Ef við höfum samfellt deildanlegt raungilt fall f sem er skilgreint á einhverju hlutmengi í Rn, þá er stigull þess vigursvið. Stigull falls er vigur með stefnuafleiðum þess; til að átta sig á hvað það þýðir er hægt að hugsa sér fall sem mælir hitastig í herbergi, stigull þess í gefnum punkti sýnir okkur þá í hvaða átt hitaaukningin er örust í punktinum. Fyrir sérhvert vigursvið má spyrja sig hvort til sé raungilt fall þannig að vigursviðið sé stigull fallsins. Ef slíkt fall er til, þá kallast það mætti vigursviðsins. Unnt er að heilda vigursvið eftir ferlum, og í því samhengi gegna mætti vigursviða svipuðu hlutverki og stofnföll gera fyrir raunföll af einni breytistærð. Hvort mætti er til fyrir gefið vigursvið fer bæði eftir vigursviðinu og rúmfræðilegum eiginleikum mengisins sem það er skilgreint á. Öll vigursvið sem hafa mætti uppfylla ákveðin skilyrði; ef vigursviðið okkar uppfyllir þau ekki, þá getur það ekki haft mætti. Á hinn bóginn eru til mengi sem eru ekki einfaldlega samanhangandi; óformlega getum við sagt að í þeim séu ,,göt''. Á þeim má skilgreina vigursvið sem hafa ekki mætti, en uppfylla öll þau sömu skilyrði og vigursvið sem gera það. Fyrir mengi sem eru einfaldlega samanhangandi, eða ,,án gata'', má þó finna skilyrði fyrir vigursvið sem jafngilda því að vigursviðið hafi mætti. Við byrjuðum á að spjalla um hagnýtingar stærðfræði í hárgreiðslu og ætlum að enda þar líka. Til er athyglisverð setning um vigursvið eftir Luitzen Brouwer (1881 - 1966). Hún segir að á kúlu sé ekki unnt að skilgreina vigursvið sem er núllstöðvalaust, og uppfyllir að gildi þess í hverjum punkti er snertill kúlunnar. Þó þetta segi okkur ekki mikið í fljótu bragði, þá er hægt að sjá fyrir sér hvað setningin segir á skemmtilegan hátt: Ímyndum okkur að við eigum loðna kúlu, til dæmis tennisbolta með aðeins lengri hárum en venjulega. Við hugsum okkur eins og áður að hárin á kúlunni myndi vigursvið. Núllstöðvar vigursviðsins svara til hvirfla á kúlunni, svo setning Brouwers segir að við getum ekki greitt kúlunni án þess að hárið myndi einhvers staðar hvirfil. Tengt efni á Vísindavefnum:
- Hvað eru heildun og deildun og hvernig nýtast þær í leik og starfi? eftir Kristínu Bjarnadóttur.
- Hvað er rúmfræði? eftir Rögnvald G. Möller.
- Hvernig er best að lýsa Riemann-flötum? eftir Robert Magnus.
- Tom M. Apostol. Calculus, volume II.. 1969. John Wiley & Sons.
- James Munkres. Topology. 2000. Prentice Hall.
- Vigursvið á Wikipedia.
- Myndin af flugvél í loftgöngum er af Wikipedia.
- Líkan af loðinni kúlu er af Wikipedia.