Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver er ríkasti maður í heimi?

Gylfi Magnússon

Það er ekki hlaupið að því að finna áreiðanlegar heimildir um eignir ríkasta fólks í heimi enda er allur gangur á því hvort þeir sem til greina koma vilja gefa upp hve mikið þeir eiga. Jafnvel er til í dæminu að þeir reyni að ýkja eða draga úr auði sínum. Sumir vita svo sjálfsagt ekki aura sinna tal!

Engu að síður er hægt að finna mat ýmissa aðila á eignum ríkasta fólks í heimi. Undanfarin ár hefur Bandaríkjamaðurinn Bill Gates, stofnandi Microsoft hugbúnaðarfyrirtækisins, yfirleitt verið talinn ríkastur. Árið 2001 mat tímaritið Forbes eignir hans á 59 milljarða dollara eða ríflega 5000 milljarða íslenskra króna á gengi í júní 2002. Til samanburðar má geta þess að verg landsframleiðsla Íslands árið 2001 var einungis um 750 milljarðar króna. Eignir Bill Gates voru því metnar jafnvirði landsframleiðslu Íslands í um sjö ár. Þess má einnig geta að í lok ársins 2000 var áætlað verðmæti allra bygginga á Íslandi um 1.200 milljarðar króna. Auður Bill Gates hefði því dugað til þess að greiða fyrir þær ríflega fjórum sinnum.

Erfingjar Sam Waltons, sem stofnaði meðal annars verslunarkeðjuna Wal Mart, virðast koma einna næst Bill Gates og raunar eru samanlögð auðæfi þeirrar fjölskyldu talin mun meiri en hjá Bill Gates. Eignir þess ríkasta í fjölskyldunni, Robson Walton, voru af sumum taldar jafnvel enn meiri en eignir Bill Gates árið 2001. Nokkuð víst virðist að systurnar Alice og Helen Walton eru ríkustu konur í heimi. Þær voru taldar eiga 18,5 milljarða dollara hvor árið 2001.

Af öðrum auðkýfingum má nefna fjárfestinn Warren Buffet, eignir hans voru metnar á ríflega 32 milljarða dollara árið 2001. Þá er félagi Bill Gates hjá Microsoft, Paul Allen, ágætlega stæður, eignir hans voru metnar á ríflega 30 milljarða dollara árið 2001.

Rétt er að hafa í huga að ríkidæmi sem byggist á net- og hugbúnaðarfyrirtækjum hefur reynst afskaplega fallvalt. Larry Ellison, aðaleigandi hugbúnaðarfyrirtækisins Oracle, var álitinn nánast jafnríkur og Bill Gates árið 2000 en ári síðar hafði verð hlutabréfa í fyrirtækinu hrunið og eignir hans voru taldar helmingi minna virði.

Aðrir milljarðamæringar en Ellison hafa einnig mátt þola nokkrar þrengingar, ef svo má að orði komast. Japaninn Yasumitsu Shigeta var talinn eiga 25 milljarða dollara árið 1999 en einungis 1,7 milljarða dollara árið eftir og aumar 360 milljónir dollara árið 2001. Annar Japani, Yoshiaki Tsutsumi var af sumum talinn ríkasti maður heims árið 1990, með eignir að verðmæti 16 milljarða dollara. Nú kemst hann varla á blað með eignir upp á 2,8 milljarða dollara.

Ríkustu Evrópumennirnir virðast vera þýsku bræðurnir Karl og Theo Albrecht. Þeir eru jafnríkir og báðir meðal tíu ríkustu manna í heimi. Þeir stofnuðu verslanakeðjuna Aldi. Ríkasta kona í Evrópu og raunar ríkasta kona heims utan Bandaríkjanna, er einnig Þjóðverji, Johanna Quandt. Fjölskylda hennar ræður BMW-verksmiðjunum.

Þessir auðkýfingar blikna þó í samanburði við John D. Rockefeller á sínum tíma. Hann varð einkum ríkur á viðskiptum með olíu. Árið 1913 voru eignir hans metnar á 900 milljónir dollara sem á núgildandi verðlagi væru um 190 milljarðar dollara. Þótt Rockefeller væri afar harðskeyttur í viðskiptum var hann einnig afar örlátur maður, enda hafði hann augljóslega vel efni á því. Árið 1922 hafði hann samanlagt gefið milljarð dollara til góðgerðarmála og ættingja sinna og hefur sennilega enginn gefið jafnmikil verðmæti um ævina, þótt marga aðra hafi auðvitað munað meira um það sem þeir gáfu. Rockefeller dó árið 1937.

Þess má geta að Bill Gates hefur lýst því yfir að megnið af eigum hans muni renna til góðgerðamála að honum látnum en einungis lítill hluti til afkomenda hans.

Mynd:

Höfundur

Gylfi Magnússon

prófessor í hagfræði við HÍ

Útgáfudagur

1.7.2002

Spyrjandi

Birgir Steinn

Tilvísun

Gylfi Magnússon. „Hver er ríkasti maður í heimi?“ Vísindavefurinn, 1. júlí 2002, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2546.

