Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þetta eru í raun tvær spurningar. Í fyrsta lagi, hvers vegna urðu Hollywood og Kalifornía miðja bandarísks kvikmyndaiðnar? Og í öðru lagi, hvers vegna varð bandarísk kvikmyndagerð ráðandi í heiminum?
Fyrsta miðstöð bandaríska kvikmyndaiðnaðarins var New York auk þess sem nokkur stór framleiðslufyrirtæki áttu sér höfuðstöðvar í Chicago. En eftir því sem kvikmyndir lengdust og kröfðust fjölbreyttari sviðsmynda, líkt og í indíána- og kúrekamyndum sem nutu vaxandi vinsælda er leið á fyrsta áratug 20. aldarinnar, sýndi það sig að þessar stórborgir og umhverfi þeirra hentuðu ekki sérstaklega til kvikmyndagerðar. Á þessum árum var eftirspurn eftir kvikmyndum gríðarlega mikil og kvikmyndaverin reyndu að svara henni með því að halda framleiðslunni gangandi allan ársins hring og helst allan sólarhringinn. Stór galli við kvikmyndagerð í New York og Chicago var að þar dimmdi snemma á veturna og að auki var skrambi kalt þar.
Í upphafi annars áratugarins var það því orðið algengt að senda út kvikmyndaleiðangra til að taka upp efni vítt og breitt um Bandaríkin, í Flórída, Oklahóma, Texas, og jafnvel Kúbu. Æ fleiri héldu þó alla leið yfir á vesturströndina til Kaliforníu, ekki síst í nágrenni Los Angeles sem þá var vaxandi borg með um hálfa milljón íbúa. Veturinn 1911-12 reisti Nestor Company fyrsta kvikmyndaverið í Hollywood sjálfri og strax árið 1915 var allt að 80% bandaríska kvikmyndaiðnarins búið að koma sér þar fyrir.
Hollywood er miðstöð kvikmyndaiðnaðar í Bandaríkjunum.
Erfitt er að alhæfa um ástæður þess að bandaríski kvikmyndaiðnaðurinn fluttist nær allur til Kaliforníu en nokkur atriði vógu þar þungt. Ólíkt New York og Chicago var auðvelt að kvikmynda þar allt árið um kring. Fylkið bjó yfir svo fjölbreyttu landslagi að það gat verið sviðsmynd Bandaríkjanna allra, ef ekki hreinlega alls heimsins. Vinnuafl var einnig talsvert ódýrara í Kaliforníu en í miðvestrinu og á austurströndinni og réttindi verkamanna takmörkuð. Verkalýðsréttindi og -félög hafa ávallt verið þyrnir í augum kvikmyndaiðnaðarins rétt eins og í öðrum bandarískum stóriðnaði. Raunar voru margir kvikmyndaframleiðendur einnig á hálfgerðum flótta undan samtökum sem undir forystu Thomas Edison (Motion Picture Patents Company) reyndu að tryggja sér einkaleyfi á kvikmyndagerð. Þau samtök áttu sér einmitt höfuðstöðvar í New York. Ekki leið þó á löngu þar til einokunarfyrirtækin héldu sömu leið til Kaliforníu.
Rétt eins og New York var miðstöð bandarískrar kvikmyndagerðar fyrir daga Hollywood, þá var Frakkland helsti framleiðandi kvikmynda í heiminum á undan Bandaríkjunum. Frakkar stóðu mjög vel að vígi í Bandaríkjunum, sér í lagi kvikmyndarisarnir Pathé og Gaumont. Samtök Edisons reyndu meðal annars að hindra útbreiðslu þeirra með ritskoðun, undir þeim formerkjum að frönsku myndirnar væru siðlausari en þær bandarísku. Það sem á endanum skipti þó sköpum og kom Bandaríkjunum í miðju kvikmyndaframleiðslu heimsins þar sem þau hafa verið allar götur síðan, var fyrri heimsstyrjöldin.
Charlie Chaplin er ein af þekktustu Hollywood-stjörnunum.
Með fyrri heimsstyrjöldinni lagðist kvikmyndagerð nær alfarið af í öllum helstu samkeppnislöndum Bandaríkjamanna og kvikmyndahús í Evrópu tóku feginshendi við öllu sem kom frá Bandaríkjunum. Við stríðslok var samkeppnisstaða Bandaríkjanna afar sterk. Heimamarkaður þeirra var það stór að myndir gátu skilað hagnaði heima fyrir og allt það sem kom í kassann erlendis frá var hrein viðbót. Bandaríkjamenn gátu því selt myndir sínar á hlutfallslega lágu verði.
Hvað varðaði íburð og stærilæti gat enginn veitt Hollywood samkeppni. Hollywood sogaði jafnframt til sín hæfileikafólk hvaðanæva úr Evrópu. Eins má nefna að undir lok þögla tímabilsins í kvikmyndum kom til sögunnar hugmyndin um Hollywood sem draumaborgina þar sem gyðjur og goð hvíta tjaldsins réðu ríkjum og virtust vera á öðru tilverustigi en leikarar annarra þjóðlanda. Loks er vert að geta þess að bandarísk stjórnvöld hafa allt fram á þennan dag verið mjög meðvituð um áhrifamátt Hollywood í alþjóðlegu samhengi og lagt á það ríka áherslu í utanríkisstefnu sinni að tryggja Hollywood-kvikmyndum óheftan aðgang að mörkuðum um heim allan.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Björn Ægir Norðfjörð. „Af hverju varð Hollywood miðstöð kvikmyndabransans í heiminum?“ Vísindavefurinn, 26. maí 2010, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=28267.
Björn Ægir Norðfjörð. (2010, 26. maí). Af hverju varð Hollywood miðstöð kvikmyndabransans í heiminum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=28267
Björn Ægir Norðfjörð. „Af hverju varð Hollywood miðstöð kvikmyndabransans í heiminum?“ Vísindavefurinn. 26. maí. 2010. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=28267>.