Hálfa holu má grafa í moldarbeð með því að moka sem nemur hálfri hrúgu af mold upp úr beðinu. Árangursríkast er að vinna verkið með hálfum huga, eða jafnvel hálfsofandi, við birtu frá hálfu tungli, tautandi hálfkveðnar vísur og hálfyrði í hálfum hljóðum. Hætta skal verkinu þegar það er hálfkarað og ber að hafa í huga að hálfnað er verk þá hafið er. Ekki er verra að sá sem hálfu holuna grefur sé annaðhvort hálftröll, hálfsterkur eða hálfdrættingur og klæddur í hálfsokka. Stærð holunnar skal mæla í hálftommum. Með svipuðum aðferðum má gera hálft gat á dúk með því að klippa úr honum hálfan bút. En þessar leiðbeiningar eru auðvitað veittar í hálfkæringi. Þeim sem vilja kynna sér alvöru holufræði er bent á þetta svar sama höfundar.
Sumir lesendur okkar hafa reynt að grafa hálfar holur. Helga Rún Gylfadóttir sendi okkur línu um afraksturinn:
Ég las svarið við föstudagsspurningunni: Er til hálf hola? Mér þótti svar Eyju Margrétar Brynjarsdóttur mjög fróðlegt, þó hef ég áður fengið svar við sömu spurningu sem ég vil koma á framfæri við Eyju og vona að nýtist henni. Hálfa holu er hægt að grafa með því að grafa fyrst heila holu og moka svo helmingnum ofan í aftur. Mjög einfalt mál