Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Í hverju felst borgaraleg óhlýðni?

Ólafur Páll Jónsson

Flestir heimspekingar eru sammála um að í borgaralegri óhlýðni felist að (i) brotið er gegn lögum eða reglum, (ii) markmið lögbrotsins er ekki einstaklingsbundinn hagur eða sérhagsmunir tiltekins hóps heldur almannaheill, til dæmis réttlæti, (iii) lögbrotið er framið fyrir opnum tjöldum, oftast til að vekja athygli á tilteknum málstað, (iv) athöfnin felur ekki í sér ofbeldi og (v) sá sem brýtur af sér tekur við refsingu sinni án nokkurra tilrauna til undanbragða.

Borgaraleg óhlýðni í þessum skilningi er pólitísk athöfn í tvenns konar skilningi. Annars vegar er hún ákveðin tegund af opinberum andmælum gegn ríkjandi valdi, og hins vegar liggur réttlætingin fyrir henni ævinlega í almennum skilningi á réttlæti í samfélaginu. Og þótt borgaraleg óhlýðni feli oft í sér réttmætt andóf, þá er hún einungis réttmæt ef aðrar leiðir eru annaðhvort fyrirfram útilokaðar eða hafa verið reyndar til þrautar.

En af hverju þarf borgaraleg óhlýðni endilega að forðast ofbeldi? Ástæðan er sú að markmiðið með borgaralegri óhlýðni er réttlæti og með því að forðast ofbeldi birtist krafan um réttlæti í sjálfri athöfninni. Með því að beita sjálfur ofbeldi myndi gerandinn viðurkenna réttmæti ofbeldis og þar með grafa undan eigin málstað. Einnig má hafa í huga að svar yfirvalda við óhlýðninni, ef henni er mætt á annað borð, felur oft í sér beitingu líkamlegs ofbeldis. Sá sem óhlýðnast viðurkennir að vissu leyti slíkar aðferðir með því að beita ofbeldi sjálfur. Það er ekki heldur markmið óhlýðninnar að "sigra" í baráttu við yfirvöld á einhverjum þeim vettvangi þar sem ofbeldi ræður úrslitum, enda væri óhlýðni borgarinn þá dæmdur til að "tapa".

Borgaraleg óhlýðni umhverfisverndarsinna í Melbourne í Ástralíu.

En af hverju skyldi sá sem stundar borgaralega óhlýðni ekki forðast refsingu? Ástæðan er sú að borgaraleg óhlýðni felst í því að óhlýðnast sem borgari, það er að þrátt fyrir að viðkomandi óhlýðnist tilteknum lögum eða reglum, þá virðir hann eftir sem áður þá staðreynd að lög og reglur eru grundvöllur samfélagsins. Að því leyti fer honum líkt og manni sem er ósammála leikreglum en spilar samt leikinn og virðir reglurnar í verki. En með því að láta refsinguna yfir sig ganga leiðir sá óhlýðni oft skýrt í ljós ranglætið sem var skotspónn óhlýðninnar.

Borgaraleg óhlýðni gerir ráð fyrir því að samfélagið sé, í grundvallaratriðum, lýðræðislegt réttarríki. Einungis að þessari forsendu gefinni getur andóf, sem byggist á því að brjóta gegn lögum eða reglum, gert undirliggjandi hugmynd um réttlæti að forsendu í baráttu gegn ranglátum lögum, reglum eða stofnunum.

Samkvæmt þessum skilningi á borgaralegri óhlýðni er margvíslegt andóf náttúruverndar­sinna, til dæmis þar sem þeir klifra upp í krana eða hlekkja sig við vinnuvélar, dæmi um borgaralega óhlýðni: (a) Það er brotið gegn lögum með því að trufla löglegar framkvæmdir; (b) markmiðið er hins vegar ekki hagur tiltekinna einstaklinga eða afmarkaðra hópa heldur hagsmunir og heill alls almennings, einnig komandi kynslóða; (c) lögbrotin eru framin fyrir opnum tjöldum; og (d) andófið er friðsamlegt þótt stundum komi til stimpinga við lögreglu þegar verið er að fjarlægja mótmælendur af vettvangi. Slík mótmæli fylgja einnig yfirleitt í kjölfar margvíslegrar löglegrar baráttu fyrir sama málstað og eru stunduð samhliða henni.

Á hinn bóginn geta mótmæli vörubílstjóra vorið 2007 ekki talist borgaraleg óhlýðni, þar sem (a) mótmælin voru ekki friðsamleg þar sem þau stofnuðu öryggi annarra borgara í hætti og (b) markmiðið var ekki almannaheill heldur sérhagsmunir.

