Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er faraldsfræði?

Laufey Tryggvadóttir

Til eru margar skilgreiningar á faraldsfræði, en þær eru flestar svipaðar að innihaldi. Eftirfarandi skilgreiningu er að finna í faraldsfræðiorðabók Last (1995):
Með faraldsfræði er átt við rannsóknir á dreifingu og áhrifaþáttum ástands eða fyrirbæra er varða heilbrigði í tilteknum þýðum. Jafnframt fæst hún við hagnýtingu rannsóknanna til að hafa stjórn á heilbrigðisvandamálum.
Faraldsfræðingar fást við rannsóknir á útbreiðslu og orsökum sjúkdóma hjá hópum manna. Meginviðfangsefni rannsóknanna er samband áreitis (exposure) og endapunkts (outcome).

Áreitin geta verið margvísleg. Oftast tengjast þau aukinni hættu á að veikjast af tilteknum sjúkdómi og kallast áhættuþættir. Sem dæmi má nefna reykingar, krabbameinsvaldandi efni í fæðu, mengun sem tengist atvinnu, háan blóðþrýsting, vírussýkingar og meðfæddar stökkbreytingar í sjúkdómsgenum. Áhrif annarra áreita eru til þess fallin að draga úr líkum á tilteknum sjúkdómum. Í þeim flokki eru meðal annars afoxandi efni í fæðu, brjóstagjöf, bólusetningar og fræðsla um skaðsemi reykinga. Endapunktar rannsóknanna eru oftast sjúkdómar en geta einnig verið slys, dauðsföll, mótefni í semi, tiltekin áhættuhegðun og fleira.

Þar sem efniviður rannsókna faraldsfræðinnar er fólk, er grundvallarmunur á henni og öllum öðrum aðferðum til að rannsaka orsakir sjúkdóma. Það er bæði styrkleiki og veikleiki faraldsfræðinnar að maðurinn skuli vera viðfang rannsóknanna. Styrkurinn felst í því að ekki leikur vafi á að niðurstöðurnar megi yfirfæra á lifandi fólk, á meðan sá vafi er oftast til staðar varðandi niðurstöður sem byggjast á dýratilraunum eða rannsóknum á vefjum, frumum eða smærri einingum.

Veikleiki faraldsfræðinnar liggur hins vegar einnig í þessum viðkvæma rannsóknarefnivið. Í tilraunum á rannsóknarstofum er hægt að hafa stjórn á mörgum þáttum sem hugsanlega tengjast sambandi áreitis og endapunkts, en við rannsóknir á fólki er lítt hægt að stýra slíkum þáttum og því þarf að fara aðrar leiðir.

Þróaðar hafa verið aðferðir til þess að taka tillit til atriða sem geta truflað niðurstöður en þær aðferðir byggjast meðal annars á því að tiltekin atriði séu könnuð og skráð strax á hönnunarstigi rannsóknanna. Því þarf að vanda mjög vel til verks frá upphafi. Fyrst er sett fram tilgáta um tengsl áreitis og endapunkts. Því næst er rannsóknaraðferðin valin á grundvelli tilgátunnar en jafnframt með tilliti til þeirra möguleika sem rannsakandinn hefur á gagnaöflun.

Áhugasömum lesendum er bent á að á heimasíðu Krabbameinsfélagsins www.krabb.is er að finna grein eftir höfund þessa svars um faraldsfræðilegar rannsóknir hjá Krabbameinsfélaginu.

Mynd: HB

Höfundur

Laufey Tryggvadóttir

faraldsfræðingur, framkvæmdastjóri Krabbameinsskrár Krabbameinsfélags Íslands

Útgáfudagur

8.10.2002

Spyrjandi

Þuríður Þórarinsdóttir

Tilvísun

Laufey Tryggvadóttir. „Hvað er faraldsfræði?“ Vísindavefurinn, 8. október 2002, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2769.

Laufey Tryggvadóttir. (2002, 8. október). Hvað er faraldsfræði? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2769

Laufey Tryggvadóttir. „Hvað er faraldsfræði?“ Vísindavefurinn. 8. okt. 2002. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2769>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er faraldsfræði?
Til eru margar skilgreiningar á faraldsfræði, en þær eru flestar svipaðar að innihaldi. Eftirfarandi skilgreiningu er að finna í faraldsfræðiorðabók Last (1995):

Með faraldsfræði er átt við rannsóknir á dreifingu og áhrifaþáttum ástands eða fyrirbæra er varða heilbrigði í tilteknum þýðum. Jafnframt fæst hún við hagnýtingu rannsóknanna til að hafa stjórn á heilbrigðisvandamálum.
Faraldsfræðingar fást við rannsóknir á útbreiðslu og orsökum sjúkdóma hjá hópum manna. Meginviðfangsefni rannsóknanna er samband áreitis (exposure) og endapunkts (outcome).

Áreitin geta verið margvísleg. Oftast tengjast þau aukinni hættu á að veikjast af tilteknum sjúkdómi og kallast áhættuþættir. Sem dæmi má nefna reykingar, krabbameinsvaldandi efni í fæðu, mengun sem tengist atvinnu, háan blóðþrýsting, vírussýkingar og meðfæddar stökkbreytingar í sjúkdómsgenum. Áhrif annarra áreita eru til þess fallin að draga úr líkum á tilteknum sjúkdómum. Í þeim flokki eru meðal annars afoxandi efni í fæðu, brjóstagjöf, bólusetningar og fræðsla um skaðsemi reykinga. Endapunktar rannsóknanna eru oftast sjúkdómar en geta einnig verið slys, dauðsföll, mótefni í semi, tiltekin áhættuhegðun og fleira.

Þar sem efniviður rannsókna faraldsfræðinnar er fólk, er grundvallarmunur á henni og öllum öðrum aðferðum til að rannsaka orsakir sjúkdóma. Það er bæði styrkleiki og veikleiki faraldsfræðinnar að maðurinn skuli vera viðfang rannsóknanna. Styrkurinn felst í því að ekki leikur vafi á að niðurstöðurnar megi yfirfæra á lifandi fólk, á meðan sá vafi er oftast til staðar varðandi niðurstöður sem byggjast á dýratilraunum eða rannsóknum á vefjum, frumum eða smærri einingum.

Veikleiki faraldsfræðinnar liggur hins vegar einnig í þessum viðkvæma rannsóknarefnivið. Í tilraunum á rannsóknarstofum er hægt að hafa stjórn á mörgum þáttum sem hugsanlega tengjast sambandi áreitis og endapunkts, en við rannsóknir á fólki er lítt hægt að stýra slíkum þáttum og því þarf að fara aðrar leiðir.

Þróaðar hafa verið aðferðir til þess að taka tillit til atriða sem geta truflað niðurstöður en þær aðferðir byggjast meðal annars á því að tiltekin atriði séu könnuð og skráð strax á hönnunarstigi rannsóknanna. Því þarf að vanda mjög vel til verks frá upphafi. Fyrst er sett fram tilgáta um tengsl áreitis og endapunkts. Því næst er rannsóknaraðferðin valin á grundvelli tilgátunnar en jafnframt með tilliti til þeirra möguleika sem rannsakandinn hefur á gagnaöflun.

Áhugasömum lesendum er bent á að á heimasíðu Krabbameinsfélagsins www.krabb.is er að finna grein eftir höfund þessa svars um faraldsfræðilegar rannsóknir hjá Krabbameinsfélaginu.

Mynd: HB...