmætan hátt að vekja, styrkja eða hagnýta sér ranga eða óljósa hugmynd hans um einhver atvik, og hefur þannig fé af honum eða öðrum, þá varðar það fangelsi allt að 6 árum“ en þetta ákvæði stendur enn óbreytt í hegningarlögum. Þrátt fyrir að fjárhagslegur ávinningur Láru og félaga hafi einungis falist í því að innheimta aðgangseyri að fundunum var Lára dæmd í eins árs fangelsi en samverkamennirnir þrír fengu vægari dóma; einn þeirra sex mánaða dóm og hinir tveir fjögurra mánaða dóm. Dómurinn er mjög strangur og telja verður ólíklegt að dómstóll kæmist að slíkri niðurstöðu í dag. Dómurinn sýnir þó að miðlar, líkt og aðrir, geta þurft að sæta ábyrgð fyrir svik. Af Láru miðli var það svo að segja að eftir uppkvaðningu dómsins og afplánun fangavistarinnar fluttist hún til Akureyrar þar sem hún bjó til dauðadags. Þrátt fyrir dóminn átti hún sér trausta fylgismenn alla tíð sem trúðu ákaft á miðilshæfileika hennar. Heimildir:
- Ekki dáin - bara flutt: spíritismi á Íslandi fyrstu fjörtíu árin. Bjarni Guðmarsson og Páll Ásgeir Ásgeirsson. Reykjavík. Skerpla, 1996.
- EKKI DÁIN BARA FLUTT Skerpla hefur gefið út bókina Ekki dáin - bara flutt. Úr greinasafni mbl.is.