Hér er einnig svarað spurningu Sigursteins Gunnarssonar: Reisti Merlín Stonehenge?Spámaðurinn Merlín er sögupersóna sem kemur fyrir í mörgum sögnum af Artúri konungi og riddurum hringborðsins. Fyrstu samfelldu frásögnina af Merlín er að finna í Breta sögum Geoffrey frá Monmouth sem rituð var á latínu á fyrri hluta 12. aldar. Breta sögurnar voru þýddar á íslensku á 13. öld. Um 1150 orti Geoffrey ævisögu Merlíns í rúmlega 1.500 ljóðlínum og hann skrifaði einnig fjölmarga spádóma sem voru eignaðir galdramanninum. Þeir spádómar voru þýddir hér á miðöldum og nefnast Merlínusspá.
Af uppruna og getnaði Merlíns er þess helst að geta að móðir hans hélt því statt og stöðugt fram að hún hefði aldrei verið við karlmann af holdi og blóði kennd en einungis notið ásta með ósýnilegu ungmenni. Lærðir menn lögðu þó lítinn trúnað á þá sögu og töldu fullvíst að faðir Merlíns væri mara. Samkvæmt ýmsum sögnum á Merlín að hafa flutt gríðarmikinn steinhring, sem nú er þekktur undir nafninu Stonehenge, frá Írlandi til Salisbury og endurreist hann þar. Talið er að sögupersónan Merlín sé að einhverju leyti byggður á fornri sagnahefð um sjáandanum Myrddin, en í honum runnu saman tvær kunnar bókmenntapersónur. Annars vegar hinn villti skógarmaður (lat. homo silvester) og hins vegar spámaðurinn sem er sturlaður en mælir þó vísdómsorð. Þar sem Geoffrey frá Monmouth var umhugað um að misbjóða ekki frönskum lesendum sínum umritaði hann velska nafnið Myrddin sem Merlínus, annars var hætta á að söguhetja hans yrði álitin hið versta skítseiði enda hljómar Myrddin líkt og franska orðið merde sem merkir beinlínis skítur. Allt til ársins 1545 var ritið Bók myrkra spádóma hins enska Merlínusar á bannlista kaþólska kirkjunnar og frá miðri 17. öld er til leikritið Fæðing Merlíns sem eitt sinn var eignað Shakespeare. Jonathan Swift sem skrifaði um Ferðir Gullivers gerði grín að trúgirni manna á spádóma Merlíns í riti sem hann nefndi Frægir spádómar Merlínusar, skrifaðir fyrir þúsund árum og segja fyrir um það sem gerist árið 1709. Það virðist þó hafa stoðað lítt því langt fram eftir 19. öld voru gefin út á Englandi almanök og stjörnuspákort með nafni Merlíns í titlinum. Á 13. öld voru þýddar á íslensku fimm sögur úr flokki Artúrssagna, en þær eru: Tristrams saga, Ívents saga, Erex saga, Parcevals saga og Möttuls saga.
Skoðið einnig svör Terry Gunnells við eftirfarandi spurningumHeimildir
- Willem Pieter Gerritsen (ritstj.), A Dictionary of Medieval Heroes, Boydell Press, Woodbridge, 1998.
- Vésteinn Ólason (ritstj.), Íslensk bókmenntasaga I-II, Mál og menning, Reykjavík, 1992-3.