Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Pólska er slavneskt mál, nánar tiltekið vesturslavneskt mál. Slavnesk mál tilheyra indóevrópsku málaættinni og eru því skyld germönskum, rómönskum, keltneskum og mörgum fleiri málum. Þau greinast í austur-, vestur- og suðurslavnesk mál.
Austurslavnesk eru: rússneska, úkraínska og hvítrússneska.
Vesturslavnesk eru: pólska, kasjúbíska, upp- og niðursorbíska, tékkneska og slóvakíska.
Suðurslavnesk eru: serbókróatíska, slóvenska, makedónska og búlgarska.
Pólska, kasjúbíska og hinar útdauðu slóvínska og polabíska tilheyra undirflokki vesturslavneskra mála sem kallaður hefur verið lekkíska (e. Lekhitic, einnig ritað Lechitic, þ. Lechisch).
Pólska greinist í allmarga mállýskuflokka, en helstir þeirra eru stórpólska (í norðvestri), smápólska (í suðaustri), slesíska (í suðvestri) og masóvíska (í nágrenni Varsjár). Ekki er þó mikill munur á pólskum mállýskum (hann er t.d. miklu minni en á þýskum mállýskum). Aðalundirstaða pólsks bókmenntamáls er stórpólska.
Hér að neðan verður drepið á nokkra mikilvæga þætti pólskrar málfræði.
I. Hljóðkerfisfræði
Samhljóðakerfi:
Ritun:
lokhljóð
- órödduð
/p/, /t/, /k/
p, t, k
- rödduð
/b/, /d/, /g/
b, d, g
tvinnhljóð (affríkötur)
- órödduð
/ts/, /tS/, /t/
c, cz, ć/ci
- rödduð
/dz/, /dZ/, /d½/
dz, dż, dź/dzi
önghljóð
- órödduð
/f/, /s/, /S/, /‚/, /x/
f, s, sz/rz, ś/si, ch/h
- rödduð
/v/, /z/, /Z/, /½/
w, z, ż/rz, ź/zi
nefhljóð
/m/, /n/, /ª/
m, n, ń/ni
hliðarhljóð
/l/
l
sveifluhljóð
/r/
r
hálfsérhljóð
/w/, /j/
ł, j/i
Sérhljóðakerfi:
einhljóð
/i/, /3/, /E/, /a/, /O/, /u/, /ƒ/, /î/
i, y, e, a, o, u, ę, ą
tvíhljóð
/ai/, /Ei/, /Oi/, /ui/
aj, ej, oj, uj/ój
Áberandi er, hve rík pólska (sem og önnur slavnesk mál) er að samhljóðum, einkum önghljóðum og tvinnhljóðum (affríkötum). Stafar þetta af ýmsum framgómunarferlum í slavnesku.
Pólska hefur varðveitt nefjuðu sérhljóðin /ƒ/ (ę) og /î/ (ą), sem hún erfði úr frumslavnesku.
Í pólsku eru grafísku samböndin au og eu borin fram sem tvö atkvæði. Dæmi: nauka [na-'uka] ‘lærdómur’, nieuk [nje-'uk] ‘fáfróður maður’. Aðeins í tökuorðum eins og autor eða Eugenia eru þau einkvæð, en þó ekki alltaf. Oft er einkvæði valfrjálst. Dæmi: Europa [eu'rOpa] eða [e-u'rOpa].
Í pólsku er orðáhersla að jafnaði á næstsíðasta atkvæði.
II. Beygingarfræði
Pólska er mikið beygingamál. Hér að neðan verður minnst á nokkur atriði er snerta beygingu nafnorða, lýsingarorða og sagna.
1. Nafnorð
Beygingardeildir nafnorða eru tvær: fall og tala.
Föll eru sjö: nefnifall, ávarpsfall, þolfall, þágufall, eignarfall, tólfall og staðarfall (aðeins með forsetningum).
Tölur eru tvær: eintala og fleirtala.
