Hversu lengi eru áldósir og plastflöskur að brotna niður í náttúrunni og hvaða skaðlegu efni geta losnað?Ál er mjög sterkt efni og er því mjög lengi að brotna niður í náttúrunni. Hversu fljótt það eyðist fer eftir því hversu mikil veðrunin er, það er vindur, úrkoma, tæring og svo framvegis. Hreint ál er ónæmt fyrir flestum sýrum, þar með töldum jarðvegssýrum. Áldunkar eru meira að segja notaðir til þess að geyma í brennisteinssýru og aðrar sýrur. Ál leysist hins vegar upp í kóngavatni (lat. aqua regia) sem er afar tærandi, rjúkandi gulur vökvi, búinn til úr einum hluta saltpéturssýru (HNO3) og þremur hlutum saltsýru (HCl). Lífræn efni eins og alífatísk og arómatísk kolvatnsefni (e. hydrocarbons) hafa mjög lítil áhrif á ál. Ál er mjög stöðugt í snertingu við alkóhól, aldehýð, ketón og fleiri lífræn efnasambönd. Það er þess vegna ekki líklegt að áldós sem hent er út í náttúruna leysist upp fljótlega heldur má búast við því að hver áldós liggi mörg ár úti í náttúrunni áður en hún brotnar niður. Sama gildir um plast að því leyti að það brotnar niður aðallega fyrir áhrif sólarljóss og er því mjög lengi að eyðast. Því meira sólarljós og útfjólublá geislun, því hraðar brotnar plastið niður. Mér vitanlega hafa ekki verið gerðar rannsóknir á því hversu hratt plast brotnar niður í íslenskri náttúru en ljóst er að plastbrúsar geta borist um öll heimsins höf og legið árum saman á ströndum landsins. Æskilegast er því að koma bæði plastbrúsum og áldósum í endurvinnslu og gæta þarf að því að þessi efni liggi ekki á víðavangi úti í náttúrunni. Hvorki ál né plast losa nein sérstaklega hættuleg efni þegar þau brotna niður í náttúrunni. Í þessu sambandi er rétt að nefna að ál er algengasti málmurinn í jarðskorpunni. Plast er hins vegar búið til úr olíuefnum og má segja að olíuefni eigi almennt ekki heima úti í náttúrunni nema þá í djúpum jarðlögum. Mynd:
- Pollution | Kate Ter Haar | Flickr. (Sótt 1.09.2017).