Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er geðshræringin viðbjóður?

Jakob Smári

Þegar leitað er í huganum að einhverju sem vekur viðbjóð kemur okkur líklega fyrst í hug það sem lyktar illa eða er vont á bragðið. Ef við veltum þessu eilítið betur fyrir okkur vekur það ef til vill líka viðbjóð með okkur að fólk hegði sér ósiðlega eða jafnvel að það hafi tilteknar skoðanir.

Rannsóknir fræðimanna hafa nýlega beinst að geðshræringunni viðbjóði. Margir halda því fram að hjá mönnum gegni viðbjóður veigameira hlutverki en einvörðungu því að hjálpa þeim að forðast skemmdan eða óætan mat sem hann gerði líklega upphaflega. Sálfræðingurinn Rozin sem einna mest hefur rannsakað viðbjóð fullyrðir að
enda þótt viðbjóður eigi sér fyrirrennara í öðrum dýrum, er hann sú eina af sex til sjö grunngeðshræringum sem umbreytist gersamlega hjá manninum.
Kjarni viðbjóðs hjá mönnum virðist vera löngun til að losna við það sem maður hefur innbyrt í eiginlegri eða óeiginlegri merkingu, stundum fylgja dæmigerð svipbrigði, flökurleiki, aukin munnvatnsmyndun og svo framvegis.

Darwin var einna fyrstur til að benda á að viðbjóður gegni því hlutverki hjá dýrum og mönnum að forðast óæti. Í samræmi við þetta kemur fyrir svokallaður „gaping response“ hjá dýrum, eða að gapa eins og þau séu að fara að kasta upp. Þetta eru viðbrögð, til að mynda úlfa og fálkategunda, gagnvart æti sem dýrin eru ekki vön að leggja sér til kjafts eða fæðu sem getur valdið magaveiki. Svo virðist vera að hjá nýfæddum börnum megi finna fyrrnefndan „gaping response“ eða gapsvörun við bragðsterkum efnum. Þetta eru hins vegar tölfræðileg tengsl en ekki óumflýjanleg. Engin merki um viðbjóð eða gapsvörun finnast hins vegar hjá ungum börnum án beinnar ertingar skynfæranna.

Rozin heldur því fram að það sé fyrst í kringum 4-8 ára aldur sem tengsl viðbjóðs við óbragð rofni. Rozin og samstarfsmenn hafa rannsakað hvers vegna fólk telur eitthvað vera „smitað“ eða viðbjóðslegt. Mat fólks á því virðist ekki ætíð vera það sem kalla mætti skynsamlegt. Flestum finnst til dæmis ógeðslegt að borða kökusneið ef einhver sem þeir kunna illa við hefur gætt sér á henni. Á sama hátt er fólki illa við að drekka drykk sem könguló hefur legið í. Þessi viðbrögð breytast lítt þótt fæðan sé fullkomlega sótthreinsuð og þeir séu fullvissaðir um það. Einnig virðist flestum vera meinilla við að borða til dæmis súkkulaði sem lítur út eins og hundaskítur. Fólk finnur líka til viðbjóðs gagnvart eigin munnvatni um leið og það er komið úr líkamanum.

Sá viðbjóður sem við finnum til þegar við hugsum okkur að ganga í fötum af ákveðnu fólki sýnir hversu mjög geðshræringin getur fjarlægst lykt eða bragð. Viðbjóður kemur fram bæði ef um er að ræða föt af einhverjum sem átt hefur við veikindi að stríða (eyðni), orðið fyrir slysi (tekinn af fótur) eða framið afbrot (einkum morð, nauðgun og svo framvegis). Það breytir engu þótt fötin séu þvegin og því er erfitt að skilja þetta sem viðbjóð fyrir líkamsvessum.

