Er "rétt" íslenska að nota "hvar" og "hvaðan" þar sem ("hvar") oftast er notað "þar sem"? Annað dæmi: ...hvaðan nöfn vinningshafanna verða dregin út.Orðið hvar er atviksorð sem notað er þegar spurt er um stað, t.d.: „Hvar á hann heima?”, „Hvar eigum við að hittast?”. Orðið hvaðan er einnig spurnaratviksorð notað um hreyfingu eða stefnu frá einhverjum stað eða úr einhverri átt, t.d.: ,,Hvaðan kemur þú?" Þá væri hægt að svara: „Ég kem héðan og hvaðan”, þ.e. frá ýmsum stöðum. „Hvaðan blæs vindurinn núna?”, þ.e. úr hvaða átt blæs vindurinn?. Þar í sambandinu þar sem er einnig atviksorð og táknar dvöl á stað. Þá er ekki um spurningu að ræða. Ef aftur er spurt: „Hvar á hann heima?” gæti svarið verið: „Í húsinu þar sem foreldrar hans búa.” Því er ekki hægt að nota hvar eða hvaðan í stað þar sem. Tilefni spurningarinnar er sennilega erlend áhrif því að í ýmsum tungumálum í kringum okkur er til dæmis notað sama orð fyrir spurnaratviksorðið "hvar" og orðasambandið "þar sem". Þannig mundu Danir segja "hvor" í stað orðanna "þar sem" í dæminu hér á undan og í ensku væri sagt "where".
Útgáfudagur
4.10.2002
Spyrjandi
Sara Stefánsdóttir
Tilvísun
Guðrún Kvaran. „Er rétt íslenska að nota 'hvar' og 'hvaðan' þar sem oftast er notað 'þar sem'?“ Vísindavefurinn, 4. október 2002, sótt 25. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2761.
Guðrún Kvaran. (2002, 4. október). Er rétt íslenska að nota 'hvar' og 'hvaðan' þar sem oftast er notað 'þar sem'? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2761
Guðrún Kvaran. „Er rétt íslenska að nota 'hvar' og 'hvaðan' þar sem oftast er notað 'þar sem'?“ Vísindavefurinn. 4. okt. 2002. Vefsíða. 25. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2761>.