Ef allir jarðarbúar væru grænmetisætur, væri þá nóg til af landi til að rækta allt fyrir jarðarbúa?Maðurinn hefur lengi stundað ósjálfbæra landnýtingu[1]. Það þýðir að land er víða mjög illa farið vegna ofbeitar og búskapur hefur ekki verið stundaður í sátt og samlyndi við náttúruna. Á þessum svæðum þarf oft að nota mikinn áburð, því jarðvegurinn hefur tapað frjósemi sinni, mikið tap hefur orðið á lífbreytileika og sum vistkerfi hafa hreinlega verið þurrkuð út og eftir situr ónýtt land. Um 40% af þurrlendi jarðar fer nú undir landbúnað og mestur hluti þess fer í ræktun á nautgripum, svínum og kjúklingi og fóðri fyrir þessi dýr sem við mennirnir borðum svo[2]. Nú þegar er til nóg af landi til að rækta mat fyrir alla jarðarbúa. Vandamálið er hins vegar að fæðu er mjög misskipt á milli landa og landsvæða. Á meðan hluti af heiminum hefur það mjög gott þá svelta aðrir. Að auki er um þriðjungi matvæla hent áður en þau komast á matardiskinn og það er mjög stórt alþjóðlegt umhverfisvandamál[3].Enn eitt vandamálið sem fylgir fjölgun jarðarbúa og ósjálfbærri landnýtingu er eyðing mikilvægra vistkerfa eins og til dæmis votlendis og skóga. Ef jarðarbúar minnkuðu kjötneyslu sína verulega þá væri hægt að rækta mat handa öllum, ásamt því að fara í stórtæka endurheimt á vistkerfum jarðar og bjarga þannig ótal dýrum og plöntum úr útrýmingarhættu. Að auki myndi þessi grænmetisfæðulífsstíll minnka losun gróðurhúsalofttegunda og sporna gegn loftslagsbreytingum. Tilvísanir:
- ^ The state of the world’s land and water resources for food and agriculture - i1688e.pdf. (Skoðað 16.10.2017).
- ^ Biomass use, production, feed efficiencies, and greenhouse gas emissions from global livestock systems. (Skoðað 16.10.2017).
- ^ Food wastage footprint: Impacts on natural resources - Summary report - i3347e.pdf. (Skoðað 16.10.2017).
- File:2789694551 37beafc438 b - Grass Fed Beef - Ryan Thompson - Flickr - USDAgov.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 23.11.2017).
- File:Vegetable Market.JPG - Wikimedia Commons. (Sótt 23.11.2017).