Ýmiss konar andóf

Borgaraleg óhlýðni er einungis ein tegund af því andófi sem er eðlilegur þáttur í lífi í lýðræðisríki. Ef aflað er tilskilinna leyfa eru mótmælafundir og kröfugöngur til að mynda yfirleitt ekki dæmi um borgaralega óhlýðni, meðal annars vegna þess að ekki er um neina óhlýðni að ræða. Þótt mótmæli og kröfugöngur kunni að vera valdhöfum þyrnir í augum, þá felur slíkt ekki í sér óhlýðni nema um lögbrot sé að ræða eða óeðlilega truflun á lífi og starfi annarra.

Önnur tegund andófs er uppreisn gegn tilteknum öflum, jafnvel stjórnvöldum, sem getur verið réttmæt í ríki sem er lýðræðislegt í þeim skilningi að það býr við og fullnægir formlegum skilyrðum um lýðræði, svo sem þrígreiningu ríkisvalds, það hefur stjórnarskrá og lýtur lögum. Spurningin um hvort uppreisn er réttmæt veltur á því hvort hana má réttlæta með vísun í frumforsendur réttlætis. Í slíku tilviki væri ekki um borgaralega óhlýðni að ræða heldur mun róttækara andóf þar sem uppreisnarmenn eru jafnvel undir það búnir að beita ofbeldi (kannski með réttmætum hætti) og myndu eflaust einnig forðast refsingar.

Rosa Parks og Martin Luther King Jr.

Eitt frægasta dæmi um borgaralega óhlýðni átti sér stað í Alabama í Bandaríkjunum 1. desember 1955. Svört kona, Rosa Parks að nafni, sat í fullsetnum strætisvagni þegar inn kom hvítur farþegi. Bílstjórinn skipaði henni að standa upp, eins og lög gerðu ráð fyrir, en hún neitaði. Andóf Rosu Parks var ekki hið fyrsta sinnar tegundar, en það varð innblástur fyrir réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum. Það fellur undir flest atriði skilgreiningarinnar sem lýst var í upphafi svarsins, enda er persónulegur hagur Rosu af því að hafa sæti að sjálfsögðu aukaatriði málsins samanborið við áhrifin af þessu atviki.

Rosa Parks.

Árið 1964 hlaut Martin Luther King Jr. friðarverðlaun Nóbels fyrir baráttu sína gegn aðskilnaði svartra og hvítra í Bandaríkjunum en í þeirri baráttu beitti hann fyrst og fremst borgaralegri óhlýðni – og leiftrandi ræðusnilld. Árið 1963 stóð Martin Luther King ásamt fleirum fyrir víðtæku andófi í Birmingham, Alabama, og var meðal annars fangelsaður fyrir vikið. Úr fangelsinu skrifaði hann frægt bréf, „Bréf úr fangelsinu í Birmingham“ þar sem hann svarar nokkrum hvítum prestum sem höfðu sent frá sér yfirlýsingu með yfirskriftinni „Ákall um einingu“. Prestarnir viðurkenndu að félagslegt ranglæti viðgengist, en að baráttan gegn aðskilnaði svartra og hvítra yrði að fara fram í réttarsölum, ekki úti á götu. Martin Luther King andmælti þessu og sagði að án friðsamra en öflugra beinna aðgerða yrði félagslegu réttlæti aldrei náð. „Þessi ‘bið’ hefur yfirleitt alltaf þýtt ‘aldrei’. Hann sagði líka að borgaraleg óhlýðni væri ekki einungis réttlætanleg andspænis ranglátum lögum, heldur að „maður bæri siðferðilega ábyrgð á að brjóta gegn ranglátum lögum“.

Árið 1968 var Martin Luther King jr. myrtur en þá hafði hann helgað krafta sína baráttu gegn fátækt og stríðinu í Víetnam. Barátta hans hafði gríðarleg áhrif og er gott dæmi um þann árangur sem borgaraleg óhlýðni getur skilað.

Heimildir:
  • John Rawls, „The definition of civil disobedience“, A Theory of Justice, endurskoðuð útgáfa, Harvard University Press, 1999, bls. 319–323. Í þessum kafla gerir Rawls einnig grein fyrir breytileika í skilgreiningu manna á borgaralegri óhlýðni.
  • Wikipedia.org, Letter from Birmingham Jail. Sótt 21.1.2009.
  • Wikipedia.org, Martin Luther King, Jr.. Sótt 21.1.2009.
  • Wikipedia.org, Rosa Parks. Sótt 21.1.2009.

Myndir:

Höfundur

Ólafur Páll Jónsson

prófessor í heimspeki við HÍ

Útgáfudagur

21.1.2009

Síðast uppfært

27.1.2021

Spyrjandi

Haraldur Haraldsson

Tilvísun

Ólafur Páll Jónsson. „Í hverju felst borgaraleg óhlýðni?“ Vísindavefurinn, 21. janúar 2009, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=26593.

