
Vissulega er til viskubrunnur, jafnvel margir. Eins og alþjóð veit er sá þekktasti kenndur við Mími nokkurn sem mun vera gæslumaður hans. Þessi brunnur er uppspretta fróðleiks og visku og er þetta staðfest í Gylfaginningu:
þar er Mímisbrunnur, er spekt og manvit er í fólgið, og heitir sá Mímir er á brunninn. Hann er fullur af vísindum, fyrir því að hann drekkur úr brunninumÆtla má að mörgum leiki hugur á að fá að bergja á vatni úr þessum brunni. Það getur verið dýrkeypt, að minnsta kosti er Óðinn sagður hafa lagt annað auga sitt að veði til að fá að njóta þess heiðurs. Ef til vill er það þegar öllu er á botninn hvolft ekki svo hátt verð fyrir alla þá visku sem af hlaust. Vilji fólk finna Mímisbrunn mun hann vera að finna meðal hrímþursa við eina af rótum Asks Yggdrasils. Ritstjórn Vísindavefsins auglýsir hér með eftir starfsmanni sem sannað getur að hann eða hún hafi drukkið úr Mímisbrunni, enda væri slíkur starfsmaður mikill fengur fyrir vefinn. Athugið: Að gefnu tilefni skal tekið fram að Mímisbrunn er ekki að finna á svonefndum Mímisbar á Hótel Sögu. Annan viskubrunn er að finna í Banaras á Indlandi, svokallaðan Jnana Vapi-brunn sem mun hafa verið grafinn af guðinum Shiva. Vatnið úr þessum brunni er jhana, ljós viskunnar, í fljótandi formi. Um þennan brunn má lesa meira hér. Keltneskir drúíðar hafa svo sagt frá viskubrunni í handanheiminum þar sem níu heslihnetutré eru sögð vaxa. Til að öðlast visku getur verið gagnlegt að borða heslihnetur af þessum trjám, eða jafnvel af hvaða heslihnetutré sem er.