Nafnorð eru ýmist karlkyns, kvenkyns eða hvorugkyns. Þau fylgja yfirleitt ólíkum beygingarmynstrum sem einkenna hvert kyn um sig.
Flestir beygingarflokkar nafnorða greinast í svokölluð hörð og lin afbrigði eftir stofnendingu. Athyglisvert er að þolfall karlkenndra nafnorða (annarra en þeirra sem enda á -a í nf. et.) er mismunandi, allt eftir því, hvort þau tákna lifandi verur eða hluti. Hjá nafnorðum sem tákna lifandi verur hefur þolfall sömu mynd og eignarfall, hjá nafnorðum sem tákna hluti (eða hugtök) hefur þolfall sömu mynd og nefnifall (hið sama á við um lýsingarorð sem standa með karlkenndum nafnorðum).
Orðið Polak ‘Pólverji’ (harður stofn) beygist á eftirfarandi hátt:
eintala
fleirtala
nefnifall
Polak
Polacy
ávarpsfall
Polaku
Polacy
þolfall
Polaka
Polaków
þágufall
Polakowi
Polakom
eignarfall
Polaka
Polaków
tólfall
Polakiem
Polakami
staðarfall
Polaku
Polakach
2. Lýsingarorð
Beygingardeildir lýsingarorða eru fjórar: fall, tala, kyn og stig.
Kyn eru þrjú: karlkyn, kvenkyn og hvorugkyn.
Stig eru þrjú: frumstig, miðstig og efstastig.
Miðstig er myndað með því að skeyta afleiðsluendingunni -szy eða -ejszy aftan við stofn frumstigs. Efstastig er myndað með því að bæta forskeytinu naj- framan við mynd miðstigs. Dæmi: fst. nowy ‘nýr’, mst. nowszy ‘nýrri’, est. najnowszy ‘nýjastur’.
3. Sagnir
Beygingardeildir sagna eru: persóna, tala, mynd, tíð, horf og háttur.
Persónur eru þrjár: 1., 2. og 3. persóna.
Tölur eru tvær: eintala og fleirtala.
Myndir eru þrjár: germynd, miðmynd og þolmynd.
Tíðir eru þrjár: nútíð, þátíð og framtíð (þáliðin tíð, plusquamperfekt, kom fyrir í eldri pólsku, en er lítið sem ekkert notuð í nútímapólsku).
Horf eru tvö: imperfektíft og perfektíft horf.
Hættir eru þrír: framsöguháttur, viðtengingarháttur (einnig nefndur skildagatíð) og boðháttur.
Miðmynd er táknuð með aðstoð afturbeygða fornafnsins się ‘sig’, sem helst óbreytt í öllum persónum eintölu og fleirtölu.
Þolmynd er táknuð með sögninni być ‘vera’ eða zostać ‘verða’ og lýsingarhætti þátíðar. Imperfektífar sagnir taka być, perfektífar yfirleitt zostać, sjaldnar być (um imperfektífar og perfektífar sagnir sjá hér að neðan). Í nútíð þolmyndar er þó aðeins notuð hjálparsögnin być.
Þátíð er mynduð af nútíðarstofni með l/ł-viðskeyti. Þar sem þátíðarstofninn var upphaflega lýsingarháttur, greinir þátíðarbeygingin á milli þriggja kynja í eintölu og á milli persónu- og hlutmyndar í fleirtölu. Dæmi: 3. pers. et. kk. czytał ‘hann las’, kvk. czytała ‘hún las’, hk. czytało ‘það las’.
Framtíð er táknuð með tvennum hætti: annars vegar með nútíðarmyndum (þetta á við um perfektífar sagnir sem hafa framtíðarmerkingu í nútíð); hins vegar með (suppletífri) framtíð sagnarinnar być ‘vera’ (þ.e. będzie ‘mun vera’) og nafnhætti viðkomandi sagnar (svo hjá imperfektífum sögnum).