Ólafur Páll Jónsson. (2009, 21. janúar). Í hverju felst borgaraleg óhlýðni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=26593

Ólafur Páll Jónsson. „Í hverju felst borgaraleg óhlýðni?“ Vísindavefurinn. 21. jan. 2009. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=26593>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Í hverju felst borgaraleg óhlýðni?
Flestir heimspekingar eru sammála um að í borgaralegri óhlýðni felist að (i) brotið er gegn lögum eða reglum, (ii) markmið lögbrotsins er ekki einstaklingsbundinn hagur eða sérhagsmunir tiltekins hóps heldur almannaheill, til dæmis réttlæti, (iii) lögbrotið er framið fyrir opnum tjöldum, oftast til að vekja athygli á tilteknum málstað, (iv) athöfnin felur ekki í sér ofbeldi og (v) sá sem brýtur af sér tekur við refsingu sinni án nokkurra tilrauna til undanbragða.

Borgaraleg óhlýðni í þessum skilningi er pólitísk athöfn í tvenns konar skilningi. Annars vegar er hún ákveðin tegund af opinberum andmælum gegn ríkjandi valdi, og hins vegar liggur réttlætingin fyrir henni ævinlega í almennum skilningi á réttlæti í samfélaginu. Og þótt borgaraleg óhlýðni feli oft í sér réttmætt andóf, þá er hún einungis réttmæt ef aðrar leiðir eru annaðhvort fyrirfram útilokaðar eða hafa verið reyndar til þrautar.

En af hverju þarf borgaraleg óhlýðni endilega að forðast ofbeldi? Ástæðan er sú að markmiðið með borgaralegri óhlýðni er réttlæti og með því að forðast ofbeldi birtist krafan um réttlæti í sjálfri athöfninni. Með því að beita sjálfur ofbeldi myndi gerandinn viðurkenna réttmæti ofbeldis og þar með grafa undan eigin málstað. Einnig má hafa í huga að svar yfirvalda við óhlýðninni, ef henni er mætt á annað borð, felur oft í sér beitingu líkamlegs ofbeldis. Sá sem óhlýðnast viðurkennir að vissu leyti slíkar aðferðir með því að beita ofbeldi sjálfur. Það er ekki heldur markmið óhlýðninnar að "sigra" í baráttu við yfirvöld á einhverjum þeim vettvangi þar sem ofbeldi ræður úrslitum, enda væri óhlýðni borgarinn þá dæmdur til að "tapa".

Borgaraleg óhlýðni umhverfisverndarsinna í Melbourne í Ástralíu.

En af hverju skyldi sá sem stundar borgaralega óhlýðni ekki forðast refsingu? Ástæðan er sú að borgaraleg óhlýðni felst í því að óhlýðnast sem borgari, það er að þrátt fyrir að viðkomandi óhlýðnist tilteknum lögum eða reglum, þá virðir hann eftir sem áður þá staðreynd að lög og reglur eru grundvöllur samfélagsins. Að því leyti fer honum líkt og manni sem er ósammála leikreglum en spilar samt leikinn og virðir reglurnar í verki. En með því að láta refsinguna yfir sig ganga leiðir sá óhlýðni oft skýrt í ljós ranglætið sem var skotspónn óhlýðninnar.

Borgaraleg óhlýðni gerir ráð fyrir því að samfélagið sé, í grundvallaratriðum, lýðræðislegt réttarríki. Einungis að þessari forsendu gefinni getur andóf, sem byggist á því að brjóta gegn lögum eða reglum, gert undirliggjandi hugmynd um réttlæti að forsendu í baráttu gegn ranglátum lögum, reglum eða stofnunum.

Samkvæmt þessum skilningi á borgaralegri óhlýðni er margvíslegt andóf náttúruverndar­sinna, til dæmis þar sem þeir klifra upp í krana eða hlekkja sig við vinnuvélar, dæmi um borgaralega óhlýðni: (a) Það er brotið gegn lögum með því að trufla löglegar framkvæmdir; (b) markmiðið er hins vegar ekki hagur tiltekinna einstaklinga eða afmarkaðra hópa heldur hagsmunir og heill alls almennings, einnig komandi kynslóða; (c) lögbrotin eru framin fyrir opnum tjöldum; og (d) andófið er friðsamlegt þótt stundum komi til stimpinga við lögreglu þegar verið er að fjarlægja mótmælendur af vettvangi. Slík mótmæli fylgja einnig yfirleitt í kjölfar margvíslegrar löglegrar baráttu fyrir sama málstað og eru stunduð samhliða henni.