Athyglisvert er hvernig ýmsir menningarheimar hafa bróderað í kringum viðbjóð og sett um hann flóknar reglur. Hér má nefna sem dæmi hindúa og stéttakerfi þeirra með hina óhreinu og ósnertanlegu á botninum. Mjög skýrar reglur eru einnig meðal Gyðinga og múslíma um það hvaða fæða sé hrein og óhrein. Þá eru konur óhreinar meðan þær hafa á klæðum og í vissan tíma eftir barnsburð. Rozin setur fram þá tilgátu að það sem minnir okkur á tengsl manna og dýra veki viðbjóð. Það sem er dýrslegt er um leið viðbjóðslegt. Þess vegna verði til reglur um át, kynlíf og svo framvegis sem miði að því að greina hér á milli.

Fólk hefur mismikla tilhneigingu til að finna til viðbjóðs. Viðbjóðsnæmi er þess vegna einstaklingsbundin. Fylgni er á milli þess að finna til viðbjóðs gagnvart fæðu, rottum, sifjaspellum og svo framvegis. Atriði í mælingum á viðbjóðsnæmi (e. disgust sensitivity) varða til dæmis að borða uppáhaldssúpuna sína úr hundaskál, að borða uppáhaldskökuna sína eftir að þjónninn hefur bitið í hana, hlandlykt úti á götu, að sjá einhvern stinga sig óvart á öngli, eða að klæðast peysu sem Hitler hefur átt.

Vísi viðbjóðs virðist mega finna víða í dýraríkinu sem og hjá ungabörnum. Geðshræringin umbreytist hins vegar með tímanum hjá mönnum og verður önnur en hún upphaflega var. Það sem ræsir hana er þá oft óhlutbundið í meira lagi. Settar hafa verið fram hugmyndir um að leiða megi aðrar geðshræringar svo sem fyrirlitningu af viðbjóði. Þá hafa nýlega komið fram tilgátur um þátt viðbjóðs í geðrænum vandkvæðum og geðröskunum af ýmsu tagi.

Viðbjóður og fælni

Athyglisverð hugmynd varðar tengsl fælni við viðbjóð. Það sem fræðimenn nefna hér til sögu er til dæmis blóðfælni. Það sem bendir til þess að hún sé annars eðlis en önnur fælni er til dæmis að henni fylgir alla jafna hægur hjartsláttur og jafnvel yfirlið. Fylgifiskur ótta er hraður hjartsláttur en viðbjóði fylgir hins vegar hægur hjartsláttur.

Viðbjóður, árátta og þráhyggja

Það hefur verið ríkjandi hugmynd að árátta og þráhyggja sé kvíðakvilli. Sumir fræðimenn hafa haldið því fram að viðbjóður og viðbjóðsnæmi kunni að skipta hér máli. Þau afbrigði sem tengjast helst viðbjóði eru þvottaárátta og þráhugsanir af ýmsu tagi sem ögra siðgæðisvitund hins þráhyggna. Í hvoru tveggja tilvikinu reynir einstaklingurinn að losa sig við einhvers konar smitbera, annað hvort í eiginlegri eða óeiginlegri merkingu, það er að segja óhreinindi eða óhreinar hugsanir. Það er reyndar sláandi líking á milli þess hvernig einstaklingur með þvottaáráttu fellir í kerfi það sem hann telur hreint og óhreint og trúarkerfi á borð við hindúisma og Gyðingdóm.

Viðbjóður og þunglyndi

Sumir fræðimenn telja að þunglyndi geti annars vegar átt rætur að rekja til grunngeðshræringanna hryggðar og reiði og hins vegar til hryggðar og viðbjóðs. Sér til halds hafa þeir rannsóknir sem benda til að tengsl á milli misnotkunar eða ofbeldis sem börn verða fyrir í æsku og þunglyndis ráðist að hluta til af viðbjóði eða skömm á eigin líkama. Sálfræðingarnir Power og Dalgleish benda á tengsl viðbjóðs við sjálfsvíg og sjálfsvígstilraunir. Sú hugmynd sem helst hefur verið uppi um þetta er að vonleysi tengist sjálfsvígum. Þetta draga Power og Dalgleish ekki í efa en benda hins vegar á tengsl við viðbjóð sem kunni að vera til staðar og séu vanmetin og vanrannsökuð. Athyglisverðar í þessu sambandi eru vísbendingar um sjálfsmisþyrmingar í nútíð og fortíð („ef tunga þín hneykslar þig skaltu rífa hana út“).

