Stærri stjörnur nota mismunandi frumefni sem eldsneyti undir lok ævinnar og um stuttan tíma er efnasamsetning þeirra því öðruvísi en minni stjarna. Stærstu stjörnurnar enda líf sitt á kjarnasamruna sem breytir kísli í járn, en þegar kísilbirgðir þeirra þrjóta þá falla þær saman. Í risavöxnu sprengingunum sem fylgja myndast öll frumefnin sem þekkjast í náttúrunni. Öll frumefni sem finnast á jörðinni eða í alheiminum yfirleitt, önnur en vetni og helíum, urðu til í slíkum sprengistjörnum. Tunglið er aftur á móti líkara jörðinni. Yfirborð tunglsins er aðallega úr súrefni, kísli, magnesíni (e. magnesium), járni, kalsíni (calcium) og áli. Þar má einnig finna leifar af títani, úrani (uranium), þóríni (thorium), kalíni (potassium) og vetni. Við vitum enn ekki mikið um innri gerð tunglsins, en talið er að það hafi járnkjarna sem inniheldur eitthvað af brennisteini og nikkel. Geimferðastofnanir heimsins ætla að senda nokkur ómönnuð og mönnuð för til tunglsins á næstu áratugum, svo líklegt er að við lærum meira um það innan skamms. Frekara efni á Vísindavefnum, heimildir og myndir:
- Áhugasamir geta skoðað svör Sævars Helga Bragasonar við spurningunum Hvernig er þróun sólstjarna háttað?, Er nokkur fastastjarna nálægt okkur sem hefur möguleika á að verða sprengistjarna? og Hvernig varð tunglið til?
- Hver var Cecilia Payne-Gaposchkin og hvernig sýndi hún fram á að sólin væri að mestu úr vetni? eftir Árdísi Elíasdóttur
- Efnasamsetning stjarna og innri gerð tunglsins, bæði af Wikipedia.
- Myndin af sólinni og tunglinu er af Flickr síðu atomicshark, birt undir Creative Commons skírteini.