Á hinn bóginn geta mótmæli vörubílstjóra vorið 2007 ekki talist borgaraleg óhlýðni, þar sem (a) mótmælin voru ekki friðsamleg þar sem þau stofnuðu öryggi annarra borgara í hætti og (b) markmiðið var ekki almannaheill heldur sérhagsmunir.

Ýmiss konar andóf

Borgaraleg óhlýðni er einungis ein tegund af því andófi sem er eðlilegur þáttur í lífi í lýðræðisríki. Ef aflað er tilskilinna leyfa eru mótmælafundir og kröfugöngur til að mynda yfirleitt ekki dæmi um borgaralega óhlýðni, meðal annars vegna þess að ekki er um neina óhlýðni að ræða. Þótt mótmæli og kröfugöngur kunni að vera valdhöfum þyrnir í augum, þá felur slíkt ekki í sér óhlýðni nema um lögbrot sé að ræða eða óeðlilega truflun á lífi og starfi annarra.

Önnur tegund andófs er uppreisn gegn tilteknum öflum, jafnvel stjórnvöldum, sem getur verið réttmæt í ríki sem er lýðræðislegt í þeim skilningi að það býr við og fullnægir formlegum skilyrðum um lýðræði, svo sem þrígreiningu ríkisvalds, það hefur stjórnarskrá og lýtur lögum. Spurningin um hvort uppreisn er réttmæt veltur á því hvort hana má réttlæta með vísun í frumforsendur réttlætis. Í slíku tilviki væri ekki um borgaralega óhlýðni að ræða heldur mun róttækara andóf þar sem uppreisnarmenn eru jafnvel undir það búnir að beita ofbeldi (kannski með réttmætum hætti) og myndu eflaust einnig forðast refsingar.

Rosa Parks og Martin Luther King Jr.

Eitt frægasta dæmi um borgaralega óhlýðni átti sér stað í Alabama í Bandaríkjunum 1. desember 1955. Svört kona, Rosa Parks að nafni, sat í fullsetnum strætisvagni þegar inn kom hvítur farþegi. Bílstjórinn skipaði henni að standa upp, eins og lög gerðu ráð fyrir, en hún neitaði. Andóf Rosu Parks var ekki hið fyrsta sinnar tegundar, en það varð innblástur fyrir réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum. Það fellur undir flest atriði skilgreiningarinnar sem lýst var í upphafi svarsins, enda er persónulegur hagur Rosu af því að hafa sæti að sjálfsögðu aukaatriði málsins samanborið við áhrifin af þessu atviki.

Rosa Parks.

Árið 1964 hlaut Martin Luther King Jr. friðarverðlaun Nóbels fyrir baráttu sína gegn aðskilnaði svartra og hvítra í Bandaríkjunum en í þeirri baráttu beitti hann fyrst og fremst borgaralegri óhlýðni – og leiftrandi ræðusnilld. Árið 1963 stóð Martin Luther King ásamt fleirum fyrir víðtæku andófi í Birmingham, Alabama, og var meðal annars fangelsaður fyrir vikið. Úr fangelsinu skrifaði hann frægt bréf, „Bréf úr fangelsinu í Birmingham“ þar sem hann svarar nokkrum hvítum prestum sem höfðu sent frá sér yfirlýsingu með yfirskriftinni „Ákall um einingu“. Prestarnir viðurkenndu að félagslegt ranglæti viðgengist, en að baráttan gegn aðskilnaði svartra og hvítra yrði að fara fram í réttarsölum, ekki úti á götu. Martin Luther King andmælti þessu og sagði að án friðsamra en öflugra beinna aðgerða yrði félagslegu réttlæti aldrei náð. „Þessi ‘bið’ hefur yfirleitt alltaf þýtt ‘aldrei’. Hann sagði líka að borgaraleg óhlýðni væri ekki einungis réttlætanleg andspænis ranglátum lögum, heldur að „maður bæri siðferðilega ábyrgð á að brjóta gegn ranglátum lögum“.

Árið 1968 var Martin Luther King jr. myrtur en þá hafði hann helgað krafta sína baráttu gegn fátækt og stríðinu í Víetnam. Barátta hans hafði gríðarleg áhrif og er gott dæmi um þann árangur sem borgaraleg óhlýðni getur skilað.

Heimildir:
  • John Rawls, „The definition of civil disobedience“, A Theory of Justice, endurskoðuð útgáfa, Harvard University Press, 1999, bls. 319–323. Í þessum kafla gerir Rawls einnig grein fyrir breytileika í skilgreiningu manna á borgaralegri óhlýðni.
  • Wikipedia.org, Letter from Birmingham Jail. Sótt 21.1.2009.
  • Wikipedia.org, Martin Luther King, Jr.. Sótt 21.1.2009.
  • Wikipedia.org, Rosa Parks. Sótt 21.1.2009.

Myndir:...