Átraskanir og kynlífsraskanir

Þá telja sumir fræðimenn að viðbjóður kunni að gegna hlutverki bæði í sambandi við átraskanir og kynlífsraskanir af ýmsu tagi. Þetta er að minnsta kosti ekki svo langsótt varðandi átraskanir eins og lystarstol. Hér sé þannig um að ræða bæði viðbjóð sem beinist að eigin líkama og viðbjóð sem beinist að fæðu. Almennt má segja að rannsóknir á viðbjóði hafi verið allt of takmarkaðar hingað til þar sem betri skilningur á þessari geðshræringu er líklegur til þess að varpa ljósi á geðraskanir sem og ýmis menningarleg fyrirbæri.



Nokkrar heimildir
  • De Jong, P.J. og Muris, P. (2002). „Spider phobia: Interaction of disgust and perceived likelihood of invuluntary physical contact“. Journal of Anxiety Disorders, 16, 51-65.
  • Mancini, F., Gragnani, A., og D´Olimpio, F. (2001). „The connection betwen disgust and obsessions and compulsions in a non-clinical sample“. Personality and Individual Differences, 31, 1173-1180.
  • Power og Dalgleish (1997). Cognition and emotion. Psychology Press.
  • Rozin, P. og Fallon, A.E. (1987). „A perspective on disgust“. Psychological Review, 94, 23-41.
  • Rozin, P., Haidt, J. og McCauley, C.R. (1993). „Disgust“. Í M. Lewis og J.H. Haviland (ritstj.), Handbook of emotions. Guilford Press.



Mynd af Paul Rozin: Kent State University - PHI Beta Kappa Visiting Scholar Program

Mynd af Charles Darwin: University of Michigan - EEB: Ecology and Evolutionary Biology

Höfundur

fyrrverandi prófessor í sálarfræði við HÍ

Útgáfudagur

31.7.2002

Spyrjandi

N.N.

Tilvísun

Jakob Smári. „Hvað er geðshræringin viðbjóður?“ Vísindavefurinn, 31. júlí 2002, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2619.

Jakob Smári. (2002, 31. júlí). Hvað er geðshræringin viðbjóður? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2619

Jakob Smári. „Hvað er geðshræringin viðbjóður?“ Vísindavefurinn. 31. júl. 2002. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2619>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er geðshræringin viðbjóður?
Þegar leitað er í huganum að einhverju sem vekur viðbjóð kemur okkur líklega fyrst í hug það sem lyktar illa eða er vont á bragðið. Ef við veltum þessu eilítið betur fyrir okkur vekur það ef til vill líka viðbjóð með okkur að fólk hegði sér ósiðlega eða jafnvel að það hafi tilteknar skoðanir.

Rannsóknir fræðimanna hafa nýlega beinst að geðshræringunni viðbjóði. Margir halda því fram að hjá mönnum gegni viðbjóður veigameira hlutverki en einvörðungu því að hjálpa þeim að forðast skemmdan eða óætan mat sem hann gerði líklega upphaflega. Sálfræðingurinn Rozin sem einna mest hefur rannsakað viðbjóð fullyrðir að
enda þótt viðbjóður eigi sér fyrirrennara í öðrum dýrum, er hann sú eina af sex til sjö grunngeðshræringum sem umbreytist gersamlega hjá manninum.
Kjarni viðbjóðs hjá mönnum virðist vera löngun til að losna við það sem maður hefur innbyrt í eiginlegri eða óeiginlegri merkingu, stundum fylgja dæmigerð svipbrigði, flökurleiki, aukin munnvatnsmyndun og svo framvegis.

Darwin var einna fyrstur til að benda á að viðbjóður gegni því hlutverki hjá dýrum og mönnum að forðast óæti. Í samræmi við þetta kemur fyrir svokallaður „gaping response“ hjá dýrum, eða að gapa eins og þau séu að fara að kasta upp. Þetta eru viðbrögð, til að mynda úlfa og fálkategunda, gagnvart æti sem dýrin eru ekki vön að leggja sér til kjafts eða fæðu sem getur valdið magaveiki. Svo virðist vera að hjá nýfæddum börnum megi finna fyrrnefndan „gaping response“ eða gapsvörun við bragðsterkum efnum. Þetta eru hins vegar tölfræðileg tengsl en ekki óumflýjanleg. Engin merki um viðbjóð eða gapsvörun finnast hins vegar hjá ungum börnum án beinnar ertingar skynfæranna.