Gylfi Magnússon. (2002, 1. júlí). Hver er ríkasti maður í heimi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2546

Gylfi Magnússon. „Hver er ríkasti maður í heimi?“ Vísindavefurinn. 1. júl. 2002. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2546>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver er ríkasti maður í heimi?
Það er ekki hlaupið að því að finna áreiðanlegar heimildir um eignir ríkasta fólks í heimi enda er allur gangur á því hvort þeir sem til greina koma vilja gefa upp hve mikið þeir eiga. Jafnvel er til í dæminu að þeir reyni að ýkja eða draga úr auði sínum. Sumir vita svo sjálfsagt ekki aura sinna tal!

Engu að síður er hægt að finna mat ýmissa aðila á eignum ríkasta fólks í heimi. Undanfarin ár hefur Bandaríkjamaðurinn Bill Gates, stofnandi Microsoft hugbúnaðarfyrirtækisins, yfirleitt verið talinn ríkastur. Árið 2001 mat tímaritið Forbes eignir hans á 59 milljarða dollara eða ríflega 5000 milljarða íslenskra króna á gengi í júní 2002. Til samanburðar má geta þess að verg landsframleiðsla Íslands árið 2001 var einungis um 750 milljarðar króna. Eignir Bill Gates voru því metnar jafnvirði landsframleiðslu Íslands í um sjö ár. Þess má einnig geta að í lok ársins 2000 var áætlað verðmæti allra bygginga á Íslandi um 1.200 milljarðar króna. Auður Bill Gates hefði því dugað til þess að greiða fyrir þær ríflega fjórum sinnum.

Erfingjar Sam Waltons, sem stofnaði meðal annars verslunarkeðjuna Wal Mart, virðast koma einna næst Bill Gates og raunar eru samanlögð auðæfi þeirrar fjölskyldu talin mun meiri en hjá Bill Gates. Eignir þess ríkasta í fjölskyldunni, Robson Walton, voru af sumum taldar jafnvel enn meiri en eignir Bill Gates árið 2001. Nokkuð víst virðist að systurnar Alice og Helen Walton eru ríkustu konur í heimi. Þær voru taldar eiga 18,5 milljarða dollara hvor árið 2001.

Af öðrum auðkýfingum má nefna fjárfestinn Warren Buffet, eignir hans voru metnar á ríflega 32 milljarða dollara árið 2001. Þá er félagi Bill Gates hjá Microsoft, Paul Allen, ágætlega stæður, eignir hans voru metnar á ríflega 30 milljarða dollara árið 2001.

Rétt er að hafa í huga að ríkidæmi sem byggist á net- og hugbúnaðarfyrirtækjum hefur reynst afskaplega fallvalt. Larry Ellison, aðaleigandi hugbúnaðarfyrirtækisins Oracle, var álitinn nánast jafnríkur og Bill Gates árið 2000 en ári síðar hafði verð hlutabréfa í fyrirtækinu hrunið og eignir hans voru taldar helmingi minna virði.

Aðrir milljarðamæringar en Ellison hafa einnig mátt þola nokkrar þrengingar, ef svo má að orði komast. Japaninn Yasumitsu Shigeta var talinn eiga 25 milljarða dollara árið 1999 en einungis 1,7 milljarða dollara árið eftir og aumar 360 milljónir dollara árið 2001. Annar Japani, Yoshiaki Tsutsumi var af sumum talinn ríkasti maður heims árið 1990, með eignir að verðmæti 16 milljarða dollara. Nú kemst hann varla á blað með eignir upp á 2,8 milljarða dollara.

Ríkustu Evrópumennirnir virðast vera þýsku bræðurnir Karl og Theo Albrecht. Þeir eru jafnríkir og báðir meðal tíu ríkustu manna í heimi. Þeir stofnuðu verslanakeðjuna Aldi. Ríkasta kona í Evrópu og raunar ríkasta kona heims utan Bandaríkjanna, er einnig Þjóðverji, Johanna Quandt. Fjölskylda hennar ræður BMW-verksmiðjunum.

Þessir auðkýfingar blikna þó í samanburði við John D. Rockefeller á sínum tíma. Hann varð einkum ríkur á viðskiptum með olíu. Árið 1913 voru eignir hans metnar á 900 milljónir dollara sem á núgildandi verðlagi væru um 190 milljarðar dollara. Þótt Rockefeller væri afar harðskeyttur í viðskiptum var hann einnig afar örlátur maður, enda hafði hann augljóslega vel efni á því. Árið 1922 hafði hann samanlagt gefið milljarð dollara til góðgerðarmála og ættingja sinna og hefur sennilega enginn gefið jafnmikil verðmæti um ævina, þótt marga aðra hafi auðvitað munað meira um það sem þeir gáfu. Rockefeller dó árið 1937.

Þess má geta að Bill Gates hefur lýst því yfir að megnið af eigum hans muni renna til góðgerðamála að honum látnum en einungis lítill hluti til afkomenda hans.

Mynd:...