Hollusta hákarlalýsis felst í mjög óvenjulegri samsetningu þess, ef miðað er við flest annað fiskilýsi. Hákarlalýsi inniheldur minna af omega-3 fitusýrum en til dæmis þorskalýsi. Það hefur því ekki þá eiginleika sem rekja má til þeirra. En hákarlalýsið inniheldur tvenns konar önnur efnasambönd, sem gefa því sérstakt gildi. Þessi sambönd eru skvalen (squalene) og alkylglýseról. Skvalen er efni, sem finnst aðallega í hákarlalýsi (20-60% af lýsinu), en einnig í ólífuolíu, þótt í miklu minni mæli sé. Skvalen (og skvalan, framleitt úr skvaleni) hefur verið notað í snyrtivörur eins og til dæmis húðkrem. Skvalen hefur einnig verið sett í hylki eða perlur og þannig verið tekið inn. Áhrif þess eru ekki alveg þekkt. Þó hefur efnið verið bendlað við styrkingu ónæmiskerfisins, lækkun kólesteróls og þríglyseríða í blóði, og umtalsverð áhrif sem andoxunarefni. Rannsóknir á virkni skvalens á krabbameinsfrumur eru í gangi. Alkylglyseról eru efni náskyld þríglyseríðum, en nógu frábrugðin samt til þess að hafa mjög sérstaka eiginleika. Þessi efni eru í miklum mæli í hákarlalýsi. Þau finnast einnig í móðurmjólk, og þess vegna hafa þau verið skoðuð í sambandi við styrkingu ónæmiskerfisins. Sænskir læknar hafa lengi notað þessi efni til að hjálpa krabbameinssjúklingum að takast á við geisla- eða lyfjameðferð. Reynsla þeirra er sú, að alkylglyseról geti dregið úr þeim aukaverkunum, sem meðferðin hefur oft í för með sér. Líkt og með skvalenið eru rannsóknir í gangi á alkylglyserólum og vafalaust munu koma fram áhugaverðar niðurstöður úr þeim. Hákarlalýsi var áður fyrr mjög auðugt af A-vítamíni. Nú er það fjarlægt úr lýsinu til að halda neyslu A-vítamíns innan eðlilegra marka. Hákarlalýsi verður að hreinsa vel áður en þess er neytt. Hákarlinn er efst í fæðukeðjunni og þess vegna safnast í hann ýmis óæskileg efni sem verður að fjarlægja til þess að valda neytendum ekki skaða. Hákarlalýsi er ekki heppilegur omega-3 fitusýrugjafi. Þorskalýsið er miklu betra að því leyti. En hákarlalýsið inniheldur skvalen og alkylglyseról, tvö mjög sérstök efnasambönd sem hafa hugsanlega mikla þýðingu.
Í hverju felst hollusta hákarlalýsis?
Hollusta hákarlalýsis felst í mjög óvenjulegri samsetningu þess, ef miðað er við flest annað fiskilýsi. Hákarlalýsi inniheldur minna af omega-3 fitusýrum en til dæmis þorskalýsi. Það hefur því ekki þá eiginleika sem rekja má til þeirra. En hákarlalýsið inniheldur tvenns konar önnur efnasambönd, sem gefa því sérstakt gildi. Þessi sambönd eru skvalen (squalene) og alkylglýseról. Skvalen er efni, sem finnst aðallega í hákarlalýsi (20-60% af lýsinu), en einnig í ólífuolíu, þótt í miklu minni mæli sé. Skvalen (og skvalan, framleitt úr skvaleni) hefur verið notað í snyrtivörur eins og til dæmis húðkrem. Skvalen hefur einnig verið sett í hylki eða perlur og þannig verið tekið inn. Áhrif þess eru ekki alveg þekkt. Þó hefur efnið verið bendlað við styrkingu ónæmiskerfisins, lækkun kólesteróls og þríglyseríða í blóði, og umtalsverð áhrif sem andoxunarefni. Rannsóknir á virkni skvalens á krabbameinsfrumur eru í gangi. Alkylglyseról eru efni náskyld þríglyseríðum, en nógu frábrugðin samt til þess að hafa mjög sérstaka eiginleika. Þessi efni eru í miklum mæli í hákarlalýsi. Þau finnast einnig í móðurmjólk, og þess vegna hafa þau verið skoðuð í sambandi við styrkingu ónæmiskerfisins. Sænskir læknar hafa lengi notað þessi efni til að hjálpa krabbameinssjúklingum að takast á við geisla- eða lyfjameðferð. Reynsla þeirra er sú, að alkylglyseról geti dregið úr þeim aukaverkunum, sem meðferðin hefur oft í för með sér. Líkt og með skvalenið eru rannsóknir í gangi á alkylglyserólum og vafalaust munu koma fram áhugaverðar niðurstöður úr þeim. Hákarlalýsi var áður fyrr mjög auðugt af A-vítamíni. Nú er það fjarlægt úr lýsinu til að halda neyslu A-vítamíns innan eðlilegra marka. Hákarlalýsi verður að hreinsa vel áður en þess er neytt. Hákarlinn er efst í fæðukeðjunni og þess vegna safnast í hann ýmis óæskileg efni sem verður að fjarlægja til þess að valda neytendum ekki skaða. Hákarlalýsi er ekki heppilegur omega-3 fitusýrugjafi. Þorskalýsið er miklu betra að því leyti. En hákarlalýsið inniheldur skvalen og alkylglyseról, tvö mjög sérstök efnasambönd sem hafa hugsanlega mikla þýðingu.
Útgáfudagur
7.10.2002
Spyrjandi
Gunnar Berg
Anita Gústafsdóttir
Tilvísun
Jón Ögmundsson. „Í hverju felst hollusta hákarlalýsis?“ Vísindavefurinn, 7. október 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2762.
Jón Ögmundsson. (2002, 7. október). Í hverju felst hollusta hákarlalýsis? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2762
Jón Ögmundsson. „Í hverju felst hollusta hákarlalýsis?“ Vísindavefurinn. 7. okt. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2762>.