Rozin heldur því fram að það sé fyrst í kringum 4-8 ára aldur sem tengsl viðbjóðs við óbragð rofni. Rozin og samstarfsmenn hafa rannsakað hvers vegna fólk telur eitthvað vera „smitað“ eða viðbjóðslegt. Mat fólks á því virðist ekki ætíð vera það sem kalla mætti skynsamlegt. Flestum finnst til dæmis ógeðslegt að borða kökusneið ef einhver sem þeir kunna illa við hefur gætt sér á henni. Á sama hátt er fólki illa við að drekka drykk sem könguló hefur legið í. Þessi viðbrögð breytast lítt þótt fæðan sé fullkomlega sótthreinsuð og þeir séu fullvissaðir um það. Einnig virðist flestum vera meinilla við að borða til dæmis súkkulaði sem lítur út eins og hundaskítur. Fólk finnur líka til viðbjóðs gagnvart eigin munnvatni um leið og það er komið úr líkamanum.

Sá viðbjóður sem við finnum til þegar við hugsum okkur að ganga í fötum af ákveðnu fólki sýnir hversu mjög geðshræringin getur fjarlægst lykt eða bragð. Viðbjóður kemur fram bæði ef um er að ræða föt af einhverjum sem átt hefur við veikindi að stríða (eyðni), orðið fyrir slysi (tekinn af fótur) eða framið afbrot (einkum morð, nauðgun og svo framvegis). Það breytir engu þótt fötin séu þvegin og því er erfitt að skilja þetta sem viðbjóð fyrir líkamsvessum.

Athyglisvert er hvernig ýmsir menningarheimar hafa bróderað í kringum viðbjóð og sett um hann flóknar reglur. Hér má nefna sem dæmi hindúa og stéttakerfi þeirra með hina óhreinu og ósnertanlegu á botninum. Mjög skýrar reglur eru einnig meðal Gyðinga og múslíma um það hvaða fæða sé hrein og óhrein. Þá eru konur óhreinar meðan þær hafa á klæðum og í vissan tíma eftir barnsburð. Rozin setur fram þá tilgátu að það sem minnir okkur á tengsl manna og dýra veki viðbjóð. Það sem er dýrslegt er um leið viðbjóðslegt. Þess vegna verði til reglur um át, kynlíf og svo framvegis sem miði að því að greina hér á milli.

Fólk hefur mismikla tilhneigingu til að finna til viðbjóðs. Viðbjóðsnæmi er þess vegna einstaklingsbundin. Fylgni er á milli þess að finna til viðbjóðs gagnvart fæðu, rottum, sifjaspellum og svo framvegis. Atriði í mælingum á viðbjóðsnæmi (e. disgust sensitivity) varða til dæmis að borða uppáhaldssúpuna sína úr hundaskál, að borða uppáhaldskökuna sína eftir að þjónninn hefur bitið í hana, hlandlykt úti á götu, að sjá einhvern stinga sig óvart á öngli, eða að klæðast peysu sem Hitler hefur átt.

Vísi viðbjóðs virðist mega finna víða í dýraríkinu sem og hjá ungabörnum. Geðshræringin umbreytist hins vegar með tímanum hjá mönnum og verður önnur en hún upphaflega var. Það sem ræsir hana er þá oft óhlutbundið í meira lagi. Settar hafa verið fram hugmyndir um að leiða megi aðrar geðshræringar svo sem fyrirlitningu af viðbjóði. Þá hafa nýlega komið fram tilgátur um þátt viðbjóðs í geðrænum vandkvæðum og geðröskunum af ýmsu tagi.

