Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Vöðvar eru af þremur gerðum; sléttir vöðvar, hjartavöðvinn og beinagrindarvöðvar sem nefnast einnig þverrákóttir vöðvar.
Legið og vöðvar í æðaveggjum og veggjum meltingarvegarins eru dæmi um slétta vöðva. Flestir sléttir vöðvar eru aðeins ein slétt vöðvafruma og fjöldi þeirra skiptir milljörðum. Þeir eru yfirleitt ekki taldir með þegar talað er um vöðvafjöldann.
Hjartavöðvinn er aðeins einn, það er hjartað sjálft. Bæði sléttir vöðvar og hjartavöðvinn eru undir stjórn sjálfvirka taugakerfisins og lúta ekki stjórn vilja okkar. Beinagrindarvöðvarnir gera það aftur á móti.
Heimildum ber ekki saman um fjölda vöðva í mannslíkamanum en líklega eru þeir einhvers staðar á bilinu 640-850. Ástæða þess að ekki er ein tala sem allir sammælast um er meðal annars sú að sumir telja samsettan vöðva sem einn en aðrir telja sérstaklega hvern hluta slíks vöðva. Þannig er til dæmis fjórhöfði í læri gerður úr fjórum hlutum eða vöðvum.
Stóri rassvöðvinn (gluteus maximus) er stærsti vöðvi líkamans.
Stærsti vöðvi líkamans er stóri rassvöðvi, sé miðað við ummál, en sá lengsti er skraddaravöðvinn innan á lærinu.
Það er ekki einfalt mál að velja einn vöðva sem þann sterkasta í líkamanum þar sem þeir vinna yfirleitt ekki einir og sér heldur saman. Eins er misjafnt hvaða forsendur eða viðmið fólk vill nota við valið. Hér að neðan eru þó taldir upp þeir sem helst hafa verið nefndir til sögunnar sem sterkasti vöðvi líkamans út frá mismunandi forsendum.
Ytri augnvöðvarnir eru meðal þeirra vöðva sem eru á mestri hreyfingu því þeir eru sífellt að stilla stöðu augnanna. Þegar höfuðið hreyfist stilla ytri augnvöðvarnir augun í sífellu til að viðhalda stöðugri sjónstillingu. Ytri augnvöðvum er þó hætt við þreytu, enda ekki furða þegar klukkustundar bókalestur krefst nærri 10.000 samhæfðra hreyfinga þeirra.
Stóri rassvöðvi er, eins og áður segir, stærsti vöðvi líkamans. Hann er stór og sterkur, enda gegnir hann því hlutverki að halda bolnum uppréttum. Hann er sá vöðvi sem vinnur mest gegn áhrifum þyngdaraflsins þegar við göngum upp stiga.
Hjartað er mesti „vinnuhestur“ líkamans. Það dælir um 70 millilítrum af blóði í hverjum hjartslætti eða rúmum 100 lítrum af blóði daglega. Á einni mannsævi getur það slegið oftar en þremur milljörðum sinnum.
Hjartað dælir rúmlega 100 lítrum af blóði á dag.
Miðað við þyngd er tyggjandi, vöðvinn sem hreyfir neðri kjálkann, sterkasti vöðvi líkamans. Í samvinnu við alla kjálkavöðvana sér hann um að loka kjálkunum með krafti sem samsvarar 25 kílóum á framtönnum en 91 kílói á jöxlum.
Hjá konum situr legið í neðri hluta mjaðmagrindar. Vöðvar þess eru mjög sterkir, enda stuðla samdrættir þeirra að flutningi barns í gegnum fæðingarveginn. Það er hríðahormón frá heiladingli sem framkallar þessa öflugu samdrætti í leginu.
Tungan er gerð úr 15 vöðvum.
Sólvöðvi í neðri fótleggnum, neðan við kálfavöðvann, er sá vöðvi sem getur togað af mestu afli. Sólvöðvinn er mjög mikilvægur við gang, hlaup og dans. Hann er talinn mjög öflugur ásamt kálfavöðva, þar sem hann togar á móti þyngdaraflinu til að halda líkamanum uppréttum. Hann kemur í veg fyrir að við dettum aftur fyrir okkur.
Tungan er gjarnan á lista yfir sterkustu vöðva, kannski af því að hún er sístarfandi líkt og hjartað. Hún er hins vegar ekki einn vöðvi heldur gerð úr vöðvahópum eða alls fimmtán minni vöðvum. Tungan hjálpar okkur meðal annars að kyngja, blanda munnvatni við fæðu og gegnir lykilhlutverki í tali. Aftast á tungunni er eitilvefur sem tilheyrir ónæmiskerfinu og heldur sýklum í skefjum. Jafnvel í svefni er tungan sífellt að þrýsta munnvatni aftur í kokið.
Heimild:
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hver er sterkasti vöðvinn í líkama manns, hver er sá stærsti og hvað eru vöðvarnir margir?“ Vísindavefurinn, 19. janúar 2012, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=26156.
Þuríður Þorbjarnardóttir. (2012, 19. janúar). Hver er sterkasti vöðvinn í líkama manns, hver er sá stærsti og hvað eru vöðvarnir margir? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=26156
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hver er sterkasti vöðvinn í líkama manns, hver er sá stærsti og hvað eru vöðvarnir margir?“ Vísindavefurinn. 19. jan. 2012. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=26156>.