Með hugtakinu horfi er átt við, hvernig talandi lítur á eða metur afstöðu verknaðar til líðandi tíma. Annaðhvort er litið á verknað sem varandi athöfn (án endapunkts) eða sem heild (frá upphafi til enda). Fyrra horfið er imperfektíft, hið síðara perfektíft. Í pólsku (og öðrum slavneskum málum) aðgreina flestar sagnir imperfektíft og perfektíft horf með formlegum hætti. Oft er talað um sagnapör í því sambandi. Grunnsögnin er ýmist imperfektíf eða perfektíf og er andstæðuaðilinn leiddur af henni með forskeyti eða viðskeyti. Við myndun perfektífra sagna af imperfektífum eru notuð forskeyti, við myndun imperfektífra sagna af perfektífum venjulega viðskeyti. Dæmi:
imperfektíf
perfektíf
czytać ‘lesa’
>
prze-czytać
perfektíf
imperfektíf
prze-pisać ‘skrifa upp, o.fl.’
>
prze-pisywać
Viðtengingarháttur er myndaður með því að skeyta by aftan við stofnmynd þátíðar. Við by bætast svo persónuendingar þátíðar. Dæmi: et. kk. 1. pers. czytałbym, 2. pers. czytałbyś, 3. pers. czytałby o.s.frv., et. kvk. 1. pers. czytałabym, 2. pers. czytałabyś, 3. pers. czytałaby o.s.frv. Andstætt íslensku hefur pólska aðeins eina formgerð viðtengingarháttar. Pólsku myndirnar czytałbym (kk.) og czytałabym (kvk.) samsvara í íslensku ég læsi, ég hefði lesið (ég mundi lesa, ég mundi hafa lesið).
Sögnum er skipt í beygingarflokka eftir stofnmyndun. Í nútíð greinast þær í e-, i- og a-sagnir. Síðasti flokkurinn er reglulegastur (og hefur hann svipaða stöðu í pólsku og hinar svokölluðu ōn-sagnir í íslensku eins og kalla). Dæmi (czytać ‘lesa’):
eintala
fleirtala
1. persóna
czytam
czytamy
2. persóna
czytasz
czytacie
3. persóna
czyta
czytają
Ópersónubeygðar myndir sagna (verbum infinitum) eða sagnarnöfn (verbalnomina) eru: nafnháttur, lýsingarháttur nútíðar (myndaður af imperfektífum sögnum), lýsingarháttur þátíðar (aðallega myndaður af perfektífum sögnum), lýsingarháttarauki nútíðar germyndar (myndaður af imperfektífum sögnum), lýsingarháttarauki þátíðar germyndar (myndaður af perfektífum sögnum), sagnarnafnorð.
III. Setningafræði
Í pólskri setningafræði má finna margt athyglisvert. Sem dæmi skal hér aðeins nefnd notkun nafnorða í hlutverki sagnfyllingar. Í þessu hlutverki eru nafnorð höfð í tólfalli en ekki í nefnifalli (eins og t.d. í íslensku). Hið sama gildir um lýsingarorð er standa með þeim. Dæmi: On jest nauczycielem ‘hann er kennari’ (nf. nauczyciel), ona jest pielęgniarką ‘hún er hjúkrunarkona’ (af pielęgniarka), Katarzyna jest bardzo sympatyczną kobietą ‘K. er mjög geðfelld kona’. – Þó er nafnorðssagnfylling höfð í nefnifalli, ef hún vísar til hvorugkynsfornafns í frumlagsstöðu. Dæmi: Czy to jest mężczyzna czy kobieta? To jest kobieta ‘Er þetta maður eða kona? Þetta er kona’.
Þessi stutta umfjöllun ætti að sýna að „bygging” pólsku er allflókin. Ekki síst af þeim sökum er pólska mjög áhugavert tungumál.
Jón Axel Harðarson. „Hver er uppruni og bygging pólsku?“ Vísindavefurinn, 18. október 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2801.
Jón Axel Harðarson. (2002, 18. október). Hver er uppruni og bygging pólsku? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2801
Jón Axel Harðarson. „Hver er uppruni og bygging pólsku?“ Vísindavefurinn. 18. okt. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2801>.