Viðbjóður og fælni

Athyglisverð hugmynd varðar tengsl fælni við viðbjóð. Það sem fræðimenn nefna hér til sögu er til dæmis blóðfælni. Það sem bendir til þess að hún sé annars eðlis en önnur fælni er til dæmis að henni fylgir alla jafna hægur hjartsláttur og jafnvel yfirlið. Fylgifiskur ótta er hraður hjartsláttur en viðbjóði fylgir hins vegar hægur hjartsláttur.

Viðbjóður, árátta og þráhyggja

Það hefur verið ríkjandi hugmynd að árátta og þráhyggja sé kvíðakvilli. Sumir fræðimenn hafa haldið því fram að viðbjóður og viðbjóðsnæmi kunni að skipta hér máli. Þau afbrigði sem tengjast helst viðbjóði eru þvottaárátta og þráhugsanir af ýmsu tagi sem ögra siðgæðisvitund hins þráhyggna. Í hvoru tveggja tilvikinu reynir einstaklingurinn að losa sig við einhvers konar smitbera, annað hvort í eiginlegri eða óeiginlegri merkingu, það er að segja óhreinindi eða óhreinar hugsanir. Það er reyndar sláandi líking á milli þess hvernig einstaklingur með þvottaáráttu fellir í kerfi það sem hann telur hreint og óhreint og trúarkerfi á borð við hindúisma og Gyðingdóm.

Viðbjóður og þunglyndi

Sumir fræðimenn telja að þunglyndi geti annars vegar átt rætur að rekja til grunngeðshræringanna hryggðar og reiði og hins vegar til hryggðar og viðbjóðs. Sér til halds hafa þeir rannsóknir sem benda til að tengsl á milli misnotkunar eða ofbeldis sem börn verða fyrir í æsku og þunglyndis ráðist að hluta til af viðbjóði eða skömm á eigin líkama. Sálfræðingarnir Power og Dalgleish benda á tengsl viðbjóðs við sjálfsvíg og sjálfsvígstilraunir. Sú hugmynd sem helst hefur verið uppi um þetta er að vonleysi tengist sjálfsvígum. Þetta draga Power og Dalgleish ekki í efa en benda hins vegar á tengsl við viðbjóð sem kunni að vera til staðar og séu vanmetin og vanrannsökuð. Athyglisverðar í þessu sambandi eru vísbendingar um sjálfsmisþyrmingar í nútíð og fortíð („ef tunga þín hneykslar þig skaltu rífa hana út“).

Átraskanir og kynlífsraskanir

Þá telja sumir fræðimenn að viðbjóður kunni að gegna hlutverki bæði í sambandi við átraskanir og kynlífsraskanir af ýmsu tagi. Þetta er að minnsta kosti ekki svo langsótt varðandi átraskanir eins og lystarstol. Hér sé þannig um að ræða bæði viðbjóð sem beinist að eigin líkama og viðbjóð sem beinist að fæðu. Almennt má segja að rannsóknir á viðbjóði hafi verið allt of takmarkaðar hingað til þar sem betri skilningur á þessari geðshræringu er líklegur til þess að varpa ljósi á geðraskanir sem og ýmis menningarleg fyrirbæri.



Nokkrar heimildir
  • De Jong, P.J. og Muris, P. (2002). „Spider phobia: Interaction of disgust and perceived likelihood of invuluntary physical contact“. Journal of Anxiety Disorders, 16, 51-65.
  • Mancini, F., Gragnani, A., og D´Olimpio, F. (2001). „The connection betwen disgust and obsessions and compulsions in a non-clinical sample“. Personality and Individual Differences, 31, 1173-1180.
  • Power og Dalgleish (1997). Cognition and emotion. Psychology Press.
  • Rozin, P. og Fallon, A.E. (1987). „A perspective on disgust“. Psychological Review, 94, 23-41.
  • Rozin, P., Haidt, J. og McCauley, C.R. (1993). „Disgust“. Í M. Lewis og J.H. Haviland (ritstj.), Handbook of emotions. Guilford Press.



Mynd af Paul Rozin: Kent State University - PHI Beta Kappa Visiting Scholar Program

Mynd af Charles Darwin: University of Michigan - EEB: Ecology and Evolutionary Biology...