Hvað getið þið sagt mér um eldflugur, hvaðan koma þær, hvers vegna lýsa þær í myrkri og hvert er hlutverk þeirra í náttúrunni?Eldflugur eru ekki flugur heldur bjöllur af ættinni Lampyridae. Á ensku nefnast bjöllur af þessari ætt „fireflies“ eða „lightning bug.“ Rúmlega 1100 tegundir eru þekktar af bjöllum sem nota ljósmögnun (e. bioluminescence) til samskipta sín á milli, langoftast á pörunartímanum. Dýrin laða þá aðila af hinu kyninu að sér með ljósmerkjum en einnig þekkist það að þau noti sömu aðferð til að lokka væntanlega bráð til sín. Lirfur nokkurra tegunda gefa einnig frá sér ljós og eru þær nefndar glóormar (e. glowworms). Eldflugur finnast víða kringum miðbaug og einnig á tempruðum svæðum. Eldflugur eru algengar víða í sunnanverðri Asíu og tegundir af ættkvíslinni Photuris finnast víða í sunnanverðum Bandaríkjunum og Mexíkó. Fullorðin dýr eru ílöng, allt að 2,5 cm á lengd, en amerísku eldflugurnar eru talsvert minni eða um 1 cm á lengd. Eldflugur eru rándýr og éta önnur skordýr. Aftast á afturbol bjallanna eru kirtlar sem framleiða ljós með efnahvörfum. Kirtlarnir framleiða prótínið luciferin, en þegar það kemst í snertingu við súrefni fer af stað efnahvarf sem ensímið luciferinasi hvetur áfram og ljósblossi kviknar. Sá tími sem ljósið varir hjá eldflugunum er háður oxunartíma prótínsins. Hjá norður-amerísku tegundinni Photuris pyralis berst ljósblossi frá karldýrum á fimm sekúnda fresti og kvendýr svara með blossa tveimur sekúndum síðar. Ef kalt er í veðri líður lengra á milli blossanna. Blossar frá karldýrum sjást á 7-8 sekúnda fresti og kvendýrið svarar 3-4 sekúndum síðar. Samkvæmt rannsóknum er greinilegt samband milli tíðni ljósmerkja og hitastigs.
Hvað getið þið sagt mér um eldflugur?
Útgáfudagur
20.9.2002
Spyrjandi
Unnur María Sólmundsdóttir
Tilvísun
Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um eldflugur?“ Vísindavefurinn, 20. september 2002, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2730.
Jón Már Halldórsson. (2002, 20. september). Hvað getið þið sagt mér um eldflugur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2730
Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um eldflugur?“ Vísindavefurinn. 20. sep. 2002. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2730>.