Demantar sem fundist hafa við yfirborð jarðar eru yfirleitt mjög gamlir, frá því að vera innan við eins milljarðs ára gamlir upp í allt að 3 milljarða ára. Þeir hafa borist upp að yfirborðinu í sprengigosum sem áttu upptök sín á miklu dýpi, 100-200 km, en í þessum gosum barst upp efni frá möttlinum. Þetta efni, sem demantar hafa fundist í, kemur fyrir í pípulaga gosrásum sem kallast kimberlítpípur og bergið í þeim kimberlít. Kimberlít er kennt við demantanámuna í Kimerley í Suður-Afríku sem er frægasta demantanáma heims. Næstum helmingur allra demanta sem fundist hafa eru frá Mið- og Suður-Afríku en einnig hefur fundist nokkurt magn í Kanada, Indlandi, Rússlandi, Brasilíu og Ástralíu. Ísland er tiltölulega ungt í jarðsögunni. Það byrjaði að myndast fyrir um sextíu milljón árum þegar Norður-Atlantshafið fór að opnast en elsta berg landsins er þó ekki nema um 16 milljón ára gamalt. Landið okkar var því ekki farið að myndast þegar þeir demantar sem fundist hafa urðu til. Náttúrlega demanta á Íslandi er því fyrst og fremst að finna í skartgripaverslunum og skartgripum í eigu landsmanna. Heimildir:
- Diamond á Wikipedia. Skoðað 10. 6. 2008
- Diamond Formation á Gem Sutra
- Jóhann Ísak Pétursson og Jón Gauti Jónsson. Jarðfræði. Reykjavík, Iðnú. 2001
- Þorleifur Einarsson. Myndun og mótun lands. Reykjavík, Mál og menning. 1991
Hér er einnig svarað spurningunum:
- Úr hverju eru demantar?
- Af hverju er ekki hægt að finna demanta á Íslandi?
- Eru demantar á Íslandi? Ef þeir eru til hvar eru þeir þá?
Harpa Katrína, Ingibjörg Bjarnadóttir, Guðmundur Óskar, Margrét Ósk, Alexander Gabríel, Íris Kristinsdóttir og Róbert Steingrímsson
Þetta svar er eftir nemendur í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2008.