Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Nei, íslenska tóbakið inniheldur hvorki hrossaskít né glerbrot eins og margir telja. Ástæðan fyrir flökkusögunni um að örfín glerbrot séu í munn- eða neftóbaki er líklega sú að stundum svíður mönnum undan tóbakinu.
Í íslenska neftóbakinu er hrátóbak, pottaska (kalín karbónat, K2CO3), ammoníak (NH3), salt og vatn, eins og fram kemur í svari við spurningunni Er hrossaskítur í íslenska neftóbakinu? Líklega er það saltið, pottaskan og ammoníakið sem valda sviðanum.
Það er líklega saltið, pottaskan og ammóníakið í neftóbaki sem valda sviða við notkun.
Í íslenska neftóbakinu ráða tveir basar sýrustiginu (pH), það er pottaskan og ammoníakið. Hrátóbakið sjálft inniheldur svolítið af ammóníaki (0,25%) og er sýrustigið í því um 5,4. Tilbúið neftóbak inniheldur 0,33% ammóníak auk pottösku og er sýrustigið 8,45; íslenska neftóbakið er því frekar basískt.
Ammóníaki er bætt við tóbakið til að hækka sýrustig þess og auka þar með upptöku á nikótíninu en einnig til að verja það fyrir myglu. Erlent neftóbak er stundum gerilsneytt í sama tilgangi og þarf þá ekki að bæta ammóníaki í það. Þannig er sýrustig í neftóbakinu Lunda, sem nýverið kom í búðir á Íslandi, um 7.
Sýrustig á munnvatni í heilbrigðum munni er um 7,2 og í slímhúðinni í nösunum er það um 6,3. Því meiri sem munurinn er á sýrustigi tóbaks og sýrustigi munns eða nasa, því meiri verða viðbrögð slímhúðarinnar á viðkomandi stöðum.
Basarnir einir og sér geta valdið bólgumyndun í slímhúðunum og þar með sviða; saltið eykur svo sviðann. Þannig gætu áhrifin af völdum munn- eða neftóbaksnotkunar verið svipuð því að rispa slímhúðina með örfínum glersalla, sem útskýrir fyrrnefnda flökkusögu. Í báðum tilvikum mundi slímhúðin bólgna upp og viðkomandi einstaklingar upplifa sviða.
Heimildir:
Emelía Eiríksdóttir. „Er það satt að örfín glerbrot séu sett í íslenska neftóbakið til að fá skjótari áhrif?“ Vísindavefurinn, 30. nóvember 2011, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=25184.
Emelía Eiríksdóttir. (2011, 30. nóvember). Er það satt að örfín glerbrot séu sett í íslenska neftóbakið til að fá skjótari áhrif? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=25184
Emelía Eiríksdóttir. „Er það satt að örfín glerbrot séu sett í íslenska neftóbakið til að fá skjótari áhrif?“ Vísindavefurinn. 30. nóv. 2011. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=25184>.