Af hverju er Suðurskautslandið talið vera eyðimörk? Og er það í rauninni stærsta eyðimörk heims?Sandur, sól og steikjandi hiti kann að vera það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar eyðimerkur ber á góma. En í rauninni þarf ekkert af þessu að einkenna eyðimerkursvæði – þau geta allt eins verið dimm, köld og þakin snjó. Eins og fram kemur í svari við spurningunni Hvernig verða eyðimerkur til? þá er eyðimörk gjarnan skilgreind sem svæði þar sem meðalúrkoma ársins er innan við 250 mm. Fleiri þættir geta þó komið til og þá sérstaklega hvernig hlutfallið er á milli úrkomu og uppgufunar. Það skiptir þó ekki máli þegar eins kalt svæði og Suðurskautslandið er skoðað. Suðurskautslandið nýtur þess vafasama heiðurs að vera kaldasta, þurrasta og vindasamasta meginland jarðar. Meðalhiti yfir árið á Suðurskautslandinu er mjög breytilegur, við ströndina er hann um -10°C en allt að -60°C á hæstu stöðum inn til landsins. Yfir sumarið getur hiti við ströndina náð 10°C en farið niður fyrir -40°C yfir veturinn. Eftir því sem fjær dregur sjó og land hækkar er kaldara, þar getur sumarhitinn verið um -30°C og vetrarkuldinn farið niður fyrir -80°C. Eins og gefur að skilja þá er úrkoma á Suðurskautslandinu að mestu leyti snjór þótt rignt geti við ströndina. Erfitt er að mæla úrkomumagn þar sem snjór er mikill hluti úrkomunnar eins og Trausti Jónsson bendir á í svari við spurningunni: Getið þið sagt mér hver aðferðafræðin við úrkomumælingar er? Þó hefur verið áætlað að meðalúrkoma á Suðurskautslandinu öllu sé um 150 mm á ári. Á hásléttunni inn til landsins er talið að ársúrkoman sé aðeins um 50 mm á ári en fari yfir 200 mm við ströndina. Með hliðsjón af þeirri skilgreiningu að svæði geti talist eyðimörk ef meðalúrkoma ársins er innan við 250 mm er alveg ljóst að Suðurskautslandið fellur í þann flokk. Suðurskautslandið er um 14 milljónir km2 að stærð og þar með stærsta eyðimörk jarðar. Til samanburðar er Sahara sem er stærsta heita eyðimörkin um 9 milljónir km2. Heimildir og mynd:
- Antarctic weather — Australian Antarctic Division. (Skoðað 17. 10. 2016).
- Antarctica Fact File, What is it like in Antarctica, Antarctic environment. (Skoðað 17. 10. 2016).
- Climate of Antarctica - Wikipedia. (Skoðað 17. 10. 2016).
- Desert - Wikipedia. (Skoðað 17. 10. 2016).
- Mynd: Antarctica: Helicoptering the Dry Valleys | Ferrar Glacier | Eli Duke | Flickr. (Sótt 17. 10. 2016).